Rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 16:55:57 (2209)


136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[16:55]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim þingmönnum sem hafa talað í þessari umræðu um frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða. Í upphafi var spurningin hvernig með skyldi fara, hvort skipa skyldi nefnd á grundvelli 39. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. rannsóknarnefnd sem þá yrði skipuð þingmönnum, eða hvort setja ætti sérstök lög um rannsóknarnefnd þá sem hér er fjallað um. Sú varð niðurstaðan og ég styð í sjálfu sér að þannig skuli hafa verið farið að.

Alltaf var spurning um með hvaða hætti og hvernig skyldi staðið að, hverjir skyldu eiga sæti í nefndinni, hvert skyldi vera verksvið hennar. Um það voru ýmis sjónarmið, hvað ætti að tiltaka nákvæmar eða hafa almenn orð um og leyfa nefndinni þá að meta og hafa meira um það að segja með hvaða hætti staðið væri að málum. Þetta varð niðurstaðan og fullkomin eining var um það í allsherjarnefnd að afgreiða málið með þeim hætti sem hér er lagt fram með þeim breytingartillögum, sem hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar, hefur gert ítarlega og góða grein fyrir. Þá tel ég að tekið sé á þeim málum sem skipta mestu varðandi nefndarálitið sem hér liggur fyrir, sem allir nefndarmenn í allsherjarnefnd skrifa undir og eru aðilar að.

Það liggur fyrir, virðulegi forseti, að sakir og ýmsar ávirðingar hafa á undanförnum dögum, frá því að af bankahruninu varð, verið bornar á stofnanir og einstaklinga og þannig er það iðulega þegar alvarleg mál ber að höndum. Við búum við það réttarkerfi að hver maður skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð og við megum aldrei víkja frá grundvallaratriðum réttarríkisins. Aldrei er mikilvægara en einmitt þegar vonda hluti ber að höndum, eins og þá sem hafa riðið yfir íslenskt þjóðfélag á undanförnum mánuðum, að þess sé gætt að hvika hvergi frá grunnstoðum og -atriðum réttarríkisins.

Við höfum nú sett lög um sérstakan saksóknara til að fjalla um hugsanleg afbrot eða meint afbrot í sambandi við bankahrunið og vonandi tekst vel til með það. Í því var fullkomin samstaða Alþingis um að afgreiða það mál fljótt og vel. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er rannsóknarverkefni og eins og ég skil það verður málið kannað á breiðum grundvelli og farið í gegnum hvaða atriði gætu hafa orðið þess valdandi að við erum lent í þeim alvarlegu efnahagshremmingum sem um ræðir. Í því sambandi skiptir máli að menn hrapi ekki að niðurstöðum heldur velti við hverjum steini og komist að niðurstöðu eftir vel ígrundaða skoðun.

Þegar farið er út í sérhæfð mál þar sem þarf víðtæka þekkingu og ákveðnar starfsvenjur hafa mótast skiptir miklu máli að þeir sem hafa með rannsókn sem þessa að gera gæti þess að fá fagaðila, sem þekkja til starfseminnar, til þess að fara vel ofan í öll atriði og sjónarmið sem geta komið upp og skipt máli.

Ég velti fyrir mér hvort rétt leið sé farin með hvernig nefndin skal skipuð. Vikið er að því í nefndaráliti þar sem fjallað er um hvaða sjónarmið komu upp í nefndinni og ég sé ekki ástæðu til að rekja það eða gera frekari grein fyrir öðru en því sem þar kemur fram. Síðan er spurning um hvað og hvernig eigi að fara að varðandi þá nefnd sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um, nefndina sem á að fara ofan í siðferðileg sjónarmið um aðdraganda og orsök bankahrunsins. Þá velta menn því fyrir sér og spyrja hvaða viðmiðanir við höfum og á hvaða grunni eigi að byggja starf slíkrar nefndar. Við höfum ákveðnar vísireglur hvað þetta varðar sem hafa m.a. komið fram hjá ýmsum nefndum Sameinuðu þjóðanna sem hafa fjallað um t.d. hvaða siðareglur eigi að gilda um þjóðfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Þannig hafa ýmis fyrirtæki sjálf sett sér ákveðnar siðareglur og m.a. tekið fram að þau skuldbindi sig til að fylgja þeim.

Þau fyrirtæki sem hafa sett hvað ákveðnustu siðareglurnar hafa oft lent í áföllum og verið gripin í því að fara að með hætti sem verður að segja að hafi ekki verið af þjóðfélagslegri ábyrgð. Það er í tilvikum sem þessum að ástæða er til að menn staldri við og skoði hvað og hvernig eigi að fara fram, hvernig við stöndum að málum þannig að við getum í framtíðinni forðast að lenda í sams konar málum og við lendum nú í.

Að sjálfsögðu er mjög mikilvægt að vel takist til og unnið verði af krafti. Það verður að gera og ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að töluvert langt aftur þyrfti að fara. Ég vil minna á, af því að menn hafa talað um skil á einkabönkum og ríkisbönkum, eins og þar hafi orðið algjör stigs- og skilsmunur á þegar um einkavæðingu bankanna var að ræða, að þá hygg ég að þar hrapi menn að ályktun sem eigi sér í raun ekki stoð. Ég vil minna á að við höfðum sterka fjárfestingarsjóði atvinnulífsins, Fiskveiðisjóð, Iðnlánasjóð og Iðnrekstrarsjóð sem voru settir saman í svokallaðan Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Miklar væntingar voru gerðar til að bankinn yrði undirstaða og grunnur til að styðja við og stuðla að atvinnuuppbyggingu og nýjungum í atvinnurekstri.

Þessi banki fetaði fljótt inn á nýjar brautir og hóf svipaða fjárfestingarstarfsemi og nú hefur orðið okkur svo dýr. Það var á meðan bankinn var ríkisbanki og áður en hann komst í hendur einkaaðila. Að sjálfsögðu verður líka að skoða með hvaða hætti og hvernig tókst til með einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma, hvaða sjónarmið réðu þar og hvort þau voru að öllu leyti málefnaleg eða hvort þar var vikið til eðlilegum og réttum reglum í markaðsþjóðfélagi. Þetta skiptir allt máli. Gríðarlega miklu skiptir að skoða með hvaða hætti og hvernig löggjöfin var mótuð af Alþingi og hvernig bæði ríkisstofnanir og einstakir stjórnmálamenn komu að málum og með hvaða hætti þess var gætt að ekki kæmi til þess sem nú hefur orðið.

Eins og ég rakti áðan liggur fyrir að ýmsar ávirðingar eru hafðar uppi í máli manna og einstaklingar iðulega sakaðir um að bera meiri eða minni ábyrgð eða jafnvel sakaðir um það á almannafæri að hafa vikið til réttum reglum og gerst sekir um að fara á svig við lögin. Í sjálfu sér er það ekki óeðlilegt í því þjóðfélagsástandi sem við búum við, en einmitt vegna þess skiptir máli að Alþingi afgreiði hratt tillögur um þá nefnd sem hér er um rætt og hún geti tekið til starfa sem allra fyrst. Þannig að rannsóknarnefndin og sérstakur saksóknari geti byrjað og hafið störf sem allra fyrst og myndarlegum fjárveitingum verði varið til þess að sem fyrst megi koma botn í orsakir þess sem hér um ræðir þannig að saklausir einstaklingar liggi ekki undir grun og ávirðingar séu ekki bornar á þá sem hafa gert sitt besta til að afstýra því að svona færi. Það skiptir miklu máli.

Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum í allsherjarnefnd fyrir góð störf varðandi nefndarálitið sem hér liggur fyrir og að full samstaða skyldi nást og sérstaklega þá formanni nefndarinnar, hv. þm. Birgi Ármannssyni. Ég tel að vel hafi tekist til. Þegar samkomulag eins og þetta tekst liggur fyrir að allir láta af ýtrustu kröfum með einum eða öðrum hætti. En þegar samkomulag næst er það ákveðinn árangur sem ég tel að skipti miklu máli og sé mikils virði þannig að mér finnst mjög mikilvægt að Alþingi geti staðið sameinað að því sem hér er um ræðir þannig að megi hefja störf að þessum málum sem allra fyrst.

Ég vil í lokin lýsa því yfir að þingmenn Frjálslynda flokksins lýsa yfir eindregnum stuðningi við tillöguna og þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir.