Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 17:38:18 (2217)


136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:38]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég get tekið undir sömu atriði og hv. þm. Atli Gíslason minntist á, það er í sjálfu sér gott mál að veiða um 5% fram yfir í rækju og humri inn á næsta ár. En stóra málið í frumvarpinu er að það skuli mega geyma veiðiheimildir á milli ára. Ég hef sagt fyrir mig að nógu slæmt er að það skuli vera 20% en þegar það á að breyta því úr 20% í 33% erum við að tala um, að mínu mati, mjög alvarlega hluti og síldarstofninn er kannski gott dæmi sem við horfum upp á núna. Þar er útgefinn kvóti 170 þús. tonn, 33% geymt af því, það eru á milli 50 og 60 þús. tonn sem má geyma á milli ára. Svo verður kvótinn skorinn niður á næsta ári í 50 þús. tonn og þá má samt veiða yfir 100 þús. tonn. Þetta er lýsing á því sem gæti skeð, alls ekki ólíklegt að þetta gerist á næsta ári. Við horfum því upp á hluti sem eru alls ekki skynsamlegir á einn eða neinn hátt.

Þessu til viðbótar má segja að leiguverð verður hærra allt árið. Síðustu árin hefur það verið þannig að ef tegundir hafa ekki veiðst vel allt kvótaárið hafa þær lækkað í leiguverði síðustu mánuði ársins, eins og æði oft hefur gerst með ufsa og karfa. Reyndar hefur þorskurinn haldið sér tiltölulega hátt alla tíð en ýsa, ufsi og karfi hafa lækkað verulega í verði á síðustu dögum kvótaársins.

Nú mun það breytast til hins verra. Útgerðarmaður hefur þann möguleika að geyma 1/3 á milli ára af útgefnum veiðiheimildum, sem mun þýða að sægreifarnir, þeir sem þetta kerfi er klæðskerasniðið fyrir, þ.e. stórútgerðin, geta með þessu móti haldið uppi óeðlilega háu leiguverði á veiðiheimildum og það mun bitna á sjómönnum sem þurfa að leigja til sín veiðiheimildir. Það mun gera afkomu þeirra verri en afkomu stóru sægreifanna betri. Þetta eru sægreifarnir og leiguliðarnir, þetta eru húsbændur og hjú, fólkið sem er í þeirri stöðu að eiga ekki veiðiheimildir.