Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 17:41:43 (2218)


136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:41]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Meginvirkni frumvarpsins, þegar það er orðið að lögum, mun verða sú að draga úr atvinnu á landinu vegna þess að það dregur úr þeirri skyldu útgerðarmanna að reyna að veiða heimildir sínar og halda uppi veiðireglunni, sem þýðir einfaldlega að minni afli kemur á land og í núverandi ástandi er ekki á bætandi.

Sérstök ástæða er því til að vera á móti þessu atriði fyrir utan það að 20% reglan hefur jafnan dugað mönnum til þess að umgangast þessar veiðiheimildir eins og þeir hafa kosið. Ég sé engin skynsamleg rök fyrir því að hækka þessa tilfærsluskyldu innan fiskveiðiársins úr 20% upp í 33%. Það mun eingöngu verða til þess á fiskveiðiárinu að draga úr atvinnu og við þurfum ekki á því að halda. Þetta skemmir fyrir þeim sem hafa minni veiðiheimildir og hafa verið að leigja til sín en hafa samt verið að gera út og halda uppi atvinnu allt árið, starfsemi þeirra mun dragast saman. Á það er ekki bætandi, hæstv. forseti, eins og nú árar í þjóðfélaginu.