136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

niðurfelling laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

169. mál
[14:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þegar þetta litla frumvarp kemur til 3. umr. háttar þannig til að ég hef ekki átt kost á því að tjá mig um það áður. Í frumvarpinu eru fólgin kannski stærri tímamót en menn átta sig á í fljótu bragði því að hér er hvort tveggja í senn verið að leggja til ráðstöfun á eignum svonefnds Kísilgúrsjóðs og að fella úr gildi lög um Kísilgúrverksmiðju við Mývatn, lög nr. 80/1966, og þar með lýkur langri, á margan hátt merkilegri og um leið umdeildri sögu þessa fyrirtækis. Það er kannski ástæða til að staldra við það stundarkorn.

Hvað varðar fyrra atriðið, að ráðstafa nú eftirstandandi eignum Kísilgúrsjóðs sem eru svo sem engin ósköp, a.m.k. ekki mælt í tölum sem mönnum eru nú tamastar þar sem menn telja varla taka því að tala um minna en milljarða, milljarðatugi, milljarðahundruð eða jafnvel milljarðaþúsund, eru svo sem eins og 20 millj. kr. ekki mikið og þessi sjóður hefur aldrei haft nein ósköp umleikis. En það má kannski verða einhverjum umhugsunarefni og hvatning þegar það er skoðað hversu miklu góðu hann hefur þó komið til leiðar og átt þátt í því að styðja af stað ýmis verkefni sem síðan hefur vaxið fiskur um hrygg og mörg orðið að miklum framfaramálum í viðkomandi héraði.

Þar má t.d. nefna Baðfélag Mývatnssveitar sem er orðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn á þeim slóðum, vantar svo sem ekki að Mývatnssveit hafi þau mörg fyrir en það er ákaflega góð viðbót við þá þjónustu og dægradvöl sem ferðamönnum býðst á svæðinu. Það er eitt helsta ferðamannasvæði landsins og langöflugasta svæðið sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn norðan heiða.

Hvalamiðstöðina á Húsavík má sömuleiðis nefna, allmörg fleiri verkefni og auðvitað fjöldamörg sem sjóðurinn hefur styrkt eða lagt hlutafé til á undanförnum árum, með þó ekki hærri fjárhæðum en kannski 2,5–3 millj. vor og haust, tvisvar á ári. Það hefur engu að síður nægt ásamt með kannski öðru til að koma fjölmörgum góðum verkefnum af stað sem óvíst er að hefðu litið dagsins ljós ella. Þannig hefur sjóðurinn upp á síðkastið styrkt myndarlega verkefni sem tengjast vetrarferðamennsku í Mývatnssveit og á þeim slóðum sem hefur byggst upp með afar athyglisverðum og ánægjulegum hætti.

Nú er hér lagt til að eftirstöðvum sjóðsins, bæði innstæðum hans á bankabók og hlutabréfaeign hans í allmörgum fyrirtækjum sem hann hefur lagt til fé á undanförnum árum, verði ráðstafað til Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga á grundvelli samnings og skal samningurinn hafa það markmið að efla atvinnulíf og nýsköpun, í Skútustaðahreppi auðvitað ekki síst en einnig í Þingeyjarsveit og Norðurþingi, þ.e. á því áhrifasvæði sem mest markaðist á sínum tíma af tilurð Kísilgúrverksmiðjunnar. Þessari ráðstöfun er ég algerlega sammála, ég held að það sé augljóst að eftir að sjóðurinn hættir að hafa tekjur af námagjaldi og lifir þá eingöngu sem slíkur af fjármagnstekjum sínum og eignum sé ástæðulaust að halda utan um ráðstöfun hans sérstaklega. Eðlilegasti aðilinn að sjálfsögðu til að taka við því verkefni er Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga sem hefur reyndar veitt sjóðnum þjónustu um langt skeið.

Þá að hinu ákvæði laganna, að 3. gr. um að fella úr gildi lög um Kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Kísilgúrverksmiðja við Mývatn hefur oft komið á dagskrá á Alþingi og um hana hafa stundum orðið heitar umræður. Saga hennar markaðist lengst af af talsverðum deilum um tilvist fyrirtækisins þar sem tókust á ólík sjónarmið. Annars vegar voru þeir sem horfðu kannski meira á atvinnusköpunina, verðmætin og þá lyftistöng sem hún var í þeim efnum fyrir viðkomandi byggðarlag og svæði og skal þá ekki gleyma Húsavík því að útskipun framleiðslunnar fór fram um Húsavíkurhöfn og var um áratugaskeið aðalgrundvöllur rekstrar og áætlunarsiglinga á þá höfn. Í tengslum við byggingu verksmiðjunnar var lagður nýr vegur upp Hólasand, Kísilvegur gjarnan kallaður af heimamönnum, sem óvíst er að hefði ella litið dagsins ljós, væri kannski sumarslóði enn í dag ef þessi framkvæmd hefði ekki komið til. Að hinu leytinu var þó verksmiðjan frá byrjun umdeild vegna þess að hún sótti hráefnið í botn Mývatns, dældi þar upp kísilríku seti af þörungum sem þar gefa það af sér, margir óttuðust áhrif þessarar námuvinnslu á lífríkið og um það var löngum deilt hvort vaxandi sveiflur og minnkandi silungur og veiði í vatninu ætti að einhverju leyti rót sína að rekja til þeirrar vinnslu. Heimamenn skiptust nokkuð í tvö horn í afstöðu sinni til málsins og þetta var erfitt deilumál innan sveitar allan tímann sem verksmiðjan starfaði. Sjálfur þekki ég það vel af langri sambúð við fyrirtækið að það var ekki alltaf auðvelt að reyna að halda haus og láta skynsemina ráða í þessum efnum, ég sjálfur að sjálfsögðu hallur undir umhverfisverndarsjónarmiðin sem ég ætla ekki að draga dul á um leið og ég skildi og viðurkenndi mikilvægi fyrirtækisins sem vinnuveitanda á svæðinu.

Að lokum réðu hins vegar ekki deilurnar um þennan þátt málsins endalokum þess þó að því sé stundum haldið fram og það jafnvel í blöðum borið á þann sem hér stendur að hafa orðið banamaður Kísilgúrverksmiðjunnar með andstöðu við það að hún fengi framlengd námaleyfi og gæti farið að athafna sig á Bolum eða í Syðri-Flóa þegar hráefni var á þrotum í Nyrðri-Flóa. Það sem að lokum réði lyktum þessa máls var ósköp einfaldlega það að vegna breyttra markaðsaðstæðna missti hinn erlendi eigandi áhugann á áframhaldandi rekstri og hafði ekki áhuga á að fjárfesta í endurnýjun og búnaði sem þurft hefði til að halda starfseminni áfram. Þetta liggur fyrir skjalfest og þarf ekki að þrefa um slíkt. Sögunnar og sannleikans vegna er nú ágætt að láta þetta koma hér fram, enn eru í gangi draugasögur um eitt og annað í þessum efnum.

Þó að lyktir málsins yrðu þessar breytir það ekki hinu að það var orðin talsverð tvísýna um það hvort yfirvöld teldu yfirleitt réttlætanlegt að endurnýja námaleyfið til langs tíma og heimila kísilgúrnám á nýjum svæðum í Mývatni sem er eins og allir vita ein helsta perla okkar og einstakt vatn á margan hátt á norðurhveli jarðar og fá slík reyndar til. Í raun og veru er kannski aðeins eitt vatn í heiminum þekkt sem býr yfir þeim sömu líffræðilegu eiginleikum og Mývatn að fóstra hinn víðfræga kúluskít. (Gripið fram í.) Ég hygg að það sé aðeins í Japan. Kannski er eitthvað í líkingu við þetta til víðar en langmyndarlegastur og frægastur er náttúrlega kúluskíturinn á þessum tveimur stöðum, enda eru þetta vinabæir og hafa með sér samstarf, kúluskítsvötnin tvö, Mývatn og vatnið hið japanska.

Mývatn er á margan hátt einstakt og merkilegt vatn, fóstrar auðugt lífríki, er undirstaða gríðarlegs fuglalífs og silungsgengdar fyrir utan fegurðina sem þar er rómuð. Eðlilega voru þessi mál erfið viðfangs allan tímann, sambúð iðnrekstrarins og athafnasemi mannsins annars vegar og náttúran og ríki hennar og réttur í sjálfu sér hins vegar. Svona lauk sem sagt sögunni eins og hér hefur verið rakið, að lokum breyttust verulega markaðsaðstæður og samkeppnisstaða þess kísilgúrs sem unninn er með þessum hætti og var líka einstakt í heiminum. Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn var eina verksmiðjan í heiminum sem vann hráefni úr vatni, sem sagt úr blautri námu en ekki þurri, þannig að með þessu lýkur á margan hátt stórmerkilegri sögu, virðulegur forseti, og mér finnst ástæða til að vekja aðeins athygli á því hér.

Það má líka margt af þessari sögu læra um það hvernig menn eiga bæði að standa að málum og svo kannski líka ekki standa að málum. Auðvitað ræðir ekki um það í dag. Eins og viðhorf manna til umhverfisverndar hafa breyst á þeim langa tíma frá því að til kísilgúrverksmiðjunnar var stofnað 1966 mundi slíkt aldrei ná fram að ganga í dag, engum manni dytti lengur í hug held ég að fara í eitt af fegurstu og verðmætustu vötnum og lífríki þess á Íslandi og hefja þar námarekstur. En það voru auðvitað aðrir tímar þegar þarna var.

Kísiliðjan markaði djúp spor í atvinnu- og byggðamálum í Mývatnssveit, fyrst og fremst vegna hennar, og í kringum hana byggðist stærsti þéttbýliskjarninn í sveitinni. Einnig kom til bygging Kröfluvirkjunar sem hafði auðvitað líka áhrif þannig að eðlilega voru menn uggandi yfir þeim breytingum sem mundu verða þegar eða ef Kísiliðjan lyki starfsemi. Við því mátti að sjálfsögðu búast eins og mál þróuðust á síðustu árum síðustu aldar og um aldamótin hvað og varð, og í og með þess vegna var Kísilgúrsjóðurinn stofnaður til að stuðla að annarri atvinnuuppbyggingu til hliðar og auka fjölbreytnina í atvinnulífinu þannig að menn væru betur undir það búnir að takast á við breytingarnar ef verksmiðjan lokaði. Það og varð og í reynd sannaði þessi fyrirhyggja gildi sitt því að ég vil leyfa mér að segja að þótt margir hafi vitaskuld orðið fyrir áfalli og orðið að breyta um vinnu og jafnvel búsetu þegar Kísiliðjan lokaði hefur sveitinni þó tekist ótrúlega vel að takast á við þær breytingar og af miklum dugnaði byggja upp aðra atvinnustarfsemi, ekki síst í ferðaþjónustu, þó að minna hafi kannski orðið úr annars konar iðnaði eins og til stóð. Þar hjálpaði Kísilgúrsjóður og fyrirhyggjan sem í því var fólgin að leggja fé til hliðar á meðan starfsemin var í gangi þannig að menn væru ekki með tómar hendurnar þegar eða ef til þessara breytinga kæmi.

Hugsum okkur nú eitt augnablik, frú forseti, að menn hefðu sýnt sömu fyrirhyggju á Suðurnesjum, menn hefðu horfst í augu við það — sem augljóst var a.m.k. 10 árum áður en bandaríski herinn blessunarlega fór — að að því mundi koma og hefðu lagt myndarlega til hliðar og veitt til annarrar atvinnuuppbyggingar, segjum á 10–15 ára tímabili, fjármuni í hlutfallslegum stærðum við það sem var gert í Mývatnssveit. Ætli menn hefðu þá ekki verið betur staddir til að takast á við breytinguna þegar hún skall á þeim, fyrirsjáanleg sem hún þó var? En menn vildu ekki horfast í augu við það að til þessa mundi koma heldur börðu höfðinu við steininn og voru búnir að sannfæra sjálfa sig um að sálarheill og öryggi Íslendinga væru í því fólgin að hér væru a.m.k. að staðaldri fjórar orrustuþotur. Nú er alllangt um liðið síðan þær hurfu og ég veit ekki betur en að að því leyti til hafi Íslendingum liðið bara óvenjulega vel. Það eru aðrir hlutir sem hrjá okkur um þessar mundir en skortur á orrustuþotum í loftinu yfir höfðunum á okkur, svo sannarlega.

Nóg um það, aftur að þessu litla frumvarpi. Ég vil bara kvitta fyrir það með þessari tölu að hér er að ljúka langri sögu sem ég hef aðeins tæpt á, sögu sem verðskuldaði auðvitað betri skil. Kannski verður það einhvern tíma gert í bók eða sagnfræðilegri ritgerð því að það er mikil stúdía í atvinnu-, byggða- og félagslegu tilliti og ekki síður frá sjónarhóli umhverfismála að skrifa þennan kafla í sögu okkar sem hér er þá að ljúka, frú forseti.