Kjararáð

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 20:30:02 (2574)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:30]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að það er mjög alvarlegt ef sú staða er uppi í samfélaginu að fyrirtæki eða stofnanir sem kannski hafa nægar tekjur og möguleika til að hafa sitt starfsfólk á sömu launum og það var með fyrir fall bankanna lækki þær eða skerði.

Hins vegar vil ég bara ítreka að reynslan sýndi á sínum tíma að prestar óskuðu eftir því að fara undir Kjaradóm, og kjararáð seinna, vegna þess að þeir voru í svo erfiðri stöðu við að sækja rétt sinn. Þetta er í raun og veru eina stéttin sem er undir kjararáði. Í þessari stétt er fólk að vinna úti um allt land, eins og t.d. kennarar, lögreglumenn og læknar og fleira fólk þar sem er alveg heil stétt, yfir hundrað manna stétt, hátt á annað hundrað manns sem er töluvert stór hópur miðað við alla hina sem eru meira, hvað eigum við að segja, einstaklingar eða kannski Hæstiréttur sé þá það næsta sem komi á eftir. Þess vegna hafa prestar verið hafðir undir kjararáði. Ég held að ef raunin verður sú í framtíðinni þurfi þeir að fá þá meiri stuðning og styrk frá bræðrum sínum og systrum í öðrum stéttarfélögum ef þeir ættu að taka þátt í kjarabaráttu og njóta þá meiri skilnings. Því miður er það oft þannig á milli stétta að menn bera sig sífellt saman hver við annan (Forseti hringir.) og horfa meira á hvað hinn hefur mikið meira o.s.frv. í staðinn fyrir að sýna samstöðu. (Forseti hringir.)