Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 22:29:06 (2607)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lífeyririnn skerðist ekki vegna launatekna en fari menn fyrr á lífeyri skerðast réttindin. Hið sama gerist í lífeyriskerfi þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna, ef viðkomandi fer fyrr á lífeyri en aldur kveður á um skerðast þessi réttindi. (Gripið fram í: Lífeyrisréttindin.) En munurinn er sá að þegar þeir ná 70 ára aldri fara þeir aftur upp í 100% réttindi en skerðingin hjá hinum heldur áfram.

Við skulum horfa á heildarpakkann vegna þess að þetta er ekki bara spurning um prósentuávinning sem er verulega umfram það sem gerist hjá starfsmönnum hins opinbera, starfsmönnum ríkisins, starfsmönnum sveitarfélaga og þess sem gerist á almennum launamarkaði. Þetta eru sérréttindi og þetta er kattarþvottur hjá ríkisstjórninni þótt hún sé að stíga örlítið skref og þá sérstaklega varðandi ráðherraréttindin sem voru 6% en meiningin er að lækka þau núna niður en það verður gert í júlí nk. Þegar litið er á heildarpakkann erum við eftir sem áður með sérréttindakjör fyrir þingmenn, ráðherra og æðstu embættismenn ríkisins. Það er til skammar að menn hafi notfært sér aðstöðu sína á Alþingi til að skapa sjálfum sér slík sérréttindi og vissulega til skammar ef menn ætla áfram að nota þingið til að staðfesta slíkan sérrétt.