Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 22:50:40 (2610)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér um lífeyrisréttindi þingmanna eins og svo oft áður að kvöldi dags undir lok þings eins og síðasti hv. ræðumaður gat um. Það er vegna þess að laun og lífeyrisréttindi þingmanna eru vandræðamál. Það er alltaf vandræðalegt þegar menn ákveða sín eigin laun. (Gripið fram í.) Þess vegna hef ég nú stungið upp á því að það þing sem situr eigi að ákveða lífeyrisréttindi og laun komandi þings eftir næstu kosningar það tímanlega að öllum þeim sem þykja kjörin góð gætu boðið sig fram til þings. (Gripið fram í.) Þá yrði meiri samkeppni um þingsætin en þá mundum við væntanlega saga greinina sem við sitjum á svo að kannski vilja sumir ekki gera það. En þetta hef ég lagt fram nokkrum sinnum.

Það vill nefnilega svo til að ég flutti frumvarp um lífeyrisréttindi þingmanna 1995. Ég er búinn að sitja allt of lengi á þingi. Með mér á þingmálinu voru hv. þm. Árni M. Mathiesen, núverandi hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heitinn, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hv. þm. Hjálmar Jónsson, hv. þm. Kristján Pálsson og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson.

Það gengur út á að alþingismaður skuli greiða í lífeyrissjóð sem starfar án ríkisábyrgðar. Þá skuli hann velja sér lífeyrissjóð sem staðfestur hefur verið af fjármálaráðuneyti enda heimili reglur sjóðsins aðild. Framlag Alþingis skuli vera í samræmi við reglur þess lífeyrissjóðs o.s.frv. Kjaradómur átti síðan að taka mið af þeim réttindum sem þingmaðurinn tapaði og bæta mönnum það upp í launum.

Nokkrum árum seinna árið 1998 flutti ég frumvarp um þingfararkaup þingmanna næsta kjörtímabil. Þá var hálfnað kjörtímabilið og nægur tími fyrir fólk til að bjóða sig fram með tilheyrandi kostnaði í prófkjörum og slíku hjá þeim flokkum sem viðhafa lýðræði. Þar sem ekki er verið að tilnefna bara á listana. Þá geta menn sem þykja kjörin góð boðið sig fram.

Stuttu seinna, árið 2000 — þetta er löng saga — flutti ég aftur frumvarp um þingfararkaup alþingismanna og þá sagði ég: Alþingismaður sem þess óskar getur tryggt sig hjá viðurkenndum lífeyrissjóði án ábyrgðar ríkissjóðs. Forsætisnefnd Alþingis skal meta hvað hækka beri þingfararkaup almennt ef ekki fellur til ábyrgð ríkissjóðs eða aukaiðgjald og birta niðurstöðuna. Það á að segja hvers virði réttindi þingmanna eru umfram almenning. Ég er sem sagt búinn að dunda heilmikið í gegnum tíðina.

Svo komu frumvörp um kjararáð. Þegar það lá síðast fyrir kom ég því í gegn í minni ágætu nefnd, hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem þá hét, að kjararáð skyldi meta og taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja svo og hlunninda og réttinda sem tengjast embætti og launum svo sem lífeyrisréttindi og ráðningarkjara. Kjararáð skyldi birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega. Ég hef alltaf beðið eftir því að kjararáð segði okkur hvers virði þessi lífeyrisréttindi okkar eru. Það hefur nú ekki gert það enn þá.

Svo var einnig frumvarp um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara sem ógurlegur styr hefur staðið um gegnum tíðina og það bætti vissulega kjör ráðherra og sumra þingmanna. En flestir þingmenn töpuðu á því eða stóðu á sléttu vegna þess að iðgjaldið var hækkað úr 4% í 5%. Ég hef þurft að sæta ámælum fyrir það alla tíð síðan að þarna hefðu menn skarað eld að sinni köku og þó hafa sumir þingmenn tapað á þessu. En menn gátu reyndar valið þannig að þeir völdu bara náttúrlega gamla kerfið ef þeir töpuðu á þessu nýja.

Svo sitjum við frammi fyrir því að við erum með frumvarp til laga um breytingu á þessum lögum klukkan ellefu um kvöld og eigum að fara að ræða þetta. Komið hafa fram tvö frumvörp á Alþingi, annað frá vinstri grænum um að þingmenn eigi að borga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og hitt frá Valgerði Sverrisdóttur svipaðs eðlis. Ég hef sagt að þar er farið úr einu forréttindakerfi í annað vegna þess að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er forréttindakerfi. Í fyrsta lagi er iðgjaldið 15,5%, þarf sennilega að vera hærra, á móti 12% iðgjaldi í almennu sjóðina. Réttindaávinnslan er 1,9% á hverju ári á móti 1,4–1,6% hjá almennu sjóðunum. Það eru mikið betri réttindi. Þarna ætla þingmenn að fara inn með mikið betri réttindi en meginþorri kjósenda þeirra.

70–80% kjósenda okkar hv. þingmanna er fólk sem greiðir í almenna sjóði. Hver skyldi nú vera enn einn munurinn á almennu sjóðunum og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins? Hann er mjög veigamikill. Réttindin í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eru pikkföst með lögum. Iðgjaldið breytist og þegar Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins lendir í áföllum vegna mistaka eða vegna áfalla eins og allur markaðurinn lenti í núna verður iðgjaldið hækkað. Þegar stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins stendur frammi fyrir því að iðgjaldið dugar ekki fyrir réttindunum vegna þess að eignirnar hafa rýrnað í bankahruninu er iðgjaldið hækkað. Hvaðan kemur það nú? Iðgjald ríkisins ekki sjóðfélaga. Og hver skyldi nú borga iðgjald ríkisins nema skattgreiðendur, þ.e. hinir og opinberir starfsmenn að sjálfsögðu líka. Það mun koma í ljós annaðhvort í haust eða næsta haust að margur lífeyrissjóðurinn þarf að skerða réttindi sjóðfélaga sinna. Á sama tíma þarf að auka skattheimtu til að standa undir pikkföstum réttindum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ég hef kallað þetta tímasprengju.

Svo erum við með annað fyrirbæri sem er B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Það er algjör forréttindahópur. Hann er nefnilega eftirmannsreglan. Þar fylgja launin starfi eftirmannsins. Þau réttindi hafa hækkað með ólíkindum í þeirri launahækkun sem við höfum upplifað undanfarin tíu ár. Það fólk er með verulega góð lífeyrisréttindi og það vill svo til að margir af þeim sem heyra undir kjaradóm, þ.e. forstöðumenn ríkisstofnana, ráðuneytisstjórar og fleiri, eru í B-deildinni. Það er tímasprengja númer tvö vegna þess að þarna er mismunurinn milli fólks sem vinnur hlið við hlið. Þeir sem eru nýbyrjaðir eiga að borga í A-deildina en þeir sem voru áður eru í B-deildinni.

Hjá sama atvinnurekanda vinnur svo fólk frá Eflingu í umönnunarstörfum og þess háttar og það borgar í almenna lífeyrissjóði. Hjá sama atvinnurekanda erum við með þrenns konar lífeyrisréttindi. Það er tímasprengja númer þrjú. Við erum sem sagt búin að byggja upp tímasprengjur í þessu kerfi og það er mjög alvarlegt. Ég tel eins og kemur fram í þeim frumvörpum sem ég hef flutt hér að þingmenn eigi bara að leggja spilin á borðið og hafa launakjörin gagnsæ. Það er krafan í dag að hlutirnir séu gagnsæir.

Ég mun flytja breytingartillögu við 2. umr. um þetta frumvarp þar sem ég legg til að þingmaður geti valið sér lífeyrissjóð í þjóðfélaginu sem er tilbúinn til þess að taka á móti honum, Lífeyrissjóð verslunarmanna, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins A-deild, Lífeyrissjóð Eflingar o.s.frv. Hann geti valið sér lífeyrissjóð en kjaradómur eigi að reikna út hvers virði hlunnindin eru sem hann afsalar sér og bæta þau upp með launum. Þá kemur loksins í ljós hvers virði þessi lífeyrisréttindi eru. Þá mun koma í ljós hvaða laun þingmenn eru raunverulega með.

Í þessu sambandi vil ég minna á að forseti Íslands var skattfrjáls sem og maki hans. Það skattfrelsi var afnumið með frumvarpinu sem ég flutti og hvað gerðist þá, herra forseti? Þá komst kjararáð að því að hann var með mikið hærri laun en menn vissu áður. Þá hækkaði forseti Íslands langt upp fyrir forsætisráðherra. Nú er forseti Íslands með hæst launuðu starfsmönnum ríkisins, en samt ekki alveg, á meðan forsætisráðherra er ekki með voðalega há laun miðað við suma aðra þótt ég teldi að hann ætti reyndar að vera með hæstu launin en það er önnur saga.

Ég tel að þingmenn eigi að vera með sömu réttindi og umbjóðendur þeirra, kjósendur. Og þar sem 75–80% kjósenda okkar eru í almennum sjóðum og þurfa hugsanlega að sæta skerðingu, þegar áfall bankanna kemur fram í lakari stöðu lífeyrissjóðanna, er eins gott að þingmenn upplifi það líka að þeir viti hvað brennur á kjósendum og séu ekki með einhver forréttindalífeyrisréttindi.

Í mörgum löndum, m.a. í Bretlandi, er nú verið að ræða um forréttindalífeyrisréttindi en menn hafa byggt þau upp mjög víða. Ég vara eindregið við því að viðhalda svoleiðis misrétti því að það er mjög erfitt að koma auga á það. Hjá gömlu ríkisbönkunum voru lífeyrisréttindin t.d. 6% fyrir hvert ár. Þó var hámarkið 90%. Eftir 15 ár voru menn komnir með 90% af bankastjóralaunum. Þá gátu menn skipt um og farið í annan ríkisbanka og byrjað að safna sér réttindum aftur.

Ég held að menn ættu að fara að skoða lífeyrisréttindin dálítið í þessu kerfi öllu saman því að þar er verið að fela laun sem enginn sér. Ég er á móti því. Ég vil að laun séu uppi á borðinu. Þegar maður spyr einhvern hvað hann er með í laun þá heyri maður ekki einhverja rullu um að byrjunarlaunin séu þetta og þetta, 70 þús. kr. á mánuði eða eitthvað svoleiðis sem er ekkert að marka. Þegar ég spyr mann um launin hans vil ég að hann segi mér hvað hann er raunverulega með í laun og inni í því eru t.d. lífeyrisréttindi, uppsafnaður réttur o.s.frv.

En ég get nú ekki sleppt þessari umræðu um þingfararkaupið öðruvísi en að minnast á að þingmenn eru eina stéttin eða sennilega ein af fáum sem þarf að borga helling fyrir að komast inn í þingsal þar sem þeir fara í prófkjör. Síðast borgaði ég 3 millj., fékk reyndar pínulítið í styrk en að mestu leyti borgaði ég þetta sjálfur svo að ég var kauplaus alla vega fram að jólum.

Það er svo sem allt í lagi. Ég er ekkert að kvarta yfir því. Þetta var mín eigin ákvörðun og ég er ekkert að kvarta yfir því en bendi á þetta. Svo vil ég einnig benda á að þingmenn fá ekki greitt fyrir reynslu, menntun eða neitt slíkt. Slíkt skiptir ekki neinu máli. Það skyldi nú ekki vera að það sé þess vegna sem enginn læknir er á þingi.