Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 09:49:01 (2757)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[09:49]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, því hér halda árásir á eldri borgara og öryrkja áfram. Sennilega er rétt sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði áðan að hér er um rétta forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að ræða og þá vitum við það. Samfylkingin er hlaupin frá öllum kosningaloforðum sínum. Í umræðunni tekur hún nánast engan þátt og einn þingmaður mætti við umræðuna um þessa lagasetningu í gær, hv. varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur, með vítissóda og ræstiduft að vopni og líklega klósettbursta — (Gripið fram í.) Ágúst Ólafur Ágústsson, hæstv. forseti, — til að reyna að hvítskúra Samfylkinguna, sem fyrir löngu er hlaupin frá öllum loforðum sínum, en, virðulegi forseti, það dugði ekki til. (Gripið fram í.)