Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 09:53:05 (2760)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[09:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Eins og allir vita er Ísland að ganga inn í mjög djúpa kreppu. Við neyðumst til að skera víða niður og m.a. í velferðarkerfinu. Við förum ekki í neinn feluleik með það. En það er rangt að gefa í skyn að hér sé verið að brjóta eitthvert blað, það séu einhver vatnaskil. Íslendingar vita að margs konar gjöld eru í heilbrigðiskerfi okkar. (Gripið fram í.) Sjúklingagjöld á Landspítalanum eru nú um 2 milljarðar. Kostnaðarhlutur sjúklinga í íslenska heilbrigðiskerfinu er um 20 milljarðar þannig að hin mikla kostnaðaraukning sem við færum á sjúklinga er um 2%. Við reynum að forgangsraða í þágu velferðar, við erum að vernda vaxtabæturnar, skattleysismörkin (Gripið fram í.) og barnabæturnar. (Gripið fram í.) Lægstu bætur hafa hækkað um 50% (Gripið fram í.) á einu ári. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Lægstu bætur hafa aldrei verið eins háar í samanburði við dagvinnutryggingu og þetta vita þingmenn. Ef við stöndum frammi fyrir 175 milljarða kr. halla er ábyrgðarhluti (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) að vísa þeim halla til framtíðarinnar eins og hv. þingmenn Vinstri grænna (Forseti hringir.) vilja gera. (ÖJ: Í hvaða flokki er þingmaður?)