Fjáraukalög 2008

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 10:00:27 (2764)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[10:00]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp til fjáraukalaga kom mjög seint fram og talið var að það stafaði af falli bankanna en hins vegar er ekkert í frumvarpinu sem tengist því máli þannig að frumvarpið hefði getað komið fram mun fyrr. Við gerum ráð fyrir að fá tillögur fyrir 3. umr. eins og hér kom fram hjá formanni nefndarinnar.

Ég vek athygli á því að mikill uppsafnaður rekstrarhalli er hjá heilbrigðisstofnunum og öldrunarstofnunum. Verið er að taka á því að hluta til hjá heilbrigðisstofnunum en ekki öldrunarstofnunum. Þessar stofnanir munu því hefja næsta rekstrarár með halla, auk niðurskurðar í fjárlögum ef ekkert verður að gert en við þurfum auðvitað að skoða þetta á milli umræðna.

Nokkrar breytingartillögur liggja fyrir frá fjárlaganefnd sem samstaða er um. Við framsóknarmenn munum styðja þær en að öðru leyti sitja hjá við a.m.k. flestar þær tillögur sem liggja fyrir í frumvarpinu.