Fjáraukalög 2008

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 10:01:33 (2765)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[10:01]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. og afgreiðslu fjáraukalaga er ljóst að ýmsar upplýsingar vantar, eins og kom fram í máli hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar. Líka kom mjög skýrt fram í nefndaráliti minni hlutans að við teldum að margar veigamiklar upplýsingar og lagfæringar vantaði inn í fjáraukann m.a. að því er varðaði öldrunarstofnanir, heilbrigðisstofnanir og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Við væntum þess auðvitað að þær tillögur berist og að við fáum tækifæri til að fjalla um þær en það verður að segjast alveg eins og er að ekki hefur verið gefinn mikill tími til að fara í gegnum breytingartillögur og lagfæringar á þessum frumvörpum.

Þær fáu tillögur sem hér eru til lagðar til lagfæringar, 10 að tölu, er samkomulag um og við munum styðja þær.