Virðisaukaskattur, vörugjald o.fl.

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 10:24:35 (2774)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

virðisaukaskattur, vörugjald o.fl.

247. mál
[10:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu sem er að finna á þskj. 421 við frumvarp til laga á þskj. 364, við breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt o.fl.

Ég gerði grein fyrir þessum breytingartillögum við 1. umr. en þær ganga út á það, frú forseti, að endurgreiðsla á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts til kaupa á bílum sem geta flutt 18 manns eða fleiri taki ekki aðeins til hópferðabíla heldur einnig til almenningsvagna, þ.e. strætisvagna. Á þingskjalinu segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Við 1. gr. bætist nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: 3. málsl. í ákvæði til bráðabirgða X í lögunum fellur brott.“

Í lagatextanum stendur að ákvæðið taki ekki til almenningsvagna, þ.e. heimildin til að endurgreiða tvo þriðju hluta virðisaukaskatts af nýkeyptum hópferðabílum gildir ekki ef þeir verða notaðir sem almenningsvagnar. Þetta er fráleitt, í fyrsta lagi vegna þess að það stenst ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Enginn munur er á hvort um er að ræða hópferðabifreið eða strætisvagn og benda má á að sum fyrirtæki eru með hvort tveggja í sinni eigu og þjónustu, t.d. Strætó bs. sem er með almenningssamgöngur upp á Akranes og notar til þess hópferðabíla að einhverju leyti. En um leið og þeir verða almenningsvagnar og sinna almenningssamgöngum fæst ekki endurgreiddur af þeim þessi hluti virðisaukaskatts sem hópferðabifreiðum er tryggður.

Í öðru lagi leggjum við til að hér bætist við nýr kafli um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum í þessari grein, sem hljóði svo að í stað orðanna „skuli endurgreidd 80% olíugjalds“ í 1. mgr. 6. gr. laganna komi: skal endurgreitt að fullu olíugjald.

Þetta fjallar um, frú forseti, að þegar olíugjaldið var tekið upp átti það ekki að vera meira íþyngjandi gagnvart almenningssamgöngum en gjaldtakan hafði verið áður. Reynslan hefur sýnt að 80% endurgreiðslan gerir að verkum að fyrir strætisvagna í almenningssamgöngum er nú greitt meira heldur en fyrir upptöku olíugjaldsins og því er þetta lagt til.

Ég vek athygli á því að hér eru þessi mál flutt sem breytingartillögur við árlegt framlengingarfrumvarp þeirra ákvæða sem er að finna í frumvarpi til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt o.fl. Áður hefur málið verið flutt sérstaklega á tveimur ef ekki þremur þingum. Markmiðið er auðvitað, frú forseti, að styðja við almenningssamgöngur í landinu og það er aldrei brýnna en einmitt nú að stjórnvöld geri það. Vegna hvers? Vegna þess að ekki er aðeins um loftgæðin að tefla og ábyrgð okkar í loftslagsmálum heimsins, en við mengum nú hlutfallslega meira en nokkrir aðrir Evrópubúar og er það sorgleg staðreynd. Mengunin er aðallega frá umferð. Umhverfismengun frá umferð er mesta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu. Mjög mikill ávinningur er að því að efla almenningssamgöngur og draga úr notkun einkabíla.

Í öðru lagi, frú forseti. Á þeim tímum sem við lifum núna, tímum gjaldeyrissparnaðar, gjaldeyrishafta, á tímum þar sem þjóðinni veitir ekki af að nýta hverja einustu krónu sem hún kann að afla í erlendum gjaldeyri til að greiða niður skuldir og greiða fyrir lífsnauðsynlega hluti sem við viljum fá inn í landið þá er hér um gríðarlega mikinn sparnað að ræða í innkeyptri olíu og bensíni. Það segir sig sjálft að ef eitthvert vit væri í aðhaldsaðgerðum og horft væri fram á veginn hjá ríkisstjórninni væri þetta ein af áherslunum sem mundi fljótt skila árangri að styðja við almenningssamgöngur þannig að fólk geti lagt einkabílunum og sparað bæði þjóðarbúinu og einstaklingum mikil fjárútlát í bensínkaupum. Því er það, frú forseti, að ef, þrátt fyrir harðæri og hallæri, einhverjum skyldi detta í hug að standa við fyrirhuguð kaup á almenningsvögnum til landsins á næsta ári væri eðlilegt að mínu viti að sömu reglur giltu og um aðra hópbíla til fólksflutninga og það fyrirtæki fengi endurgreidda tvo þriðju af virðisaukaskattinum.

Frú forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir breytingartillögunni.