Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 10:45:58 (2779)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:45]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að fólkið í landinu býr við mismunandi réttindi. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega ófaglært verkafólk og lífeyrissjóði þeirra, eða ég skildi ræðu hans þannig, og bendir á það óréttlæti. Ég er algerlega sammála því. Allir landsmenn eiga að búa við jafnan lífeyrisrétt. En er þá ekki eðlilegt, hv. þm. Pétur Blöndal, að rétta hlut ófaglærðs fólks eða rétta hlut fólks sem eru sjóðfélagar í hinum almennu lífeyrissjóðum, sem ég kalla svo, að færa þau upp þannig að þau séu mannsæmandi en lúti ekki skerðingum eins og nú blasir við vegna efnahagsstefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins frá 1991? Ég spyr líka hv. þingmann: Hvernig megna breytingartillögur hans, sem ég veit að eru fluttar af góðum hug og með góðan tilgang, að rétta hlut þeirra sem verst eru settir í lífeyrissjóðakerfinu? Hvernig fer hv. þingmaður fram til að svara þeirri gagnrýni sem hann setur fram á misréttið? Hvað vill hann gera í þeim málum?