Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 11:34:31 (2785)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[11:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að ég hafi verið æstur, það hefur komið fyrir fleiri, en hann segir að ég vilji færa réttindi opinberra starfsmanna niður. Nei, ég vil bara sýna þeim hvaða laun þeir hafa, það er munurinn, (ÖJ: Að hvað?) hvaða laun þeir hafa. Og ég ætla að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Mun hann samþykkja tillögu mína og leyfa mér að borga í lífeyrissjóð sem velflestir kjósendur mínir greiða til, með sömu réttindi þannig að ég fái að upplifa skerðinguna sem mun koma sem hv. þingmaður mun verða laus við?

Svo langar mig til að spyrja: Á reglan sem hann setur upp í 3. breytingartillögu sinni að gilda fyrir opinbera starfsmenn almennt og lífeyrissjóðakerfið almennt? Það gildir í öllu lífeyrissjóðakerfinu að fólk fer á eftirlaun og fær þau algerlega óháð því hvort það vinnur áfram eða ekki. Menn eiga rétt á þessu. Þeir eru búnir að borga fyrir þetta og þeir fá lífeyri, 67 ára eða hvað það nú er, 70 með hækkun þá, og þá eiga þeir rétt á þessum lífeyri og fá hann óháð tekjum. Ætlar hann að breyta þessu, hv. þingmaður, hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem hann situr í stjórn, hjá öllum opinberum starfsmönnum, hjá öllum félagsmönnum stéttarfélaganna?

Síðan er þriðja spurningin. Hv. þingmaður situr í stjórn LSR og þá ætla ég að spyrja hann: Hvaða áfall dundi á LSR við bankafallið og hvað hefði þurft að skerða lífeyri mikið — hann hlýtur að vita það sem stjórnarmaður — ef reglur almennu sjóðanna hefðu gilt og hvað þarf að hækka iðgjaldið mikið hjá ríkinu vegna þessa áfalls sem lífeyrissjóðurinn varð fyrir undir hans stjórn? Svo væri gaman að heyra hver stjórnarlaunin eru.