Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 14:27:30 (2819)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:27]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég beindi orðum mínum til hv. samfylkingarmanna er sú að þeir hafa ekki fyrst og fremst verið að reyna að ná árangri í því að breyta þessum lögum heldur hafa þeir verið með sýndarmennskutillögur. Hvers vegna flutti Samfylkingin t.d. frumvarp í fyrra til breytinga á eftirlaunalögunum án þess að hafa um það samráð við samstarfsflokkinn á sama tíma og ákvæði var í stjórnarsáttmála um að stjórnarflokkarnir ætluðu í sameiningu að breyta eftirlaunalögunum umdeildu? Var það líklegt til að ná árangri? Það var nefnilega ekki líklegt til að ná árangri enda var ekki um það að ræða. Það var ekki spurning um að ná árangri. Það var spurning um sýndarmennsku og reyna að láta líta svo út að Samfylkingin væri eini flokkurinn sem hefði einhvern áhuga á að breyta þessu lögum. Það er málið. Þess vegna leyfi ég mér að gagnrýna þennan málatilbúnað og tel mig hafa fulla ástæðu til að gera það.