Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 14:30:44 (2822)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Forsagan er nú kannski ekki aðalatriði þessa máls þegar við stöndum með þetta frumvarp í höndunum þar sem hæstv. ríkisstjórn er eftir hartnær tveggja ára tíma að bögglast við að koma sér frá málinu og heldur óhönduglega. Hún gengur þar ekki hreint til verks, mun skemur t.d. en frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar á síðasta þingi gerði.

En vegna söguskýringar hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur vil ég taka fram að það er oftúlkun að segja að það hafi verið um það samkomulag milli formanna allra þáverandi stjórnmálaflokka að flytja frumvarpið eins og það var lagt fram í endanlegri gerð. Það er oftúlkun.

Hið rétta er að okkur, formönnum stjórnarandstöðuflokkanna á þeim tíma, voru kynnt drög að frumvarpi fyrst og fremst á einum fundi í ráðherrabústaðnum með þáverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra og gott ef þáverandi utanríkisráðherra var ekki með. Þau frumvarpsdrög sem þá lágu fyrir gengu mun skemmra en frumvarpið sem síðan var lagt fram í endanlegri mynd. Þá var t.d. búið að auka verulega við þau réttindi sem forsætisráðherra voru sérstaklega færð í þessu margrómaða eftirlaunafrumvarpi. Það var kannski að lokum fyrst og fremst frumvarp um stóraukin eftirlaunaréttindi forsætisráðherra og þeirra sem áður höfðu verið ráðherrar og urðu forsætisráðherrar í stuttan tíma.

Það er mín aðild að þessu máli og ég hef viðurkennt það sem mistök að hafa ekki lagst gegn því að málið færi áfram. Þvert á móti var ég því fylgjandi, eins og við vorum á þessum fundi, að þetta yrði unnið áfram. Það hef ég viðurkennt að hafi verið mistök sem ég sé eftir en við því verður ekki gert.

Frumvarpið eins og það kom endanlega búið frá þáverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra hafði tekið miklum breytingum og gekk mun lengra en þau drög sem áður höfðu verið rædd og áttu fyrst og fremst (Forseti hringir.) að vera tæknilegar lagfæringar og samræming þessara réttinda í eina löggjöf eins og lagt var upp með.