Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:07:03 (2832)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:07]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að hæstv. utanríkisráðherra geti staðfest það að á nokkrum fundum sem ég hef átt með henni og hæstv. forsætisráðherra um þetta mál hef ég ævinlega lýst því yfir að lífeyrisréttindamálið og eftirlaunafrumvarpið svokallaða mætti koma inn í þingið. Því var líka lýst yfir við fyrri forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, að við í Frjálslynda flokknum værum tilbúin að taka málið til efnislegrar umræðu hvenær sem væri en við neituðum hins vegar, og ég geri það enn, að afgreiða slík mál í flýti rétt fyrir jól eða rétt fyrir þinglok. Þetta hef ég margsagt og ef minni utanríkisráðherra er í lagi veit ég að hún man þessi orð. Það hefur því aldrei staðið á þeim sem hér stendur að taka þátt í að skoða þetta mál.

Ég vek hins vegar athygli á því vegna orða sem hér féllu hjá hæstv. utanríkisráðherra um að allir hefðu komið að sátt um þetta mál, og ég held að hv. þm. Steingrímur Sigfússon hafi líka vikið að því á sínum tíma að ég hefði verið boðaður á einhvern fund í ráðherrabústaðnum um þetta mál. Það er ósatt, ég var aldrei á nokkrum einasta fundi um þetta mál í ráðherrabústaðnum (Forseti hringir.) svo því sé haldið til haga.