Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:09:43 (2834)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:09]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er of mikil sýndarmennska og of mikill hroki til að maður sitji þegjandi undir því. Hæstv. utanríkisráðherra gefur hér í skyn að Samfylkingin hafi haldið þessu máli vakandi í mörg ár, nú sé Samfylkingin komin til valda og hókus, pókus, málið er leyst. Við erum búin að klappa þennan stein svo lengi, segir hæstv. utanríkisráðherra. (Gripið fram í: Það er líka alveg rétt.) Þetta er ekki svona, virðulegur forseti.

Eins og lýst var áðan af formanni Framsóknarflokksins, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, beitti Framsóknarflokkurinn sér þegar við vorum með forsætisráðherraembættið fyrir samkomulagi um breytta löggjöf. Það tókst ekki, m.a. út af hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Síðan er þetta mál sett inn í stjórnarsáttmálann hjá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni og hvað gerist? Samfylkingin veður fram með málið, gott mál en veður fram með það í þinginu og skilur Sjálfstæðisflokkinn eftir á nærbrókinni, algerlega á nærbrókinni. Þeim leið ekki vel, hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þá. Ég man það mjög vel, þeim leið ekki vel, enda búið að stilla þeim algerlega upp við vegg. Ekki var leitað eftir neinu samráði og málið sett í þann farveg að Samfylkingin væri komin til að bjarga því sem bjargað yrði. Svei, þetta var ekki svona, virðulegur forseti. Það hafði verið reynt að ná samkomulagi og Samfylkingin skal eiga það sem hún á í því, hún hjálpaði ekki til við að koma á samkomulagi. Nei, þetta tafði málið þannig að nú er það loksins komin fram og þá er það stjórnarfrumvarp. Ef þetta er aðferðin, ef þetta eru heilindi í ríkisstjórnarsamstarfi, þá spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Má búast við að fleira verði tekið úr stjórnarsáttmálanum? Ætlar Samfylkingin að flytja fleiri slík mál og skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir á brókinni í því ef þetta er leiðin til að ná árangri?