Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:42:52 (2841)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson þriggja spurninga. Telur hann það vera forréttindi innan B-deildar opinberra starfsmanna að sameiginlegur starfs- og lífaldur, svokölluð 95 ára regla, geri fólki kleift að fara á eftirlaun 60 ára gamalt?

Í öðru lagi. Samkvæmt A-deildinni ávinna þeir sem þar eru sér 1,9% á ári með því að greiða 4% af launum sínum. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé sammála þeirri stærðfræði minni að þar sem alþingismenn greiði 5% af sínum launum öðlist þeir 2,375% sem er samkvæmt starfsævinni 5 × 1,9 deilt með 4. Þar sem alþingismenn greiða 5% njóta þeir 2,375% en þeir sem greiða 4% fá 1,9%.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Hvað er í raun ósanngjarnt við þetta? Og í öðru lagi: Telur hann þetta vera forréttindi?