Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:46:27 (2843)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það hafi komið berlega í ljós að þingmaðurinn var í máladeild og lærði lítið í stærðfræði. Það var hins vegar ljóst að hann lýsti því yfir mjög formlega að það væru forréttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins innan B-deildarinnar, sem mér og fleirum er kunnugt að var lokað 1. janúar árið 1997. Það hafa viðgengist forréttindi í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna frá stofnun hans, það er ekkert flóknara en það.

Herra forseti. Samkvæmt stærðfræðinni er 5 sinnum 1,9 9,5. Deilt í það með 4 gera 2,375, þannig að þingmaður sem greiðir 5% af launum sínum fær 2,375 á meðan sá sem er í A-deildinni greiðir 4% af launum sínum og ávinnur sér 1,9. Þetta er bara gallhörð stærðfræði, hv. þm. Ögmundur Jónasson, og ég ætla ekki að deila við hann um kunnáttu hans í stærðfræði eða mína kunnáttu, ég reikna þetta út með þessum hætti. En ég fagna því að hv. þm. Ögmundur Jónasson lýsti því hér formlega yfir að forréttindin væru fyrir hendi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins en hann er ekki tilbúinn að veita okkur þingmönnum frelsi til þess að velja okkur lífeyrissjóði óháða forréttindum. Það segir meira en mörg orð, hæstv. forseti.