Ríkisútvarpið ohf.

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:54:24 (2846)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., sem hv. menntamálanefnd Alþingis flytur.

Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi með lögum nr. 6/2007. Í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna er gert ráð fyrir að í stað afnotagjalds verði tekið upp sérstakt útvarpsgjald sem lagt verði á einstaklinga og lögaðila 1. janúar 2009. Frá sama tíma fellur brott innheimta afnotagjalds samkvæmt ákvæði til bráðabirgða V í lögum um Ríkisútvarpið ohf. Var við það miðað að við þetta tímamark yrði fjárhæð gjaldsins endurskoðuð. Ljóst er hins vegar að ákveðin vandkvæði eru á innheimtu gjaldsins og ráðstöfun þess til félagsins. Þykir því rétt að leggja til að gjaldið renni í ríkissjóð. Í samræmi við þessa framsetningu er lagt til að heiti greinarinnar verði breytt til samræmis við 2. og 3. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna, þar sem talað er um tekjur félagsins.

Í c-lið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að fjárhæð gjalds skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna hækki úr 14.580 kr. í 17.200 kr. Í athugasemdum við 1. mgr. 11. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 6/2007 kemur fram að við útreikninga á gjaldinu hafi verið gert ráð fyrir óbreyttum tekjum Ríkisútvarpsins ohf. og höfð hliðsjón af tekjustreymi félagsins á árunum 2005 og 2006 og lagt til grundvallar að allir gjaldendur sem féllu undir lögin stæðu skil á gjaldinu. Í frumvarpinu var jafnframt tekið fram að eðlilegt væri að fjárhæð gjaldsins yrði endurskoðuð þegar nær drægi breytingu á tekjustofnum Ríkisútvarpsins ohf. úr afnotagjaldi í sérstakt útvarpsgjald skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna. Þá var því sjónarmiði lýst að haga bæri álagningu gjaldsins þannig að hvert heimili með tvo einstaklinga sem greiða mundu gjaldið yrði nokkurn veginn jafnsett eftir upptöku gjaldsins. Við það er miðað að þeir einstaklingar sem greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra greiði útvarpsgjaldið, svo og þeir lögaðilar sem eru skattskyldir og bera sjálfstæða skattaðild. Undanskilin álagningu gjaldsins eru dánarbú, þrotabú og ýmsir lögaðilar, svo sem stofnanir í eigu ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Til viðmiðunar var gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra lagt á 185.532 einstaklinga álagningarárið 2008 vegna tekna árið 2007 og hafði þeim fjölgað um 2,35% frá árinu á undan. Undanþegnir gjaldinu voru einstaklingar með tekjuskattstofn undir 1.080.067 kr., þar með taldir námsmenn 16 ára og eldri undir þeim tekjumörkum. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra voru lögaðilar á skrá í október sl. 41.198. Af þeim voru lögð opinber gjöld á 32.868 vegna tekna þeirra á árinu 2007. Fjöldi lögaðila sem greiddi opinber gjöld í október sl. var 24.409. Með hliðsjón af framansögðu, og að teknu tilliti til þess að atvinnu- og tekjuhorfur þykja óvissar nú um stundir, þykir varlegt að áætla að greiðendur gjaldsins verði um 205.000 á árinu 2009, en vitanlega ríkir nokkur óvissa um þann fjölda. Með því að láta gjaldið renna í ríkissjóð er aukin vissa í rekstri Ríkisútvarpsins ohf., en ríkissjóður mun bera áhættuna af óvissu um fjölda greiðenda sem félagið hefði ella borið.

Árleg greiðsluskylda afnotagjalds skv. 12. gr. laga, nr. 122/2000, um útvarpsgjald og innheimtu þess, nemur nú 35.940 kr. á hvert heimili. Hér er lagt til að hækkun gjaldsins frá því sem ákveðið er í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. taki mið af því sjónarmiði sem áður er lýst, að haga beri álagningu gjaldsins þannig að heimili með tvo einstaklinga sem greiða mundu gjaldið verði því næst sem jafnsett eftir upptöku gjaldsins. Samkvæmt þessu yrði gjaldið 17.200 kr., sem felur í sér rétt um 18% hækkun heildartekna Ríkisútvarpsins ohf. frá gildandi lögum. Tekjuaukning félagsins stafar að mestu af því að lögaðilar með sjálfstæða skattaðild greiða gjaldið nú, en greiddu það ekki áður. Rétt er að benda á að upptaka gjaldsins snertir gjaldendur með ólíkum hætti eftir því annars vegar hve margir deildu greiðslum afnotagjalds og hins vegar hvernig álagningin varðar einstaklinga og lögaðila. Þannig munu sumir verða undanþegnir gjaldinu og greiðslur þeirra sem eru einir í heimili munu í flestum tilvikum lækka.

Í greinargerð með frumvarpinu eru ýmsar aðrar tölulegar upplýsingar um forsendur þess hvernig tryggja ber Ríkisútvarpinu tekjur. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það en vil þó segja að hæstv. menntamálaráðherra lagði fram á þingi frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Það frumvarp varðaði bæði tekjur Ríkisútvarpsins en mælti einnig fyrir um reglur hvað varðar heimildir Ríkisútvarpsins til þess að afla sér tekna með sölu auglýsinga. Eins og áður segir flytur hv. menntamálanefnd þetta frumvarp og frumvarpið varðar einungis tekjustofna Ríkisútvarpsins en auglýsingamálin og aðrir hlutir eru lagðir til hliðar. Nefndin telur að við þessar aðstæður sé eingöngu rétt að afgreiða þann þátt sem varðar tekjustofna Ríkisútvarpsins ohf. en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekið verði upp sérstakt gjald sem leggst á einstaklinga og lögaðila.

Þó skal tekið fram að meðal þeirra flokka sem skipa menntamálanefnd eru skiptar skoðanir um innheimtu gjaldsins og rekstrarform Ríkisútvarpsins ohf. Enn fremur ítrekar nefndin og flutningsmenn frumvarpsins að hér er einungis um tímabundna ráðstöfun að ræða varðandi fjárhæð gjaldsins og önnur atriði frumvarpsins, og þá frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið ohf., sem lagt var fram á þessu þingi á þskj. 295, 218. mál, en það er það frumvarp sem ég vék að hér áðan.

Ég vil taka það sérstaklega fram að menntamálanefnd áréttar að þó svo að reglur sem varða takmörkun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði séu ekki afgreiddar að svo stöddu, samanber áðurnefnt frumvarp, þá verða þær áfram til meðferðar hjá menntamálanefnd. Nefndin telur nauðsynlegt að sá starfshópur sem starfað hefur á vegum menntamálaráðherra og fjallað hefur um stöðuna á íslenskum fjölmiðlamarkaði útfæri tillögur um takmörkun Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, tillögur sem mundu bæði ná til auglýsinga í útvarpi og í sjónvarpi, en frumvarp menntamálaráðherra varðaði einungis auglýsingar í sjónvarpi. Samhliða þessu leggi starfshópurinn fram tillögur um reglur að eignarhaldi á fjölmiðlum. Við leggjum til að þessar tillögur skuli liggja fyrir eigi síðar en 15. febrúar 2009, sem þýðir að starfshópurinn þarf auðvitað að hafa mjög hraðar hendur til þess að koma tillögunum fram. Við teljum það nauðsynlegt til þess að þeir aðilar sem starfa á fjölmiðlamarkaði sjái til lands og viti hvað framtíðin muni bera í skauti sér.

Ég hef verið að fjalla um fjölmiðlamál hér á Alþingi meira og minna síðan 2004 þegar umdeilt fjölmiðlafrumvarp var lagt fram og ég get bara sagt það að í þessum fjölmiðlamálum er búið að velta við öllum steinum. Það er búið að skrifa allar þær skýrslur sem hægt er að skrifa um þetta, það liggja fyrir allar niðurstöður og tillögur varðandi eignarhald, auglýsingar og alla aðra þætti sem varða fjölmiðlana. Verkefni okkar núna er að tína til þær reglur sem við teljum og erum sammála um að eigi að ríkja og gilda um fjölmiðlana og keyra þær inn í þingið og ljúka þeirri óvissu sem hefur ríkt um þessi mál.

Að lokum vil ég svo nefna að við umfjöllun um málið í nefndinni kom til tals sá möguleiki að lögfesta ákvæði sem kvæði á um bann við því að Ríkisútvarpið afli sér auglýsingatekna að eigin frumkvæði. Við teljum ekki ástæðu til þess að kveða á um slíka bannreglu að sinni en viljum beina þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að ganga hóflega fram þar til þessi mál og þessar tillögur hafa verið afgreiddar frá Alþingi. Það þarf ekkert að draga fjöður yfir að það er ástæða fyrir því að nefndin hefur komið sér saman um að senda svona skilaboð til Ríkisútvarpsins og þá fyrst og fremst stjórnenda Ríkisútvarpsins og þeirra sem hafa með auglýsingasölu að gera vegna þess að við vinnslu málsins fyrir nefndinni höfum við fengið mjög margar ábendingar um það, sem m.a. liggja fyrir í áliti Samkeppniseftirlitsins, að auglýsingadeild Ríkisútvarpsins hafi, eins og orðað hefur verið, verið býsna skelegg við sölu á auglýsingum upp á síðkastið. Nefndin beinir því þeim skilaboðum til stjórnenda Ríkisútvarpsins og þeirra sem halda um auglýsingasölumál hjá því fyrirtæki að þeir haldi nú að sér höndum þar til þær reglur sem ég hef hér vikið að hafa verið færðar í lög og lögfestar.

Ég vil að lokum, herra forseti, nota tækifærið og þakka nefndarmönnum í menntamálanefnd fyrir samstarfið og fyrir það að vilja standa saman að því að afgreiða þetta mál með þessum hætti. Ég tel að nefndarmenn allir sem einn, úr hvaða flokki sem er, hafi tekið málefnalega á þessu máli og saman komumst við að þeirri niðurstöðu að rétt væri að afgreiða málið með þessum hætti þrátt fyrir, eins og ég sagði áðan, að ágreiningur sé milli nefndarmanna um þá leið sem hér er farin varðandi gjaldtöku og að ágreiningur sé milli nefndarmanna um hvort hlutafélagaformið sé æskilegast á Ríkisútvarpinu eða ekki. Sem formaður nefndarinnar vil ég þakka nefndarmönnum kærlega fyrir samstarfið og velviljann að þessu leyti.

Herra forseti. Ég legg til að málið fari til 2. umr. að lokinni þessari umræðu en gangi ekki til nefndar þar sem nefndin sjálf flytur þetta frumvarp og ég tel mig hafa umboð nefndarmanna til þess að lýsa því yfir að nefndin telur ekki ástæðu til þess að taka málið inn í nefnd milli umræðna.