Ríkisútvarpið ohf.

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 16:06:41 (2847)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:06]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei skilið af hverju við búum til þennan nefskatt eða setjum hann á. Ég held að Ríkisútvarpið og aðrar stofnanir sem ríkið vill eiga og reka eigi hreinlega að vera á fjárlögum. Þessi nefskattur getur lent mjög misjafnlega á fólki eða fjölskyldum. Fjölskylda með tvö eða þrjú börn á aldrinum 16–25 ára getur lent í því að þurfa að borga fimm sinnum 17 þúsund. Þetta eru orðnar gríðarlegar upphæðir. Ég held að við eigum ekki að setja þennan nefskatt á heldur hafa Ríkisútvarpið á fjárlögum og þora að viðurkenna að ef við viljum hafa ríkisútvarp á annað borð þá viljum við að borgað verði beint úr ríkissjóði, en ekki með sérstökum skatti á fólkið í landinu.

Því til viðbótar má segja að einnig er sjálfsagt að Ríkisútvarpið sé ekki á auglýsingamarkaði, hvorki sjónvarpsstöðvarnar né útvarpsstöðvarnar. Ég hef haldið langar ræður um þetta áður og vil ítreka það og ég spyr hv. þingmann, formann menntamálanefndar: Af hverju er verið að gera þetta? Af hverju getum við ekki haft þetta beint á fjárlögum?