Ríkisútvarpið ohf.

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 16:12:15 (2850)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að standa hér og hnakkrífast við hv. þingmann um það hvort það gjald sem við fjöllum um heiti nefskattur eða ekki. Hv. þingmaður verður að hafa það eins og hann vill en mér finnst það frekar vera útúrsnúningur að kalla hlutina einhverju öðru nafni en þeir eru.

Varðandi auglýsingar og Ríkisútvarpið er það þannig, eins og ég sagði í framsögu með málinu, að við gerum ráð fyrir að reglur um auglýsingar og heimildir Ríkisútvarpsins til að selja auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi muni liggja fyrir þann 15. febrúar. Við þurfum bara lengri tíma og meiri vinnu til að útfæra reglurnar. Það hlýtur að vera málefnalegt sjónarmið að vilja reyna að vanda sig við löggjöf frekar en að skófla málum héðan út úr þinginu í einhverju snarhasti þegar menn eru ekki öruggir um hvaða afleiðingar það kann að hafa.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um mannmargar fjölskyldur og áhyggjur hans af því að kannski fimm til sex einstaklingar á hverju heimili þurfi að greiða þennan skatt (Gripið fram í.) — útvarpsskatt eða -gjald eða hvað hv. þingmaður vill kalla það — þá er við það miðað að þeir sem hafa einhverjar tekjur greiði til Ríkisútvarpsins. Þeir sem hafa litlar sem engar tekjur munu ekki þurfa að greiða þetta tillegg til Ríkisútvarpsins, eins og t.d. námsmenn. Ég geri ráð fyrir að á heimilum þar sem eru faðir og móðir og kannski fjórir námsmenn leiði þetta í flestum tilvikum til þess að foreldrarnir greiða gjaldið en börnin ekki.

Hv. þingmaður má hins vegar ekki gleyma því að með þessari tillögu lækkar framlag einstæðra til (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins um ríflega helming og það hlýtur að fela í sér mikla kjarabót (Forseti hringir.) fyrir t.d. einstæðar mæður.