Ríkisútvarpið ohf.

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 16:18:26 (2853)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

262. mál
[16:18]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get í þessari umræðu um frumvarp til laga frá menntamálanefnd um Ríkisútvarpið ohf. staðfest það sem hv. formaður menntamálanefndar sagði í ræðu sinni að ekki er ágreiningur um framlagningu þessa frumvarps í menntamálanefnd. Við fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni lýsum yfir stuðningi við þessa ráðstöfun úr því sem komið er og við þær aðstæður sem uppi eru.

Málefni Ríkisútvarpsins eru umfangsmikil og inn í nefndina kom frumvarp hæstv. menntamálaráðherra. Við höfum tekið á móti fjölda gesta og fengið mjög mikið af mjög málefnalegum umsögnum. Við erum búin að vera á fullu að yfirfara þær og skoða kjarna málsins. Sömuleiðis höfum við fengið gögn sem ættuð eru frá starfshópi sem menntamálaráðherra setti á laggirnar fyrir nokkrum vikum, fyrir rúmum mánuði. Þannig hefur vinna starfshópsins og menntamálanefndar skarast.

Þó svo að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerum ekki athugasemd við þessa niðurstöðu málsins, að gjaldaþáttur þess sé afgreiddur með þessum hætti og annað látið liggja inni í nefndinni, er ekki þar með sagt að við séum að breyta afstöðu okkar hvað varðar innheimtu útvarpsgjalds eða fyrirkomulag þessarar innheimtu yfir höfuð og ekki heldur stuðningi við að Ríkisútvarpið sé og verði eða eigi að vera opinbert hlutafélag. Það ríkir enn þá sá skoðanaágreiningur í þeim efnum sem hefur ríkt.

Hins vegar vil ég segja í tilefni af orðaskiptum sem urðu milli hv. formanns nefndarinnar og hv. þm. Péturs H. Blöndals rétt áðan að það eru auðvitað skiptar skoðanir um með hvaða hætti sé best að innheimta útvarpsgjaldið. Við höfum verið að reyna að koma þeirri málvenju á að við tölum um „afnotagjald“ þegar við tölum um það gjald sem núna er greitt til Ríkisútvarpsins og köllum síðan „útvarpsgjald“ þetta nýja gjald sem á að innleiða og á að leggja á með einum gjalddaga 1. ágúst á sama hátt og gert er varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra. Fólk sér það ef það les greinargerðina með frumvarpi því sem við hér ræðum að gerður er mjög skýr greinarmunur á því að afnotagjaldið er það sem hver einstaklingur sem greiðir það í dag áttar sig á að hann greiðir það af sínum VISA-reikningi eða sínum bankareikningi eða sínum gíróseðlum að hann tekur sjálfur þátt í að greiða gjald í Ríkisútvarpið mánaðarlega. Ég hef talið að þetta sé af hinu góða og að hver og einn notandi finni með þessu móti fyrir því að hann á Ríkisútvarpið.

Á hinn bóginn þegar við förum að innheimta útvarpsgjald með einum gjalddaga á hverju ári í gegnum skattinn á sama hátt og innheimt er í Framkvæmdasjóð aldraðra hættir einstaklingurinn, borgarinn, að finna fyrir því að hann á Ríkisútvarpið. Það myndast ákveðin fjarlægð á milli greiðandans og stofnunarinnar, eða Ríkisútvarpsins í þessu tilfelli.

Síðan er hægt að fara aðrar leiðir eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði hér um. Það er hægt að fara persónuafsláttarleiðina og það er líka hægt að fara fjórðu leiðina sem við þingmenn Vinstri grænna töluðum fyrir þegar Ríkisútvarpsmálið fór í gegn 2007 og þessi formbreyting á rekstrarforminu var gerð að lögum. Þá töluðum við fyrir því að kannað yrði hvort ekki væri hægt að festa gjaldið við fasteignir þannig að það væri þá innheimt með fasteignagjöldunum. Þessi leið hefur heldur ekki verið reiknuð eða útfærð að neinu marki ekki frekar en leið hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Ég tel sem sagt traust tilefni til að allar þessar leiðir séu skoðaðar og ég lít svo á að við höfum enn tækifæri til að gera það. Þó svo að við samþykkjum það frumvarp sem liggur fyrir verður ekki gjald lagt á neinn einstakling fyrr en 1. ágúst 2009 þannig að ég lít svo á að hér sé um mjög tímabundna ráðstöfun að ræða sem er í raun og veru hægt að bakka með ef þingheimur ákveður það á næstu mánuðum.

Ég lýsi stuðningi við að nefndin skuli taka málið áfram í kraftmikla vinnu þannig að við munum eflaust sjá niðurstöðu í því fyrir miðjan febrúar. Ég kem til með að leggja mitt af mörkum í þeim efnum.

Önnur athugasemd sem ég vil gera efnislega við gjaldið kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu, að ákveðin rök hafi verið fyrir því á sínum tíma að útvarpsgjaldinu bæri að haga með þeim hætti að álagningin kæmi ekki verr niður á einstaklingum eða heimilunum en afnotagjaldið gerir í dag. Þannig hafi verið við það miðað að tveir einstaklingar á sama heimili sem greiða mundu útvarpsgjaldið yrðu nokkurn veginn jafnsettir eftir upptöku gjaldsins eins og þeir eru nú við greiðslu afnotagjalds.

Þetta stenst ekki fyllilega skoðun, hæstv. forseti, því að þegar við skoðum það afnotagjald sem greitt er í dag er það 2.990 kr. á mánuði hvern mánuð ársins sem gera 36 þús. kr. á ári. Ef við deilum í þá tölu með tveimur fáum við út 18 þús. kr. en ekki 17.200. Með réttu má því segja að ef þessi rök hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar fyrir breytingunni á sínum tíma, að hvert heimili eigi að vera jafnsett með tveimur fullborgandi einstaklingum sem greiða útvarpsgjaldið eins og þeir væru að greiða afnotagjald ætti þetta gjald að vera á því herrans ári sem gengur í garð eftir örfáa daga 18 þús. kr. en ekki 17.200.

Það eru þeir skýru fyrirvarar sem ég og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum á þessu máli. Engu að síður styðjum við, eins og ég sagði áðan, þessa meðhöndlun í ljósi þess að hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða og gjaldið alls ekki endanlegt.

Segja má að það hafi verið ætlunarverk Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma þegar verið var að fara með þetta frumvarp í gegnum Ríkisútvarpið ohf., að koma stærstum hluta Ríkisútvarpsins eða þjónustuútvarps út á markað. Það var mikið talað um að með oháeffuninni mundi myndast ákveðinn sveigjanleiki fyrir þann stjórnanda sem réðist að útvarpinu til þess m.a. að sækja sér tekjur á auglýsingamarkaði en líka sveigjanleiki varðandi mannaráðningar. Það var í sjálfu sér lykilatriði í röksemdafærslu Sjálfstæðisflokksins, og reyndar Framsóknarflokksins á sínum tíma sem studdi það mál, að með rekstrarformsbreytingunni yrði til aukinn sveigjanleiki og sjálfstæði innan stofnunarinnar.

Við vinstri græn vorum ekki á sama máli. Við töldum og teljum enn að Ríkisútvarpinu sé best komið sem ríkisstofnun og sé og eigi að vera ein af menningarstofnununum sem þjóðin á og rekur sameiginlega, fyllilega sambærilegt við Þjóðleikhús, Þjóðarbókhlöðu, Þjóðminjasafn, Listasafn Íslands og þar fram eftir götunum.

Þessi sjónarmið okkar hafa ekki breyst enda þykir okkur í ljósi þess sem gerst hefur með tæplega tveggja ára reynslu af opinberu hlutafélagi hafa verið sýnt fram á að sveigjanleikinn sem stjórnandinn fékk í hendur hafi verið nýttur nákvæmlega eins og gert hafði verið ráð fyrir. Farið var „aggressíft“ út á markaðinn og auglýsingatekjum safnað. Þetta hefði ekki gerst ef Ríkisútvarpið hefði áfram verið ríkisstofnun. Ég tel að formbreytingin hafi beinlínis hvatt til þess sem gerðist í raun og veru og verið er að kvarta undan núna.

Það vil ég að þingmenn hafi í huga þegar við hugleiðum þetta mál áfram á næstunni því að það er alveg ljóst að við höfum ekki sagt síðasta orðið í máli Ríkisútvarpsins. Við munum að fjalla um það áfram, bæði í menntamálanefnd og það mun síðan koma áfram til þingsins.

Mér virðast þau sjónarmið vera uppi í nefndinni að það var ákveðinn forsendubrestur fyrir þeim hlutum sem talað var fyrir á sínum tíma þegar formbreytingin var gerð. Ég tel þess vegna að ekki sé loku fyrir það skotið að fólk átti sig á því áður en yfir lýkur að Ríkisútvarpinu sé best fyrir komið sem ríkisstofnun.

Að svo mæltu, hæstv. forseti, læt ég máli mínu lokið og ítreka það enn einu sinni að þó svo að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í menntamálanefnd styðjum þennan framgangsmáta og afgreiðslumáta á málinu erum við hvorki að lýsa yfir stuðningi við að Ríkisútvarpið sé, verði eða eigi að vera áfram opinbert hlutafélag né við það fyrirkomulag gjaldheimtu sem hér um ræðir.