Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 10:14:00 (2881)


136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[10:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þessari grein er gert ráð fyrir að lagabreytingar sem hér er verið að festa í lögin taki gildi núna um áramótin. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar á að fresta gildistöku fram til 1. júlí. Það þýðir að þeir sem sitja á þessum bekkjum hér, hæstvirtir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, munu hækka lífeyrisgreiðslur sínar þegar þeir eru komnir á lífeyri um á milli 10 og 15 þús. kr. fyrir hvern mánuð. Sú ákvörðun að hanga á þessu í hálft ár bætir eftirlaunaréttindi þeirra sem verma þessa bekki.

Á eftir munum við væntanlega ganga til atkvæða um fjárlög Íslands. Þar er verið að skerða kjör öryrkja og aldraðra, þar er verið að herða að velferðarstofnunum landsins, þar er verið að ákveða að það eigi að rukka fólk sem leggst veikt inn á spítala (Forseti hringir.) landsins en það á að gera strax. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ekki þurfi að skýra þessa grein ríkisstjórnarinnar um frestunina, en þó (Forseti hringir.) kom sá pappír frá forsætisráðuneytinu sem segir að það þurfi að fá tíma til að laga sig að þessari nýju hugsun. (Forseti hringir.) Er þetta stórmannlegt? Nei.