Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 17:48:21 (2953)


136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[17:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vill ekki sjá reddingartímana aftur. Staðreyndin er sú að á meðan ríkisbankarnir voru við lýði voru þeir aldrei baggi á ríkissjóði. Einu sinni, árið 1991 hygg ég að það hafi verið, lenti Landsbanki Íslands í vandræðum og þurfti að fá lán frá ríkissjóði sem hann síðan greiddi til baka.

Nú eru einkavæddir bankar að setja ekki bara íslenska fjármálakerfið á hausinn heldur þjóðfélagið eins og það leggur sig. Við verðum vitni að því hvernig hvert spillingarmálið kemur upp á fætur öðru, hvernig fjármunir landsmanna, sparifé landsmanna, lífeyrissparnaður landsmanna hefur verið misnotaður í möndli og reddingarskyni. Að koma hér á Alþingi og tala á þessa lund er með ólíkindum.

Máltækið segir að góð vísa sé aldrei of oft kveðin. En hvað með lélegan kveðskap, hvað með hnoðið sem við heyrum frá hv. þm. Pétri H. Blöndal í sennilega þúsundasta skiptið um lífeyrismálin? Hann segir að hann vilji gagnsæi og gagnrýnir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fyrir ógagnsæi. A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem sett var á laggirnar 1. janúar 1997 er fullkomlega gagnsæ og eins gagnsæ og allir aðrir lífeyrissjóðir í landinu. Það greinir hana frá öðrum lífeyrissjóðum að réttindin eru föst en iðgjöldin breytileg. Hið gagnstæða er uppi í öðrum lífeyrissjóðum.

Sams konar fyrirkomulagi er auðveldlega hægt að koma á í öðrum lífeyrissjóðum landsins. Þetta er spurning um pólitískt val. Um það hefur farið fram mikil umræða innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég er því fylgjandi að stuðla að kerfi þar sem lífeyrisréttindin eru föst en iðgjöldin og þar með launin og kaupmáttur þeirra breytileg. Þetta er ekki bundið við opinbera sjóði eða sjóði á almennum vinnumarkaði, þetta er félagspólitískt val.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur hér upp óskaplega uppspenntur af mærð og réttlætiskennd að því er virðist. Þetta er sami maður og staðfesti með atkvæði sínu lögin frá 2003 og tók þátt í atkvæðagreiðslu hér fyrr í dag og staðfesti aftur sérréttindi sjálfum sér til handa. Kemur svo hingað vælandi um að hann langi svo óskaplega til að fara yfir í sjóð þar sem hægt er að skerða réttindi hans og talar þar sérstaklega um Lífeyrissjóð verslunarmanna. Þangað langar hann óskaplega að fara og talar fyrir því að allir eigi að hafa valfrelsi um hvar þeir eru í lífeyrissjóðum. Hann vill fara í Lífeyrissjóð verslunarmanna.

Ég spyr hv. þingmann: Ef þessi krafa hans og ósk, sem hann er ekkert einn um — þetta er krafa sem hefur komið frá fjármálafyrirtækinu Kaupþingi, sem hv. þingmaður stofnaði á sínum tíma, og öðrum fjármálafyrirtækjum um að leggja af félagslegu lífeyrissjóðina og stuðla að kerfi þar sem einstaklingurinn hefur valfrelsi — heldur hann að þá verði eitthvað til sem heitir Lífeyrissjóður verslunarmanna? Nei. Lífeyrissjóðirnir verða í fjármálastofnunum sem byggja á einstaklingsbundnu vali. Hann leggur til að félagsleg aðkoma að lífeyrissjóðum verði lögð af. Hann reynir að tala þessa félagslegu aðkomu niður, segir að hún sé ólýðræðisleg og fer um hana slíkum orðum.

Þetta er óskaplega ósannfærandi málatilbúnaður, en ég vek aftur athygli á því og vona að allir átti sig á því að hér talar maður sem með atkvæði sínu hefur staðfest sérréttindi sjálfum sér til handa, hann greiðir þannig atkvæði, kemur síðan upp í óskaplega mikilli mærð og vælir um að hann langi svo til að vera í öðrum sjóði þar sem hægt er að skerða réttindi hans. Síðan notar hann tækifærið til að ráðast á lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga og ríkis, sem sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar, almennt skrifstofufólk, almennt launafólk sem starfar hjá ríkinu og kennarar í áranna rás hafa samið um til að tryggja sér gott lífeyriskerfi og reynir að tala þetta niður, reynir að gera lítið úr því og tala það niður. Þetta sé sérréttindakerfi.

Þetta er ekkert sérréttindakerfi. Þetta er kerfi sem íslenskt launafólk, starfandi hjá ríki og sveitarfélögum, hefur samið um í áranna rás, það hefur staðið frammi fyrir þeim valkostum að berjast fyrir hærri launum, hugsanlega á kostnað réttindanna, eða standa vörð um réttindin og láta þá launakröfuna víkja. Þannig hefur þetta verið. Ég þekki þetta sjálfur, ég hef margoft setið við samningaborð þar sem þetta hefur verið upp á teningnum.

Ég gef því ekkert fyrir skot hv. þingmanns á réttindi sem launafólk hefur samið um. Þetta er ekkert sérréttindakerfi. Þetta er kerfi sem almennt íslenskt launafólk hefur barist fyrir og vill varðveita og ég frábið svona tal um réttindakerfi sem launafólk á Íslandi hefur barist fyrir.

Að lokum, hæstv. forseti, þetta tal um gömlu ríkisbankana, hann vill ekki fá þá aftur með reddingunum öllum. Ég er alveg sammála honum um að ég vil engar reddingar í skúmaskotum, ég vil allt gagnsætt. En hvað hefur verið að gerast á undanförnum árum? Þetta er maðurinn sem vildi ekki fé án hirðis. Við höfum séð alla hirðingja hv. þm. Péturs H. Blöndals hvernig þeir hafa sólundað og farið illa með það fjármagn sem þeim var treyst fyrir sem hirðingjum. Þarf hann ekki að horfast í augu við þann veruleika sem hann tók þátt í að skapa með löggjöf á Alþingi í stað þess að tala á þá lund sem hann gerir nú?