Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 18:02:24 (2957)


136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[18:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, hv. þingmaður kýs ekki menn í stjórnir lífeyrissjóða, enda er hann andvígur félagslegri aðkomu að lífeyrissjóðunum. Hann hefur lýst andstöðu við það.

Það má vel vera að rangt sé að tala um að hv. þingmaður hafi verið vælandi hér í ræðustól, það er kannski óviðeigandi að tala á þann veg. En hann lýsti dapurleika, mikilli depurð yfir því að fá ekki að vera í lífeyrissjóði sem sætti skerðingum, það var það sem hann talaði um. Þetta er sami þingmaðurinn, hv. þm. Pétur H. Blöndal, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, og greiðir síðan atkvæði með sérréttindum og forréttindum sjálfum sér til handa. Mér finnst þetta ekkert sérstaklega stórmannlegur málflutningur og ekki samræmi á milli orða og athafna, ég verð að segja það. Fyrr í dag gafst honum tækifæri til að greiða tillögu okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs atkvæði, við höfum lagt fram frumvarp í þá veru, og stjórnarandstaðan öll stendur að baki breytingartillögum við stjórnarfrumvarpið þar sem lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra og svokallaðra æðstu embættismanna eru færð inn í almennan lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. (PHB: Af hverju …?) Hv. þm. Pétur H. Blöndal greiddi atkvæði gegn þessu, hann greiddi atkvæði með forréttindakerfinu en kemur hér upp óskaplega æstur í ræðustól og talar eitthvað út og suður, í allt aðra átt. Hann má ekki reyna að drepa málinu á dreif með þessum hætti, hann verður að hafa hugrekki til að horfast í augu við það og vera samkvæmur sjálfum sér.