Skattlagning kolvetnisvinnslu

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 18:04:50 (2958)


136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og skattanefnd um frumvarp til laga um skattlagningu kolvetnisvinnslu, en það er að finna á þskj. 458.

Á þingskjalinu kemur fram hverjir veittu umsagnir, hvaða gestir komu fyrir nefndina og eins lýsing á frumvarpinu.

Nefndin ræddi einnig um muninn á vinnslugjaldi og kolefnisskatti, kosti þeirra og galla, afmörkun leitarsvæða, heimildir vinnslufyrirtækja þar að lútandi til að flytja tap af leyfisskyldri starfsemi milli leyfishafa eða einstakra leyfissvæða. Þá var bent á að vinnslugjaldið styddist við þau rök að ríkinu, sem eiganda auðlindarinnar, hlotnuðust tekjur af nýtingu hennar óháð því hvort starfsemin væri arðbær. Einnig væri vinnslugjaldinu ætlað að virka sem hvati fyrir vinnslufyrirtæki til að skila hagnaði og enn fremur væri því ætlað að letja fyrirtæki til að hefja vinnslu ef fyrirséð væri að starfsemin yrði ekki arðbær.

Bent var á að vinnslugjaldið er háð vinnslumagninu á tvennan hátt. Vinnslumagnið, unnið magn af kolvetni hefur bein áhrif á gjaldhlutfallið og einnig á gjaldstofn vinnslugjaldsins. Vinnslugjaldið er margfeldi þessara beggja þátta og því háð magninu í öðru veldi. Miklar sveiflur í olíuverði geta leitt til þess að fyrirtæki greiði ýmist vinnslugjald, sem oft er miklu hærra, eða kolefnisskatt, og það getur komið dálítið undarlega út.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem er að finna í nefndarálitinu.

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Birkir J. Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara, og Rósa Guðbjartsdóttir.