Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 18:07:10 (2959)


136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og skattanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum, en það er að finna á þskj. 459.

Á þingskjalinu kemur fram hvaða gestir komu til nefndarinnar og hvaða umsagnir hún fékk.

Efnahags- og skattanefnd hefur áður fjallað um þær breytingar sem varða aukið svigrúm til ráðstöfunar lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris. Að auki gerir frumvarpið ráð fyrir að heimilt verði að greiða lífeyrissparnað ásamt vöxtum í séreign út í einu lagi eftir 60 ára aldur.

Nokkrar breytingar eru til komnar vegna ástandsins sem nú ríkir á íslenskum fjármálamarkaði. Má þar nefna ákvæði sem varða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða og samræmingu á reglum um fjárfestingarstefnu vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar. Einnig má nefna ákvæði sem lúta að hæfi þeirra sem sitja í stjórnum lífeyrissjóða eða annast eignastýringu verðbréfasafna sjóðanna og jafnframt breytingar á eftirlitshlutverki stjórna lífeyrissjóðanna. Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir að vikmörk eignaliða og framtíðarskuldbindinga sjóðanna verði rýmkuð tímabundið án þess að til þurfi að koma breyting á samþykktum sjóðanna.

Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að samræmdar reglur gildi um allan séreignarsparnað óháð því hver vörsluaðilinn er. Fram til þessa hafa aðrir vörsluaðilar en lífeyrissjóðir haft mun frjálsari hendur við fjárfestingar sínar en lífeyrissjóðirnir. Tilgangur greinarinnar er að leiðrétta þetta misræmi og hvetja til meiri varfærni í fjárfestingum. Á móti hefur því verið haldið fram að greinin setji of þröngar skorður í ljósi þess að séreignarsparnaður er valfrjáls sparnaður. Nefndin bendir einnig á að Fjármálaeftirlitið telji þörf á að setja þak á heimild til að fjárfesta séreignarsparnað í hlutabréfum fyrirtækja annars vegar og afleiðusamningum hins vegar og tekur mið af því.

Nefndin ræddi ákvæði c-liðar 10. gr. frumvarpsins um rýmkun á heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í óskráðum verðbréfum. Heimildin er í dag 10% af hreinni eign en yrði 20%. Fram komu sjónarmið um að þörf væri á þessari breytingu þar sem sumir sjóðir hefðu vegna hremminga á fjármálamörkuðum færst yfir lögbundin mörk vegna þess að aðrar eignir hefðu rýrnað mjög án þess að eiginleg viðskipti lægju að baki.

Nefndin ræddi einnig ítarlega aðkomu lífeyrissjóða að endurreisnarsjóði atvinnulífsins í samstarfi við aðila almenna vinnumarkaðarins og opinbera aðila. Fékk nefndin af því tilefni afhent minnisblað frá Landssamtökum lífeyrissjóða þar sem lýst er hvernig fyrirhugað er að standa að stofnun sjóðsins, hvaða reglur ættu að gilda um starfsemina og hvernig breyta þurfi lögbundnum fjárfestingarheimildum sjóðanna til að þeir geti tekið þátt í þessu verkefni. Hlutverk sjóðsins, sem verður samlagshlutafélag, verði að aðstoða fyrirtæki sem eigi við rekstrarlegan vanda að etja vegna efnahagsástandsins en ættu sér vænlegan rekstrar- eða starfsgrundvöll. Nefndin ræddi í þessu sambandi hversu mikla fjármuni sjóðirnir væru tilbúnir að leggja til verkefnisins og á hvaða forsendum. Einnig ræddi nefndin um fyrirhugaða fjárfestingarstefnu sjóðsins og hvaða skilyrðum stjórnendur þyrftu að fullnægja.

Nefndin ræddi þá áhættu sem falist getur í verkefninu en einnig hversu mikilvægt það væri fyrir lífeyrissjóði landsins að sjóðfélagar þeirra haldi atvinnunni og geti staðið undir iðgjöldum til sjóðanna. Taldi hún mikilvægt ef ráðist verði í slíkt verkefni að gætt yrði fyllstu varkárni. Sérstaklega þyrfti að gæta að faglegri og málefnalegri ákvarðanatöku um fjárfestingar og dreifingu áhættu.

Það sjónarmið kom fram í nefndinni að mikilvægt sé að slíkur sjóður upplýsti um eigendur sína og stjórn og setti sér gagnsæjar og skýrar reglur um fjárfestingarstefnu. Slíkar reglur gætu m.a. falist í að færa niður hlutafé, breyta skuldum kröfuhafa í hlutafé eða víkjandi lán eða að skuldir verði greiddar út að hluta og felldar niður að hluta. Fyrri eigendur mundu hugsanlega víkja tímabundið úr stjórn, sjóðurinn tilnefndi nýja aðila í stjórn á faglegum grunni óháða stjórn sjóðsins og lífeyrissjóðum og fulltrúar starfsmanna gætu tekið sæti í stjórn fyrir sjóðinn um takmarkaðan tíma. Tekið yrði á rekstrarvanda fyrirtækis með t.d. lækkun hæstu launa, breyttum áherslum í rekstri og sókn á nýjum sviðum. Flokka þyrfti fyrirtæki niður á málefnalegan og faglegan hátt eftir því hvers eðlis erfiðleikar þeirra væru og hversu alvarlegir þeir væru. Markmiðið er að halda fyrirtækjum gangandi og tryggja atvinnu eftir föngum. Þá gæti falist í reglunum áætlun um að sjóðurinn stefndi að sölu á hlut sínum innan ekki langs tíma. Þá yrði leitað samstarfs við aðra kröfuhafa og aðra áhugasama um aðkomu að björguninni. Gagnsæi reglnanna gæti enn fremur falist í að kynnt yrði um fyrirhugaða aðkomu sjóðsins að ákveðnu fyrirtæki tímanlega, þegar það skaðar ekki, öðrum yrði boðin þátttaka í verkefninu eða jafnvel yfirtaka og að ferlinu verði lýst þegar aðgerðir eru hafnar og þeim lokið. Aðstandendur sjóðsins ættu að huga að því hvort skynsamlegt sé að bjóða almenningi og öðrum þátttöku í sjóðnum, jafnvel með einni rödd í sér hlutafélagi.

Nefndin fjallaði um bráðabirgðaákvæði frumvarpsins en þar er lagt til að heimil vikmörk milli eignaliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóðs geti numið allt að 15% tímabundið í stað 10% vikmarka núna. Fram kom að talsverðrar óvissu gætti um eignir lífeyrissjóðanna um þessar mundir og að neikvæð staða margra væri um og yfir 10%. Kom fram sú skoðun hjá fulltrúum Landssamtaka lífeyrissjóða að ólíklegt væri að sjóðir sem væru með neikvæða stöðu rétt undir 15% mundu nýta sér heimildina. Nefndin ræddi þetta atriði ítarlega og einkum það sjónarmið að hér væri verið að fresta að taka á vanda sjóðanna á kostnað yngri sjóðfélaga. Betra væri að taka strax á vandanum og hafa þessi mörk óbreytt. Hér er um það að ræða að skerða lífeyri ef eignir duga ekki fyrir skuldum. Á móti kemur að mörkin eru heimildarákvæði og að stjórn sjóðs gæti tekið sjálfstæða ákvörðun um skerðingu ef staða sjóðsins væri nálægt þessum mörkum. Þá var bent á að staða á eignamörkuðum væri svo óljós að ekki lægi enn fyrir hvert áfallið verður. Það kynni að skýrast á árinu 2009. Nefndin féllst á það sjónarmið.

Í annan stað leggur nefndin til þá breytingu að gildistöku 11. gr. frumvarpsins verði frestað til loka næsta árs til að þeir sem undir hana falli geti lagað sig að ákvæðinu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Birkir J. Jónsson, með fyrirvara, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Jakobsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir.