Fjárlög 2009

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 19:25:31 (2962)


136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:25]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að ítreka þá gagnrýni sem við í minni hlutanum höfum haft uppi um vinnubrögð við þessa fjárlagagerð. Enn vantar mikilvægar forsendur og upplýsingar varðandi frumvarpið og margt er óljóst. Ég tel að þingmenn geti ekki og hafi í raun og veru almennt ekki forsendur til þess að meta þetta frumvarp eins og það liggur fyrir. Margar grunnstofnanir munu hefja rekstrarárið með halla auk þess niðurskurðar sem fram undan er. Nú á að taka upp að rukka aðgangseyri að sjúkrahúsunum og margt fleira mætti nefna í þessu sambandi.

Þingmenn Framsóknarflokksins munu sitja hjá við flest atriði þessa frumvarps og breytingartillagna enda er þetta allt saman á ábyrgð stjórnarmeirihlutans hér á Alþingi. Í raun og veru teljum við að frumvarpið sé ekki tækt til afgreiðslu eins og það liggur fyrir. Við munum hins vegar að sjálfsögðu styðja tillögu minni hluta fjárlaganefndar sem kemur fram í nefndaráliti um að hér verði unnið fjáraukalagafrumvarp á vordögum.