Fjárlög 2009

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 19:28:02 (2964)


136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:28]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku efnahagsumhverfi. Hin snöggu umskipti hafa eðlilega sett mark sitt á störf fjárlaganefndar og ríkisstjórnar í fjárlagaferlinu. Fjölmargar breytingartillögur komu fram í meðförum þingsins. Við 2. umr. komu fram þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram og að auki hluti tillagna forsætisnefndar um fjárheimildir til Alþingis á næsta ári. Endurmat á vaxtagjöldum hefur komið fram svo og heildarendurmat á verðlags- og gengisforsendum.

Skipting og útfærsla fjárheimilda til rekstrar á öldrunarþjónustu milli félags- og heilbrigðisráðuneytis lauk ekki eins og stefnt var að en fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar hvernig því máli og flutningi á milli fjárlagaliða verður háttað.

Virðulegur forseti. Það er vissulega sérstakt að fjalla um frumvarp sem gerir ráð fyrir því að heildarútgjöld verði 556 milljarðar kr. og tekjuafgangur verði neikvæður um tæpa 154 milljarða. Mikilvægi framkvæmda fjárlaga og sískoðunar á fjárhagsfærslum og rekstri er aldrei meiri en nú. Agi og festa er það sem kallað er eftir og ég hef trú á því að Alþingi, ráðuneyti og stofnanir standi undir þeirri ábyrgð.