Fjárlög 2009

Mánudaginn 22. desember 2008, kl. 19:40:21 (2971)


136. löggjafarþing — 68. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:40]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Nú kemur til lokaafgreiðslu frumvarp til fjárlaga 2009. Hér hafa verið samþykktar breytingartillögur við frumvarpið sem fela í sér gríðarlega skuldsetningu þjóðarbúsins og ríkissjóðs til næstu ára og gríðarlega vaxtabyrði og eru vaxtagjöldin á árinu 2009 áætluð nálægt 22% af tekjum samkvæmt tekjuáætlun.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að staðan er dapurleg. Það er dapurlegt að standa frammi fyrir þessari staðreynd og einnig vantar mikilvægar forsendur, eins og hér hefur margoft verið farið yfir, fyrir frumvarpinu og það er í raun vart tækt til afgreiðslu.

Merkilegast af öllu og lýsir vinnubrögðunum er að stjórnarmeirihlutinn skuli hafa fellt tillögu um að taka til afgreiðslu frumvarp til fjáraukalaga á vordögum en svo kemur yfirlýsing frá formanni fjárlaganefndar um að það verði gert. Virðulegur forseti. Þetta er lýsandi fyrir vinnubrögðin hér.