Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 19. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 19  —  19. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á barnaverndarlögum og barnalögum.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir,
Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


I. KAFLI
Breyting á barnaverndarlögum, nr. 80/2002, með síðari breytingum.

1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Börn eiga rétt á vernd og umönnun og skulu ekki þurfa að þola líkamlegar eða andlegar refsingar eða annars konar illa meðferð. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Með óviðunandi aðstæðum, uppeldisaðstæðum eða uppeldisskilyrðum í lögum þessum er að jafnaði átt við að barn búi við og sé misboðið með vanrækslu, ofbeldi eða annars konar illri meðferð, þ.m.t. heimilisofbeldi.

3. gr.

    1. og 2. mgr. 99. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum. Hver sem beitir barn slíkum refsingum skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum eða fangelsi allt að einu ári ef háttsemin er sérstaklega vítaverð. Hver sem beitir barn hótunum eða ógnunum sem ætla má að skaði barnið andlega eða líkamlega skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
    Ef maður hvetur barn til lögbrota, áfengis- eða fíkniefnaneyslu, til að stunda vændi eða leiðir það með öðrum hætti á glapstigu þá varðar það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.

II. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 2. mgr. 28. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Foreldrum eða forsjáraðilum er óheimilt að beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum, þ.m.t. refsingum í uppeldisskyni.


5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarpi þessu er ætlað að breyta bæði barnaverndarlögum og barnalögum í þeim tilgangi að tryggja stöðu barna gagnvart foreldrum og forsjáraðilum og til þess að tryggja ýmis réttindi barna sem nánar er fjallað um í greinargerð þessari.
    Breytingarnar snúa að þremur þáttum aðallega. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á barnaverndarlögum og barnalögum sem tiltaka með skýrum hætti að líkamlegar og andlegar refsingar gagnvart börnum eru óheimilar og refsivert athæfi. Tekur frumvarpið bæði til ofbeldis af hálfu foreldra eða forsjármanna og einnig af hálfu annarra umsjáraðila. Í annan stað er um að ræða viðbót við barnaverndarlögin þar sem hugtökin óviðunandi aðstæður, uppeldisaðstæður og uppeldisskilyrði eru skilgreind sérstaklega. Í þriðja lagi er um að ræða breytingu á ákvæði 99. gr. barnaverndarlaga þar sem hugtakið lauslæti er fellt brott og notað í staðinn hugtakið vændi.

Líkamlegar og andlegar refsingar.
    Í 19. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er tekið sérstaklega fram að börn skuli njóta verndar gegn öllu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu. Þá er einnig í 39. gr. tekið fram að börn megi ekki beita ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Ísland hefur undirritað barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er þannig bundið að þjóðarétti til að virða reglur þær sem hann mælir fyrir um.
    Í ágústmánuði sl. féll dómur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í máli karlmanns sem hafði beitt tvo drengi unnustu sinnar líkamlegum refsingum, nánar tiltekið flengingum. Maðurinn var ákærður annars vegar fyrir líkamsárás á grundvelli 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og hins vegar á grundvelli 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/ 2002. Í báðum tilfellum var maðurinn sýknaður með þeim rökum „að hugsanlega tíðkast eitthvað, eða hefur tíðkast, að flengja börn“. Þá var vísað til þess í dómnum að barnaverndarlögin kveði ekki með skýrum hætti á um algert bann við því að börn séu beitt refsingum, þar á meðal líkamlegum refsingum.
    Þessi niðurstaða héraðsdóms hlýtur að teljast verulega óeðlileg, sérstaklega í ljósi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennrar afstöðu íslensku þjóðarinnar til líkamlegra refsinga gegn börnum. Þá má benda á að nú er í gangi átak Evrópuráðsins til að stöðva líkamlegar refsingar gegn börnum. Einkunnarorð átaksins eru: Your hands should not punish. Raise your hands against smacking. Frumvarpi þessu er þannig ætlað að taka af allan vafa um að líkamlegar eða andlegar refsingar gegn börnum séu undir engum kringumstæðum heimilar.

Hugtökin óviðunandi aðstæður, uppeldisaðstæður og uppeldisskilyrði.
    Samkvæmt núgildandi barnaverndarlögum, nr. 80/2002, eiga börn tilkall til þess að búa við viðunandi aðstæður, eftir atvikum fyrir tilstilli barnaverndaryfirvalda.
    Hugtökin óviðunandi aðstæður, uppeldisaðstæður og uppeldisskilyrði koma víða fyrir í barnaverndarlögunum en hvergi er skilgreint hvað í þeim felst. Frumvarp þetta er meðal annars lagt fram í því augnamiði að skýra hvað felst í hugtökunum og draga sérstaklega fram þá afstöðu löggjafans að heimilisofbeldi sé ástand af því tagi sem jafnað verður til óviðunandi aðstæðna í skilningi laganna. Með heimilisofbeldi er ekki einvörðungu átt við að barn sé sjálft beitt ofbeldi heldur einnig að því sé misboðið með ofbeldi gegn öðrum á heimili eða þar sem það dvelst.
    Samkvæmt skilgreiningu sem birt er á heimasíðu Barnaverndarstofu er misfellum á umönnunar- og uppeldisskilyrðum barna skipt í tvo meginflokka, ofbeldi og vanrækslu. Birtingarmyndir ofbeldis og vanrækslu geta verið margvíslegar en þó er ekki útilokað að annars konar misfellur foreldra eða annarra umsjáraðila geti fallið utan þessarar flokkunar. Í frumvarpinu er þess vegna gert ráð fyrir að nota hugtakið „ill meðferð“ sem almennt heiti yfir misfellur þessara aðila hvort sem þær eru fólgnar í ofbeldi, vanrækslu eða öðru framferði.
    Samkvæmt frumvarpi þessu má slá því föstu að orðalagið óviðunandi aðstæður í lögunum vísi til vanrækslu, ofbeldis eða annars konar illrar meðferðar af hendi þess sem fer með umsjá barns eða annarra sem hafa afskipti af því. Á það skal bent að skilgreiningin á óviðunandi aðstæðum sem hér er mælt fyrir um gerir ráð fyrir að barni þurfi að vera misboðið. Með því er átt við að atvik séu með þeim hætti að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin.

Hugtakið lauslæti.
    Í 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga segir að ef maður hvetur barn til lögbrota, lauslætis, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða leiði það með öðrum hætti á glapstigu þá varði það sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Í frumvarpi þessu er lagt til að orðalagi í 2. mgr. 99. gr. verði breytt þannig að hugtakið lauslæti verði tekið út og notast við hugtakið vændi í staðinn. Ekki þykir ástæða til þess að halda í hið gamla hugtak lauslæti auk þess sem erfitt er að skilgreina það með tilliti til barna. Því er hér farin sú leið að notast við orðið vændi og talið að það hugtak nái yfir markmið ákvæðisins og tryggi nægilega vernd barna. Þessi leið er í samræmi við breytingar sem gerðar voru á almennum hegningarlögum á 133. löggjafarþingi, sbr. lög nr. 61/2007.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein felst breyting á ákvæði um réttindi barna og skyldur foreldra þannig að tekið er fram með skýrum hætti að það sé réttur barna að þau skuli ekki þurfa að þola líkamlegar eða andlegar refsingar.

Um 2. gr.


    Breyting sú sem felst í greininni tekur til þess að skilgreina hugtakið óviðunandi aðstæður, uppeldisaðstæður eða uppeldisskilyrði en það eru hugtök sem koma fram á nokkrum stöðum í núverandi lögum en eru hvergi skilgreind sérstaklega. Ákvæðið felur það í sér að óviðunandi aðstæður, uppeldisaðstæður eða uppeldisskilyrði taki til vanrækslu og ofbeldis gegn barni en að einnig falli þar undir önnur ill meðferð, þ.m.t. heimilisofbeldi hvort sem barn verður fyrir slíku ofbeldi eða þarf að horfa upp á ofbeldi gegn öðrum á heimilinu.

Um 3. gr.


    Ákvæðið gerir það beinlínis refsivert að beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum. Gert er ráð fyrir að háttsemin varði við sömu refsingu og brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og að túlka skuli ákvæðin á sama hátt. Þá er einnig, í b-lið, gert ráð fyrir að skipta út hugtakinu lauslæti í lögunum fyrir hugtakið vændi, enda ekki skýrt hvað felst í hugtakinu lauslæti, sérstaklega þegar um er að ræða börn. Þykir því mun eðlilegra og skýrara að notast við hugtakið vændi auk þess sem það er í samræmi við breytingar sem gerðar voru á 206. gr. almennra hegningarlaga á 133. löggjafarþingi.

Um 4. gr.


    Ákvæði þetta breytir barnalögum, nr. 76/2003, á þann hátt að beinlínis er tekið fram að foreldrar eða aðrir forsjáraðilar skuli ekki beita barn líkamlegum eða andlegum refsingum. Með þessari breytingu fela lögin þannig í sér að foreldrum og öðrum forsjáraðilum sé bæði skylt að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu annarra og einnig að þeim sé óheimilt að beita sitt eigið barn slíku ofbeldi. Sérstaklega er tiltekið að refsingar í uppeldisskyni séu óheimilar, þar á meðal flengingar.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.