Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 61. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 61  —  61. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, og lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



I. KAFLI
Breyting á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna,
nr. 64/1965, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað orðsins „sjávarútvegsráðuneytið“ í 10. gr. laganna kemur: umhverfisráðuneytið.

2. gr.

    1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Í stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar skulu vera fimm menn, skipaðir af umhverfisráðherra til fjögurra ára í senn, þar af þrír án tilnefningar, einn tilnefndur af Fiskifélagi Íslands og einn tilnefndur af starfsmönnum stofnunarinnar.

3. gr.

    Í stað orðsins „sjávarútvegsráðherra“ í 1. mgr. 13. gr., 3. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: umhverfisráðherra.

II. KAFLI
Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
4. gr.

    Í stað orðsins „Sjávarútvegsráðherra“ í upphafi 3. gr. laganna kemur: Umhverfisráðherra.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skal þá skipa nýja stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lögð til sú grundvallarbreyting að verkefni sem nú heyrir undir sjávarútvegsráðuneyti verði flutt til umhverfisráðuneytis. Er þar um að ræða hafrannsóknir, friðun og ákvörðun um heildaraflamark úr einstökum fiskstofnum. Samhliða er gert ráð fyrir því að yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar verði færð frá sjávarútvegsráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Nái þessi breyting fram að ganga mun umhverfisráðuneyti ákvarða heildaraflamark ár hvert, hafa umsjón með rannsóknum og gera tillögur varðandi almennt skipulag veiða innan efnahagslögsögunnar, ekki síst þeirra sem tengjast hafsbotninum. Þá mun ráðuneytið veita ráðgjöf um friðunaraðgerðir og notkun veiðarfæra, jafnframt því að setja almennar reglur um notkun veiðarfæra. Sjávarútvegsráðuneyti mun eftir sem áður annast stjórn veiðanna innan framangreindra marka og hafa yfirumsjón með eftirliti með veiðum og mati á sjávarafurðum.
    Nauðsynlegt þykir að gera umrædda breytingu og leggja þannig ríkari áherslu en verið hefur á umhverfisþátt rannsókna og stjórn á álagi við hagnýtingu auðlindanna. Þetta er ítrekað með því að færa mikilvægar ákvarðanir og tillögugerð úr höndum beinna hagsmunaaðila til umhverfisráðuneytis. Ekki er eðlilegt að hagsmunaaðilar geti ráðið miklu um ákvörðun sem þá varðar miklu fjárhagslega þegar í húfi eru náttúruauðlindir sem þjóðin byggir afkomu sína á í svo ríkum mæli sem raun ber vitni. Það skiptir miklu máli að við ákvarðanir um hagnýtingu auðlindar sé litið til langs tíma og þjóðarhags.
    Frumvarp þetta er nú flutt í sjöunda sinn og verði það að lögum er rétt að breyta viðeigandi ákvæðum reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, en efni þess fellur vel að þeim sjónarmiðum að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. og 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á 10., 13., 15. og 18. gr. laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna sem leiðir af þeirri tilhögun að Hafrannsóknastofnunin heyri undir umhverfisráðuneyti í stað sjávarútvegsráðuneytis eins og nú er.

Um 2. gr.

    Hér er lögð til breyting á skipan stjórnar Hafrannsóknastofnunarinnar á þann veg að hagsmunaaðilar skipi ekki lengur fulltrúa í stjórnina heldur einvörðungu ráðherra, Fiskifélag Íslands og starfsmenn stofnunarinnar.

Um 3. gr.

    Sjá athugasemd við 1. gr.

Um 4. gr.

    Hér er lögð til sú breyting á 3. gr. laga um stjórn fiskveiða að í stað sjávarútvegsráðherra ákvarði umhverfisráðherra heildaraflamark ár hvert á þeim stofnum sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Þessi breyting er nauðsynleg til þess að markmið frumvarpsins nái fram að ganga. Þar sem orðið ráðherra kemur fyrir síðar í greininni er þá samkvæmt frumvarpinu vísað til umhverfisráðherra í stað sjávarútvegsráðherra.

Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um gildistöku laganna og að skipuð verði ný stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar samkvæmt hinum nýju ákvæðum.