Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 90. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 96  —  90. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161 20. desember 2002.

Flm.: Jón Bjarnason, Ögmundur Jónasson, Björn Valur Gíslason,
Guðmundur Magnússon, Kolbrún Halldórsdóttir og Atli Gíslason.


1. gr.

    Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Heitið „sparisjóður“ er þó óheimilt að nota með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti.

2. gr.

    4. mgr. 73. gr. laganna orðast svo:
    Sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, er óheimilt að nota orðið „sparisjóður“ í heiti sínu.

3. gr.

    22. tölul. 1. mgr. 110. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 55/2007, fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að starfsemi þeirra sparisjóða sem áfram vilja bera nafn sparisjóða verði færð aftur til upphaflegs markmiðs við stofnun þeirra. Markmiðið var að stofnfjárhafar hefðu hvorki fjárhagslegan né persónulegan ávinning af stofnun sjóðanna heldur væri stuðningur þeirra persónulegur og endurspeglast það markmið í ábyrgð þeirra á skuldbindingum sjóðanna sem takmarkast við stofnfjárhlut. Enn fremur er lagt til að heitið sparisjóður verði lögverndað, þ.e. að einungis verði heimilt að nota heitið sparisjóður ef um raunverulegan sparisjóð er að ræða en ekki ef sparisjóðnum er breytt í hlutafélag eða hann rekinn sem fjármálastofnun eða banki. Hugtakið sparisjóður er órjúfanlega tengt starfsgrunni og hugsjónum sem réðu við stofnun þeirra. Það er því verið að beita blekkingum ef fjármálastofnun er leyft að bera heitið sparisjóður í nafni sínu þótt hún hafi horfið frá flestum grunnþáttum sem samfélagið leggur í hugtakið sparisjóður. Samkvæmt frumvarpinu verður því óheimilt að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti fjármálastofnunar.
    Frumvarpið var áður flutt á síðasta löggjafarþingi og er endurflutt nú óbreytt. Vert er að huga að því í því ástandi sem nú ríkir í íslenskum fjármálaheimi að staðbundnir sparisjóðir sem leggja kapp á að þjónusta einstaklinga og fyrirtæki í heimasveit sinni telja sig enn geta veitt þá þjónustu við þær aðstæður sem nú eru meðan óvíst er um stærri sparisjóði og hlutafjárvædda sem tóku þátt í kapphlaupi og útrás bankanna.

Almennt.
    Sparisjóðir eru að grunni til félagslegar stofnanir og meginhluti eiginfjár þeirra er í sjálfseign, en í reynd í eigu almennings þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Sparisjóðirnir voru stofnaðir á grunni hugsjóna félagshyggju og samvinnu til að byggja upp atvinnu- og menningarlíf á heimasvæði sínu. Litið var á stofnfjárhafa sem ábyrgðarmenn og markmiðið var ekki að hámarka arðgreiðslur heldur þjóna samfélaginu. Hlutverk sparisjóðs er að veita almenna fjármálaþjónustu á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á heimasvæðinu. Á þessum grunni hafa sparisjóðirnir gegnt lykilhlutverki í fjármálaþjónustu við einstaklinga og minni fyrirtæki, einkum á landsbyggðinni. Stofnfjárhafar, sem lögum samkvæmt þurfa að standa að hverjum sparisjóði, eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn samfélagsins á starfssvæði sjóðanna. Hlutverk stofnfjárhafanna er því að tryggja að sjóðurinn starfi á þessum hugsjónagrunni en ekki að hámarka eigin persónulegar arðgreiðslur. Í framantöldu felst ímynd og gildi heitisins „sparisjóður“. Hins vegar ber hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur heldur er meginmarkmið hans að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. Á því er grundvallarmunur.

Breytingar á rekstri sparisjóða.
    Allmiklar breytingar hafa orðið á rekstri sparisjóða hérlendis en aðdragandi þeirra birtist með stöku fréttum um viðskipti með stofnbréf og sameiningu eða yfirtöku ákveðinna sjóða. Á síðustu missirum hefur átt sér stað býsna hljóð einkavæðing á eigum sparisjóðanna og hafa þeir átt í vök að verjast gegn aðilum sem reyna að brjótast inn í þá og komast yfir eigið fé þeirra og viðskiptavild, yfirtaka þá og leggja þar með hald á eigur samfélagsins. Bæði löggjafinn og eftirlitsstofnanir virðast meðvitað eða ómeðvitað hafa brugðist þeim skyldum sínum að standa vörð um hugsjónir sparisjóðanna og hagsmuni almennings og einstakra samfélaga sem hlut eiga að máli. Sú spurning hlýtur að verða áleitin hverjum þeim sem virðir hugsjónir sparisjóðanna eða ber rétt samfélagsins fyrir brjósti, hvernig það megi t.d. gerast að hlutur almennings í SPRON hafi lækkað hlutfallslega á örfáum árum úr tæpum 90% í 15% án þess að neinn hafi haldið uppi vörnum. Horfa má m.a. til Fjármálaeftirlitsins í þeim efnum. Þeir sem sækja hvað harðast eftir að komast yfir samfélagseigur sparisjóðanna eða breyta þeim í hlutafélag ættu að hugleiða hvaða lagalegan eða a.m.k. siðferðislegan rétt þeir hafi til að einkavæða samfélagsstofnanir eins og sparisjóðirnir eru og komast yfir samfélagslegar eigur þeirra. Þegar sparisjóði er breytt í hlutafélag er hann ekki lengur sparisjóður heldur einkavæddur banki á markaði.
    Í öðrum tilvikum hafa einhverjir aðilar reynt að kaupa út stofnfjárhafa í óvissum tilgangi, eins og nú er að gerast með ýmsa sparisjóði. Þá heimilaði Samkeppniseftirlitið nýlega kaup Kaupþings á 70% stofnfjárbréfa í Sparisjóði Mýrasýslu vegna erfiðleika sparisjóðsins, bágrar stöðu hans og á grundvelli þess að sparisjóðurinn hyrfi ella af markaði vegna erfiðleika. Samruni SPRON og Kaupþings var heimilaður með sömu rökum. Loks hafa sumir sparisjóðir, í slagtogi við fjársterka aðila, keypt aðra sparisjóði í tilgangi sem er óljós. Sú virðist raunin varðandi t.d. yfirtöku Sparisjóðs Mýrasýslu og Siglufjarðar á Sparisjóði Skagafjarðar.
    Enn eru til sparisjóðir sem reknir eru á grundvelli þeirrar hugsunar sem lagt var upp með við stofnun þeirra og einbeita sér að því að þjóna fólki í sínu héraði. Hafa þessir sjóðir hvorki tekið þátt í útrás bankanna sem hefur nú knésett þá hvern af öðrum né hlutabréfabraski og erlendri fjármögnun. Mikilvægt er að slá skjaldborg um þessa sparisjóði og þá grundvallarhugsun sem býr að baki starfsemi þeirra. Frumvarp þetta er fyrsta skrefið í þá átt en þó verður einnig að tryggja þeim rekstrargrundvöll og starfsskilyrði með því að binda í lög að viðskipti með stofnfjárbréf verði ekki leyfð á yfirverði sem og setja ákvæði sem tryggja að hluti stjórnarmanna sé ávallt frá almenningi og heimasamfélagi sparisjóðsins og styrkja með því yfirtökuvarnir. Þá þarf með samkeppnislögum að vera hægt að heimila nauðsynlegt samstarf milli sparisjóðanna þannig að hagsmunir hinna minni sjóða og hæfilegt sjálfstæði þeirra sé tryggt. Hinn félagslegi grunnur sparisjóðanna verður að vera tryggður nú við endurskipulagningu fjármálakerfis landsins. En við þá endurskipulagningu gegna sparisjóðirnir lykilhlutverki enda starfi þeir þá alfarið á hinum forna félagslega grunni sem byggt var á við stofnun þeirra.

Hlutafélagavæðing sparisjóða.
    Með setningu laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, átti að treysta yfirtökuvarnir sparisjóðanna, m.a. með því að kveða á um það við hvaða aðstæður sparisjóðsstjórn skuli heimila framsal á virkum eignarhlut, að tengdir stofnfjáreigendur geti ekki farið með yfir 5% heildaratkvæðamagns í sparisjóði og að sparisjóður verði að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag áður en til samruna við aðrar tegundir fjármálafyrirtækja kemur. Það markmið laganna að treysta yfirtökuvarnir sjóðanna virðist ekki hafa náðst. Fjölmargir sparisjóðir hafa verið hlutafélagavæddir undanfarið þótt enn séu til örfáir sparisjóðir sem eru reknir á grundvelli þeirrar hugsunar sem lagt var upp með við stofnun þeirra. Sem dæmi má nefna sparisjóði Hólmavíkur, Þingeyinga, Svalbarðseyrar, Þórshafnar og Bolungarvíkur.
    Hlutafjárvæðing sparisjóðanna hófst með breytingu SPRON í hlutafélag og allmargir sparisjóðir hafa, að undangengnum vafasömum viðskiptum með stofnfé, sameinast í tvær einingar, þ.e. Byr, sem hefur nú hlutafjárvæðst, og Sparisjóðinn í Keflavík sem virðist undirbúa breytingu í hlutafélagaform.
    Sparisjóður sem hverfur frá markmiðum sínum og samfélagslegri umgjörð, svo sem með því að vera breytt í hlutafélag, á ekki að geta kallast sparisjóður og er því lagt til í frumvarpinu að óheimilt verði að nota nafnið sparisjóður með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti eins og sparisjóður hf. enda eru skýr ákvæði í samþykktum sparisjóðanna um það hvernig leggja skuli sparisjóði niður ef ekki er vilji til að starfrækja þá áfram í sínu félagslega formi. Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skulu stofnfjáreigendur samkvæmt lögunum eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína, sbr. 74. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum enn fremur nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna, endurmetið skv. 67. gr. laganna, og sem nemur sama hlutfalli af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Í 74. gr. kemur einnig fram að sá hluti hlutafjár sparisjóðsins eftir breytingu hans í hlutafélag sem ekki gengur til stofnfjáreigenda samkvæmt framansögðu skal vera eign sjálfseignarstofnunar sem sett er á fót skv. 76. gr. Þess eru dæmi um að gengið hafi verið að eign sjálfseignarstofnunar við hlutafjárvæðingu, sbr. SPRON.

Staðbundnar lánastofnanir.
    Einkavæðing og yfirtaka almenningseigna fer nú því miður eins og eldur um akur. Virðist þar fátt heilagt, hvort heldur eru orkuveitur, náttúruauðlindir eða sparisjóðir landsmanna sem nú standa sem varnarlaus fórnarlömb græðginnar. Ekki verður fram hjá því horft að fjármálaþjónusta við landsbyggðina hefur versnað á undanförnum árum. Víða hefur afgreiðslustöðum verið lokað og æ erfiðara hefur verið að fá lánafyrirgreiðslu í dreifbýli, sérstaklega fyrir einstaklinga og minni fyrirtæki, enda hefur hugur viðskiptabankanna einkum stefnt út fyrir landsteinana. Vegna atburða síðustu daga má allt eins búast við því að með fækkun starfsmanna í bankageiranum og sparnaðaraðgerðum versni þjónusta bankanna úti á landi enn frekar. Því er nú ekki síður þörf fyrir staðbundnar lánastofnanir en þegar sparisjóðirnir voru stofnaðir á fyrri hluta síðustu aldar. Sparisjóðirnir eiga áfram að gegna lykilhlutverki í fjármálaþjónustu hér á landi og því er mikilvægt að standa vörð um gildi þeirra og starfsgrundvöll. Því er nauðsynlegt að leggja þetta frumvarp fram. Þess má geta að Vinstri hreyfingin – grænt framboð lagði á sínum tíma fram frumvarp til laga til breytinga á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði (8. mál 128. löggjafarþings). Allt frá þeim tíma hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs viljað standa vörð um hugsjónir sparisjóðanna og hlut þeirra í fjármálaþjónustunni, en því miður hefur einn af öðrum þurft að lúta í gras fyrir ásælni peningaaflanna. Frumvarp þetta er lagt fram til þess að standa vörð um grunnstoðir sparisjóðanna sem starfa á hugsjónagrunni og njóta verðmætrar ímyndar og trúnaðar meðal fólksins í landinu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að heitið sparisjóður verði lögverndað, þ.e. að óheimilt verði að nota það með öðrum orðum eða skammstöfunum í firmaheiti. Hugtakið sparisjóður er órjúfanlega bundið við þær hugsjónir og starfsgrundvöll sem réðu við stofnun þeirra. Þessi breyting tengist því að með frumvarpinu er lagt til að ekki verði lengur hægt að breyta sparisjóði í hlutafélag og halda sparisjóðsheitinu heldur verði að nefna hann t.d. banka eða fjármálastofnun. Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag er hann ekki lengur sparisjóður heldur einkavæddur banki á markaði enda byggist starfsemi hlutafélaga og banka á allt öðrum sjónarmiðum en sparisjóður gerir. Þannig verði t.d. ekki lengur unnt að nota heitið sparisjóðabanki eða sparisjóður hf. í heiti.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 73. gr., verði óheimilt að nota orðið „sparisjóður“ í heiti sínu. Tillaga þessi helgast af því að við breytingu á sparisjóði í hlutafélag breytist eðli rekstrarins svo mikið frá upphaflegu markmiði við stofnun sparisjóðs, sem og eignaraðildin og formið á rekstrinum, að nafnið verður alls ekki lýsandi fyrir starfsemina og í raun rangnefni.
    Þetta felur í sér að ef sparisjóður er sameinaður öðrum sparisjóði helst heitið óbreytt en ef stofnað er hlutafélag um rekstur sparisjóðs verður að nota orðið banki, fjárfestingarfyrirtæki eða eitthvað þess háttar í firmaheiti sem er lýsandi fyrir starfsemina.

Um 3. gr.


    Í samræmi við fyrri greinar frumvarpsins er lagt til að brott falli heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja stjórnvaldssekt á sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag og notar ekki orðið hlutafélag í heiti sínu.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.


Jón Bjarnason:

Að brjótast inn í sparisjóði landsmanna.
(Morgunblaðið, 22. september 2007.)


    Sparisjóðir eru að grunni til félagslegar stofnanir og meginhluti eiginfjár þeirra er í sjálfseign, í reynd í eign almennings þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Hlutverk sparisjóðs er að veita almenna fjármálaþjónustu á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á heimasvæði sínu. Sem slíkir gegna þeir afar þýðingarmiklu hlutverki, ekki hvað síst á landsbyggðinni. Stofnfjárhafar, sem lögum samkvæmt þurfa að standa að hverjum sparisjóði, eru engan veginn eigendur sjóðanna heldur trúnaðarmenn samfélagsins á starfssvæði sjóðanna. Hlutverk stofnfjárhafanna er að tryggja að sjóðurinn starfi á þessum hugsjónagrunni en ekki að hámarka eigin persónulegar arðgreiðslur. Í ofantöldu felst ímynd og gildi heitisins „sparisjóður“. Hins vegar ber hlutafélagsbanki engar slíkar samfélagsskyldur, heldur er meginmarkmið hans að hámarka ábata og arð eigenda hlutafjárins. Hér er því einfaldlega grundvallarmunur á.

Að hirða eigur samfélagsins.
    Á síðustu misserum hafa sparisjóðirnir átt í vök að verjast gegn aðilum sem reyna að brjótast inn í þá og komast yfir eigið fé þeirra og viðskiptavild, yfirtaka þá og leggja þar með hald á eigur samfélagsins. Sú spurning hlýtur að verða áleitin hverjum þeim sem virðir hugsjónir sparisjóðanna eða ber rétt samfélagsins fyrir brjósti, hvernig það megi gerast að almenningshluti eins og í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) hafi lækkað hlutfallslega á örfáum árum úr tæpum 90% í 15% án þess að neinn hafi þar haldið vörnum fyrir. Horfi ég m.a. til Fjármálaeftirlitsins í þeim efnum. Þeir sem sækja hvað harðast á um hlutafélagavæðingu sparisjóða ættu að hugleiða hvaða lagalegan eða a.m.k. siðferðislegan rétt þeir hafi til að einkavæða samfélagsstofnanir eins og sparisjóðirnir eru. Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag þá er hann ekki lengur sparisjóður heldur einkavæddur banki á markaði.

Á allt að gleypa?
    Ég álít að sparisjóður sem hverfur frá markmiðum sínum og samfélagslegri umgjörð, svo sem með því að vera breytt í hlutafélag, eigi ekki lengur rétt á að kallast sparisjóður. Menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir. Er það t.d. ekki svo að þeir sem fara í kynskiptaaðgerðir gangist fúslega við nýju kynferði sínu? Í samþykktum sparisjóðanna eru skýr ákvæði um hvernig þeir skuli lagðir niður ef ekki er vilji til að starfrækja þá áfram í sínu félagslega formi. Einkavæðing og yfirtaka almenningseigna fer nú því miður eins og eldur um akur. Virðist þar fátt heilagt, hvort sem eru orkuveitur, náttúruauðlindir eða sparisjóðir landsmanna sem nú standa sem varnarlaus fórnarlömb græðginnar.

Græðgina verður að stöðva!
    Sparisjóðirnir eiga áfram að gegna lykilhlutverki í fjármálaþjónustu hér á landi og því er mikilvægt að standa vörð um gildi þeirra og starfsgrundvöll. Vel má vera að skerpa þurfi á þeim þáttum með lögum og tryggja jafnframt sérstöðu þeirra og samkeppnishæfni án þess að eðli þeirra breytist og hugsjónir glatist. Eitt fyrsta skrefið þar gæti verið að lögvernda heitið sparisjóður og að hlutafélag mætti ekki bera það heiti. Ég skora á alla þá mörgu sem eru trúir sparisjóðahugsjóninni að rísa upp til varnar og þétta raðir sínar. Það verður að stöðva græðgina sem nú vill brjóta sér leið inn í sparisjóði landsmanna.



Fylgiskjal II.


Ari Teitsson, stjórnarformaður
Sparisjóðs Suður-Þingeyinga:


Þankar um sparisjóði.
(Fréttablaðið 24. ágúst 2007.)


    Sparisjóðirnir hafa verið nokkuð í umræðunni að undanförnu. Viðskiptaráð telur þá staðnaða og á fallanda fæti, deilur hafa verið um formbreytingar Sparisjóðs Skagafjarðar, Spron er að breytast í öflugt hlutafélag og eftirspurn er eftir stofnfjárhlutum margra sparisjóða.
    Aukinn áhugi á sparisjóðunum á sér mjög eðlilegar skýringar þ.e. að rekstur þeirra hefur almennt gengið vel á undanförnum árum, þeir hafa vaxið mjög að umfangi og eigin fé og veita viðskiptavinum betri þjónustu en aðrar fjármálastofnanir. Ef til vill stafar gremja Viðskiptaráðs ekki síst af því að augljóst er af árangri sparisjóðanna að unnt er að reka fjármálastofnanir með góðum árangri í öðrum formi en sem hlutafélag.
    Eðli og tilgangi sparisjóðanna er vel lýst af fyrrverandi stjórnarformanni Sparisjóðs Mýrasýslu Magnúsi Sigurðssyni á Gilsbakka í formála bókar um 90 ára sögu Sparisjóðs Mýrasýslu sem út kom árið 2003, en þar segir Magnús m.a. „Mestu máli skiptir þó, að hér má lesa, bæði með beinum orðum, en ekki síður milli línanna, að sparisjóðurinn er af grunni risinn sem félagsleg stofnun; honum var og er ætlað það hlutverk að þjóna héraðinu, með því að ávaxta aflögufé manna í þörfum verkefnum fyrirtækja og einstaklinga í héraði. Hann hefur því engan veginn eðli hlutafélagsbanka, sem reknir eru til ábata fyrir eigendur hlutafjár. Samskipti hans við einstaklinga og fyrirtæki hafa jafnan mótast af þessari hugsun“.
    Um stofnfé sparisjóðanna segir Magnús: „Af þeirri félagslegu hugmyndafræði, sem sparisjóðir byggjast á, leiðir líka, að stofnfjáreigendur, sem nú eiga að lögum að standa að hverjum sparisjóði, eru engan veginn eigendur sjóðanna, heldur trúnaðarmenn umhverfisins, sem falið er að gæta þessa fjöreggs byggðanna. Ræki þeir hlutverk sitt eins og til er ætlast í þeirri hugmyndafræði, verða sparisjóðirnir aldrei „fé án hirðis“ Þetta er mikilvægt að allir skilji.“
    Vert er að hugleiða frekar stöðu og hlutverk sparisjóða á landsbyggðinni.
Einkavæðing og fénýting síðustu ára hefur ekki reynst landsbyggðinni heilladrjúg. Hún hefur í flestum tilfellum fært fyrstu eigendum fénýtingarinnar mikla fjármuni en síðari notendur þurfa síðan að bera kostnaðinn af mikilli fjárbindingu. Má þar nefna fénýtingu fiskveiðikvóta og mjólkurkvóta, sölu grunnnets fjarskipta og sala ríkisbankanna hefur ekki bætt þjónustu þeirra á landsbyggðinni.
    Fénýting eigin fjár sparisjóðanna í þágu stofnfjáreigenda, sem Viðskiptaráð virðist telja sjálfsagða, mun með sama hætti leiða af sér mikla fjárbindingu sem bera þarf kostnað af.
Nálægð við fjármálaþjónustu og aðgangur að lánsfé er forsenda atvinnu og mannlífs í hverri byggð. Þessa þjónustu hafa sparisjóðirnir veitt hver á sínu starfssvæði.
    Er ekki eðlilegt að þeir sem notið hafa þjónustu Sparisjóðs Mýrasýslu eða annarra sparisjóða geri kröfu um að það rekstrarform sparisjóðanna sem reynst hefur vel í 100 ár eigi völ á að lifa í friði, og viðurkennt sé að það hefur kosti ekki síður en græðgi og fénýting?



Fylgiskjal III.


Gísli Árnason:

Sparisjóðurinn.
(Morgunblaðið, 17. febrúar 2008.)


    Gustað hefur um sparisjóði landsins á undanförnum misserum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis er í frjálsu falli eftir skráningu á markað síðastliðið haust. Verðmæti hans er um þriðjungur af því, sem það var við skráningu. Að vísu seldu einhverjir stjórnarmenn stofnfjárhluti eftir að verðmat sjóðsins fór fram í sumar en ekkert var upplýst um það. Skýring stjórnar er sú að Fjármálaeftirlitið heimilaði það ekki, það gæti valdið óróleika á markaði.
    Aðrir og minni sparisjóðir hafa margir hverjir átt í vök að verjast, og tapað sumir, fyrir fjáraflamönnum, sem sjá í þeim óinnleystan hagnað. Tískuorð dagsins í dag, óinnleystur hagnaður, fyrirtæki rúin eigin fé og skuldsett. En er þetta ekki eign stofnfjáreigenda og viðskiptamanna sparisjóðanna. Hvert er hlutverk Fjármálaeftirlitsins í þeim efnum að veita fjármálafyrirtækjum aðhald og gæta þess að hagsmunir almennings verði ekki fyrir borð bornir?

Vandi Skagfirðinga.
    Hinn 13. ágúst síðastliðinn var haldinn aðalfundur stofnfjárhafa í Sparisjóði Skagafjarðar. Á dagskrá var meðal annars tillaga um sameiningu sparisjóðsins við Sparisjóð Siglufjarðar, sem samþykkt var á fundinum. Þrátt fyrir að mikill meirihluti fundarmanna greiddi atkvæði gegn tillögunni. Þarna var í raun samþykkt yfirtaka Sparisjóðs Mýrasýslu á Sparisjóði Skagafjarðar, með tilstyrk Kaupfélags Skagfirðinga. Kaupfélag Skagfirðinga, sem er þó í félagslegri eigu, stuðlar þarna að því að eignarhald á Sparisjóði Skagafjarðar færist út úr héraði í stað þess að taka þátt í eflingu sjóðsins í núverandi mynd í héraði. Þess má geta að Sparisjóður Mýrasýslu er að öllu leyti í eigu Sveitarfélagsins Borgarbyggðar. Skrítin samvinnustefna þetta.

Beðið eftir Fjármálaeftirlitinu.
    Áður en til aðalfundar Sparisjóðs Skagafjarðar kom og einnig í kjölfar fundarins var lögmæti hans dregið í efa ásamt hæfi manna á fundinum. Á fundinum var stofnfjáreigendum neitað um að kjósa sjóðnum stjórn, þannig að efast má um umboð þeirrar stjórnar, sem setið hefur frá því í sumar. Athugasemdir þessar og kærur voru sendar til Fjármálaeftirlitsins, sem hefur haft þær á sínu borði frá því í ágúst síðastliðnum.
    Það er óskiljanlegur dráttur á störfum Fjármálaeftirlitsins, að hafa ekki úrskurðað um lögmæti fundar á sex mánuðum.
    Á það skal minnt að stofnfjáreigendur Sparisjóðs Skagafjarðar ganga þessa götu nú í annað sinn. Í fyrra sinnið, 2005, var um yfirtöku Kaupfélag Skagfirðinga og stjórnenda þess að ræða. Að lokinni sex mánaða bið eftir úrskurði Fjármálaeftirlitsins urðu almennir stofnfjárhafar að sækja rétt sinn til Hæstaréttar og í framhaldi af þeim dómi náðist sátt um tilhögun á rekstri sjóðsins. Sú sátt var reyndar rofin á liðnu sumri og lýsir það öðru fremur heilindum manna í málum sem þessum.

Hver gætir hagsmuna almennings?
    Brýnt er að settur sé lagarammi um viðskipti með stofnbréf sparisjóðanna, sem koma í veg fyrir að örfáir einstaklingar geti sópað til sín stofnbréfum og samfélagseignum sparisjóðanna. Frelsi í viðskiptum hefur ekkert að gera með þá hluti sem hér eru á ferðinni. Viðskipti þar sem lagaumhverfið vantar, þar sem aðilar geta í krafti fjármagns gert nánast hvað sem er, er óásættanlegt.



Fylgiskjal IV.


Guðbrandur Brynjúlfsson:

Þegar græðgin tekur öll völd.
(Skessuhorn, 18. september 2008.)


    Í Bændablaðinu 9. sept. sl. er greint frá afkomu Sparisjóðs Suður-Þingeyinga á fyrri helmingi yfirstandandi árs og þar er viðtal við Ara Teitsson stjórnarformann. Í fréttinni er sagt að á sama tíma og flestir sparisjóðir séu að tapa stórfé sé þessi litli sparisjóður að skila hagnaði á fyrri helmingi ársins upp á 53 millj. króna. Og hver skyldi nú galdurinn að baki þessari góðu afkomu vera? Gefum Ara orðið: „Þetta er ekki flókið mál. Sparisjóðirnir voru stofnaðir til að ávaxta fé fólksins í viðkomandi héraði og lána til þeirra sem á þurftu að halda í sama héraði. Þetta hefur verið markmið sparisjóðanna … og tilgangurinn hefur ekkert breyst og eftir þessu hefur Sparisj. S-Þing. alla tíð unnið.
    Það þýðir m.a. að hann hefur ekki tekið þátt í hlutabréfabraski, enda ekki hlutverk sparisjóða.“ Þá segir Ari ennfremur: „… slæm afkoma flestra sparisjóða nú er ekki vegna reglulegrar lánastarfsemi heldur vegna erlendrar fjármögnunar og hlutabréfa … menn mega ekki gleyma því til hvers sparisjóðirnir eru og ættu ævinlega að fara gætilega“.
    Það er lærdómsríkt að bera það sem að ofan segir saman við skelfilega afkomu SPM og fleiri sparisjóða á seinasta misseri. Það styður um leið þá skoðun mína og fleiri, að stjórnendur þeirra sparisjóða, sem tapað hafa hvað mestu að undanförnu hafa einfaldlega látið græðgina ræna sig allri heilbrigðri skynsemi og rökhugsun. Þetta á því miður ekki hvað síst við um SPM, áður einn sterkasta sparisjóð landsins.
    Árangur sparisjóðs S-Þing. hrekur einnig þá fullyrðingu fyrrverandi sparisjóðsstjóra SPM að fyrst og fremst smæð og ytri aðstæður hafi komið SPM á knén. Þetta er þvættingur eins og flestir sjá. Það var óstjórn, glannalegar fjárfestingar í hlutabréfum, ótrygg veð vegna útlána til útvalinna fjárfesta í Icebank og erlendar lántökur sem komu sjóðnum í þrot.
    Engum ætti að vera betur ljóst en bankamönnum, mönnum sem dags daglega hafa puttana á púlsi fjármálamarkaðarins, hversu fallvölt gæfa er fólgin í uppgangi á hlutabréfamörkuðum. Sagan stutt og löng kennir að eftir bratt ris á gengi hlutabréfa kemur ævinlega hratt fall. En hinn gæfusnauði stjórnandi SPM, með „aðstoð“ stjórnar, sem svaf á verðinum, eða var hugsanlega blekkt rétt eins og fulltrúaráðið, hefur nú komið honum í reynd fyrir kattarnef og stórkapítalið (Kaupþing) gleypt hann nánast með húð og hári. Ef til vill er þetta ekki tilviljun, heldur einn þáttur af mörgum hjá frjálshyggjuliði þessa lands til að komast yfir eigur almennings fyrir lítið. Þeirra ær og kýr er að brjóta niður allt og eyðileggja sem alþýðan hefur komið sér upp í áranna rás sér til hagsbóta.
    Nánast daglega berast nú fréttir af erfiðleikum fyrirtækja, jafnt gamalgróinna sem yngri. Hver er ástæðan? Jú, fyrst og fremst sú að nýkapítalistarnir sem komust yfir þau hafa á liðnum misserum látið stjórnast af græðgi og glannaskap í fjárfestingum og sogað auk þess út úr þessum fyrirtækjum nær allt eigið fé þeirra til sjálfra sín í formi m.a. ofurlauna, ýmiss konar fríðinda og fáránlega hárra arðgreiðslna og skilið þau eftir stórskuldug. Þetta eru stærstu þjófar Íslandssögunnar, en fá að ganga lausir vegna þess að í kapítalísku samfélagi heitir þetta ekki þjófnaður, heldur að menn kunni að koma ár sinni vel fyrir borð. Ja, svei attan.
    En aftur örstutt að SPM. Ég þekki þau öll sem skipuðu seinustu stjórn og veit vel að þau eru heiðarlegt og gott fólk. En þau sofnuðu á verðinum og urðu leiksoppar græðgisvæðingarinnar sem tröllríður samfélagi okkar um þessar mundir og sigldi SPM í reynd í þrot. Það er aldrei von á góðu þegar græðgin, ein af lægstu hvötum mannsins, nær að hreiðra um sig.



Fylgiskjal V.


Elías Jón Guðjónsson:

„Við erum að þjóna fólkinu í héraðinu.“
(24 stundir, 6. ágúst 2008.)


    „Það gengur vel hjá okkur. Það er enginn ofboðslegur gróði af þessu en við erum að þjóna fólkinu í héraðinu og það er ekkert sem segir að við getum ekki haldið því áfram,“ segir Ari Teitsson stjórnarformaður Sparisjóðs Suður-Þingeyinga.
    Að undanförnu hafa verið fréttir af erfiðum rekstri sparisjóða og að sumir þeirra séu að sameinast eða komast í eigu banka. „Þess ber þó að geta að sparisjóðirnir eiga með sér mikið samstarf að ýmsu leyti. Ef þeir hverfa jafn hratt og nú er að gerast, gætu þessir litlu orðið of fáir og þá er það spurning hvort það veldur þeim erfiðleikum,“ bætir Ari við.

Hornsteinn í héraði.
    Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Norðfjarðar, tekur undir með Ara að ef stærri sparisjóðir eru að hverfa úr Sambandi íslenskra sparisjóða þá hljóti það að veikja þá sem eftir standa. Vilhjálmur segir einnig að sparisjóðirnir hafi verið hornsteinar í héraði hringinn í kringum landið. „Þeir hafa komið að mörgum málefnum í sínu samfélagi og styrkt þau að mínu viti, menningarmálum, líknarmálum, íþróttastarfsemi og mörgu öðru,“ segir hann og bætir við: „Því yrði að einhverju leyti fórnað ef fram heldur sem horfir.“
    Í dag tekur hluthafafundur SPRON afstöðu til áforma um sameiningu við Kaupþing. Til stendur að Kaupþing eignist 70% stofnfjár í Sparisjóði Mýrasýslu.



Fylgiskjal VI.


Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 113/1996,
um viðskiptabanka og sparisjóði, með síðari breytingum.

(Þskj. 8, 8. mál á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)


Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.


1. gr.

    18. gr. laganna orðast svo:
    Sala eða annað framsal stofnfjárhluta í sparisjóði er óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Sé endurgjald innt af hendi skal um það fara samkvæmt reglu 2. mgr. 22.gr. Veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimil.

2. gr.

    37. gr. A, 37. gr. B og 2. málsl. 1. mgr. 72. gr. falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Síðastliðið sumar varð þjóðin vitni að því að stofnfjáreigendum í SPRON voru gerð tilboð um kaup á stofnfjárhlutum á margföldu yfirverði. Ljóst er að þetta var í andstöðu við vilja löggjafans eins og fram kom í umfjöllun um málið á Alþingi og í margítrekuðum yfirlýsingum ráðherra og þingmanna úr stjórn og stjórnarandstöðu í kjölfarið. Eðlilegt er að eignarhlutur stofnfjáreigenda sé varinn og að þeir eigi kost á því að selja hann á verðbættu nafnverði. Raunávöxtun stofnfjárbréfa hefur í reynd verið tryggð þar sem arður af stofnfé hefur verið reiknaður af verðbættu nafnverði og hafa stofnfjáreigendur þannig notið arðs sem hefur að jafnaði verið meiri en almennt gengur um hlutabréf.
    Hlutverk sparisjóðanna hefur verið mjög þýðingarmikið í íslensku atvinnulífi og mörgum byggðarlögum mikilvæg lyftistöng enda voru þeir settir á laggirnar með félagslegu átaki. Í greinargerð með frumvarpi viðskiptaráðherra á 126. löggjafarþingi (567. mál) segir m.a.: „Sparisjóðir á Íslandi, líkt og annars staðar í Evrópu, eru fyrst og fremst staðbundin fjármálafyrirtæki með sterk tengsl við starfssvæði sitt og nána samvinnu sín á milli. Sparisjóðirnir hafa verið reknir með hag sparifjáreigenda og almennings fyrir augum en ekki til hámarksarðs fyrir stofnfjáreigendur. Markmiðið með rekstrinum var því að stuðla að almannahag.“ Brýnt er að þetta markmið glatist ekki.
    Þær lagabreytingar sem þetta frumvarp felur í sér varðandi meðferð stofnfjárhluta eru í samræmi við vilja Sambands íslenskra sparisjóða.
    Þá leggur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að numin verði úr gildi heimild til að breyta sparisjóðum í hlutafélög. Augljóst er að heimildarákvæði laganna um að breyta sparisjóðum í hlutafélög hafa þegar valdið uppnámi og tefla tilverugrundvelli sparisjóðanna í tvísýnu. Óhjákvæmilegt er að endurskoða málið allt frá grunni í ljósi atburða sumarsins og er lagt til að þar til sú endurskoðun hafi farið fram verði óheimilt að breyta sparisjóðum í hlutafélög.


Fskj. I.

Ályktun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs
um stöðu og framtíð sparisjóðanna.

(27. júní 2002.)


    Af umræðu síðustu daga um hlutafélagavæðingu og yfirtöku SPRON virðist ljóst að endurskoða þarf nýleg lög um sparisjóði þannig að eðli þeirra, markmið og þjónustuskyldur verði tryggð.
    Hlutverk sparisjóðanna hefur verið að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs í viðkomandi byggðarlögum, en ekki að hámarka arð einstakra stofnfjáreigenda. Sérstaklega hafa sparisjóðirnir sinnt því mikilvæga hlutverki að veita almenningi og ekki síst minni fyrirtækjum þjónustu. Minnt er á að í samþykktum sparisjóðanna er skýrt kveðið á um að sé hlutverki sparisjóðs lokið og ákveðið að leggja hann niður skuli eignir að frátöldum skuldum og greiðslum til stofnfjáraðila renna til líknar- og menningarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs. Stærstur hluti eigin fjár sparisjóðanna er því í raun samfélagseign og sameign menningar- og líknarfélaga á starfssvæði sjóðanna. Allar breytingar á eignarformi eða rekstri sem ganga á svig við þessa hugmyndafræði og tilgang sparisjóðanna er brot á þeim samþykktum sem kveða á um tilveru þeirra.
    Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vöruðu við þeim breytingum sem samþykktar voru á Alþingi vorið 2001 sem m.a. heimiluðu hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Það var álit þingflokksins að lagabreytingarnar væru hroðvirknislega unnar og lögin byðu þeim hættum heim sem nú hafa komið á daginn. Þingflokkurinn lagði það til að opnað yrði fyrir öðrum leiðum til að styrkja hag og samkeppnisstöðu sparisjóðanna, ef þess reyndist þörf.
    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvetur til þess að frestað verði öllum áformum um hlutafélagavæðingu einstakra sparisjóða og öðrum grundvallarbreytingum á eignarhaldi þeirra. Hag sparisjóðanna ber að tryggja án þess að fallið sé frá grundvallarhugsjónum þeirra og þjónustuskyldum við það samfélag sem þeir starfa í.



Fskj. II.

Jón Bjarnason:
Um sparisjóði fólksins
(Morgunblaðið 5. júlí 2002.)


     Langstærsti hluti eiginfjár sparisjóðanna er sjálfseign, í reynd almenningseign þess nærsamfélags sem viðkomandi sparisjóður þjónar. Markmið þeirra sem aðhyllast hömlulausa einkavæðingu almenningseigna virðist vera að ná eignarhaldi og tökum á þessum samfélagsverðmætum og á sem lægsta verði. Slagurinn um eigur Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis er glöggt dæmi hér um. Hlutafélagavæðing eða sala SPRON til Búnaðarbankans þykir fréttnæm nú m.a. vegna þess að ákveðnir einstaklingar ætla sér að hagnast persónulega.
    Fyrir nokkrum áratugum gekk ákveðin hrina yfir þar sem margir sparisjóðir hurfu inn í eða urðu stofninn að útibúum annarra bankastofnana, fyrst og fremst Búnaðarbanka eða Landsbanka. Þetta hafði takmarkaða breytingu í för með sér á meðan viðkomandi útibú naut verulegs sjálfstæðis og sinnti sínu nærumhverfi. Nú eru mörg útibúin orðin valdaminni afgreiðsludeildir frá miðstýrðum höfuðstöðvum, sem geta borið aðra hagsmuni fyrir brjósti en að efla þjónustu við íbúa í fjarlægum héruðum. Lokun útibúa hlutafélagavædds Landsbanka víða um landið á síðasta vetri er gott dæmi þar um.

Sérstaða sparisjóðanna.
    Sparisjóðirnir hafa á undanförnum árum reynt að halda sérstöðu sinni og nálægð við íbúa á sínu svæði, en jafnframt styrkt starfsemina með samvinnu sín á milli. Fari hlutafjárvæðing og sala á sparisjóðunum í gang með þeim hætti sem nú er til umræðu má búast við skriðu sem ekki verður stöðvuð. Eitt er víst að mörg byggðarlög sem nú njóta góðs af starfsemi sparisjóðs munu standa snauðari eftir ef þessum þjónustustofnunum verður fórnað á altari gróðasjónarmiða fjármagnseigenda í fjarlægum landshlutum. Mér verður hugsað til Sparisjóðs Mýrasýslu, Sparisjóðs Svarfdæla, Sparisjóðs Strandamanna, Sparisjóðs Þórshafnar o.s.frv., sem í fljótu bragði virðast óaðskiljanlegur hluti sinna nærsamfélaga en gætu samt orðið auðveld bráð.

Samþykktir sparisjóðanna.
    Flestir sparisjóðirnir voru stofnaðir snemma á síðustu öld. Þeir hafa veitt almenna fjármálaþjónustu á sínu starfsvæði og unnið á grundvelli hugsjóna um eflingu og uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarfs á sínu heimasvæði. Markmið þeirra hefur ekki verið að hámarka arðgreiðslur til einstakra stofnfjáreigenda. Afar ströng skilyrði voru sett fyrir starfsleyfum sparisjóðanna. Sparisjóðirnir voru menningar- og þjónustustofnanir og nutu af þeim sökum skattfrelsis allt til ársins 1983. Í samþykktum sparisjóðanna er kveðið á um slit sjóðsins. „Aðeins er heimilt að sameina sparisjóðinn öðrum sparisjóði. Þegar skuldir sparisjóðsins hafa verið greiddar vegna slita á starfsemi sparisjóðsins skal greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra af eftirstöðvum sjóðsins. Þeim eignum er þá kunna að vera eftir skal ráðstafað til menningar- og líknarmála á starfsvæði sparisjóðsins.“ Í þessu endurspeglast sá grundvallarmunur sem er á sparisjóði og hlutafélagsbanka sem starfar eins og hvert annað fyrirtæki. Undir nákvæmlega sömu formerkjum var SPRON stofnað og hvíla því nákvæmlega sömu skyldur á þeim sparisjóði sem öðrum.

Samfélagsleg ábyrgð.
    Í hugum fólks stendur heitið sparisjóður fyrir ofangreind gildi. Sé þessum grundvallarmarkmiðum breytt, eru jafnframt forsendur brostnar fyrir því að halda peningum saman í nafni viðkomandi sparisjóðs. Þegar hlutverki sparisjóðanna lýkur eins og markmið þeirra eru skilgreind eða þeir eru lagðir niður af öðrum ástæðum er skýrt kveðið á um hvernig með eignir þeirra skuli farið. Þessum samþykktum geta stofnfjáreigendur ekki breytt. Sé ekki vilji til að reka sparisjóðina á þessum grunni ber að leggja þá niður og skipta eignunum eins og samþykktirnar kveða á um. Þá eiga fjármunirnir að greiðast út í heilu lagi til menningar- og líknarstarfsemi eða renna til þess samfélags sem hefur lagt til hagnað sjóðsins. Þegar miklir fjármunir eða hagsmunir eru til meðhöndlunar er ýmsum hætt við að misstíga sig og grundvallarhlutverk og markmið vilja gleymast. Í ljósi umræðu síðustu daga er rétt að fresta öllum áformum um breytingar á eignarhaldi og rekstrarformi sparisjóðanna og endurskoða lagaumgjörð þeirra. Lagabreytingarnar þurfa að miða að því að gefa einstökum sparisjóðum aukið olnbogarými og færi á að styrkja stöðu sína án þess að eðli þeirra breytist og hugsjónir glatist.

Fákeppni eða dreifræði.
    Sú var tíðin að dreifræði var styrkur atvinnulífs og þjónustustarfsemi hérlendis. Fyrirtækjum var stjórnað þar sem þau störfuðu, af fólki sem þekkti vel til staðhátta og gerði sér gjörla grein fyrir því að reksturinn snerist um fólk en ekki dauðar tölur. Mesta ógnun við íslenskt atvinnulíf, byggð og búsetu í landinu öllu er stórfelldur samruni fyrirtækja, aukin miðstýring og fjarlægð stjórnenda frá því samfélagi sem reksturinn er ætlað að þjóna. Völd og yfirráð auðlinda og atvinnulífs færast á hendur örfárra manna. Ákvarðanir sem máli skipta eru teknar í órafjarlægð.
    Sparisjóðirnir eru nú ein helsta stoðin við byggð víða um landið, m.a. vegna þess að íbúarnir hafa sjálfir forræði yfir þeim. Þeir hafa þannig tryggt efnahagslegt sjálfstæði íbúanna og gefið þeim sveigjanleika og svigrúm til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Þeir eru ein helsta trygging fyrir þjónustu á staðnum og lánum til einstaklinga og smærri fyrirtækja á viðkomandi byggðarlögum.
    Það er því ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að kasta á milli sín fjöreggi fjölmargra byggða með lagasetningunni um sparisjóði á síðastliðnu ári.
    Reykvíkingar eiga vitanlega að gera sömu siðferðiskröfur til SPRON og Svarfdælir, Mýramenn, Strandamenn eða Þórshafnarbúar gera til sinna sparisjóða. Þess vegna kemur sú yfirtaka, hlutafélagavæðing og hagnaðartaka sem nú er til umræðu með SPRON ekki til greina. Fari svo að starfsemi sparisjóða leggist í einhverjum tilvikum af verður að gæta þess að þeir fjármunir sem þeir hafa ávaxtað í gegnum árin renni til réttra aðila, þeirra sem getið er um í samþykktum sjóðanna. Þeir sem njóta eignanna eru íbúar byggðarlagsins, menningar- og líknarstarfsemi á starfssvæði sparisjóðsins en ekki aðrar fjármálastofnanir eða fáeinir stofnfjárhafar.



Fskj. III.

Jón Bjarnason:
Sparisjóður Dalasýslu og Búnaðarbankinn.
(Skessuhorn 14. ágúst 2002.)


    Sparisjóðirnir eru ein helsta stoðin við byggð víða um landið, m.a. vegna þess að íbúarnir hafa sjálfir forræði yfir þeim. Þeir hafa styrkt efnahagslegt sjálfstæði íbúanna og tryggt þeim svigrúm til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Návist þeirra er trygging fyrir þjónustu á staðnum og lánum til einstaklinga og smærri fyrirtækja í viðkomandi byggðarlögum.
    Fyrir nokkrum áratugum gekk yfir hrina þar sem margir sparisjóðir urðu stofn að nýjum bankaútibúum – fyrst og fremst Búnaðarbanka eða Landsbanka.
    Öflugir sparisjóðir svo sem Sparisjóður Akraness, Sparisjóður Dalasýslu og Sparisjóður Stykkishólms, svo nokkrir séu nefndir, hurfu þannig inn í næsta bankaútibú. Sameiningin fór fram í því ljósi að þessir bankar voru þá að fullu í ríkiseign og litið var á þá sem þjónustustofnanir fyrir fólk og atvinnulíf en ekki fyrirtæki sem bæri fyrst og fremst að skila hámarksarði til eigenda sinna.
    Í þessu ljósi er lærdómsríkt að líta til þess hvernig Dalamenn reyndu að búa um hnútana þegar þeir sömdu við Búnaðarbankann um rekstur Sparisjóðs Dalasýslu.

Sparisjóður Dalamanna.
    Í ágætu riti: „Sparisjóður Dalasýslu – aldahvörf“ sem kom út 1995, rekur Friðjón Þórðarson sögu Sparisjóðsins og samninginn við Búnaðarbankann sem enn er í gildi. Friðjón er sem kunnugt er fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og sýslumaður Dalamanna og Snæfellinga. Hann var í senn formaður stjórnar Sparisjóðs Dalasýslu um árabil og sat í bankaráði Búnaðarbankans í 32 ár, lengst af sem varaformaður en um tíma formaður ráðsins.
    Sparisjóður Dalasýslu var stofnaður 2. okt. 1891. Á hálfrar aldar afmæli hans skrifar Ásgeir Ásgeirsson próf. í Hvammi: „Merkasta stofnun Dalamanna, sem þeir eiga allir hlutdeild í, er Sparisjóður Dalasýslu. Það er óhætt að fullyrða að Dalamenn hafi hvorki fyrr né síðar komið á fót hjá sér stofnun sem reynst hefur þeim jafn happasæl til fjársöfnunar og til eflingar nytsömum framkvæmdum í sýslunni allri eins og hann. Með stofnun sjóðsins var lögð traustasta undirstaðan að efnalegri velmegun sýslubúa.“
    Sparisjóðurinn lét menningar- og líknarmál til sín taka. Dæmigert er þegar sjóðurinn ákvað að minnast fórnfúss starfs bændahöfðingjans Bjarna Jenssonar í Ásgarði sem var gjaldkeri sjóðsins í áratugi. Það gerir sjóðurinn með því að leggja fram stofnkostnað eins stúdentaherbergis við Háskóla Íslands á Nýja Garði, sem ber nú nafnið Ásgarður.

Dalamenn semja við ríkisbanka.
    Á fundi ábyrgðarmanna Sparisjóðs Dalasýslu haustið 1963 var fyrst hreyft þeim hugmyndum að Búnaðarbankinn og Sparisjóðurinn sameinist um rekstur bankaútibús í Búðardal. Að sjálfsögðu voru um það skiptar skoðanir, en á sparisjóðsfundi 13. maí 1965 var samþykkt að ganga til samstarfs við Búnaðarbanka Íslands um stofnun útibús frá bankanum í Búðardal. Þegar Búnaðarbankinn tók við rekstri Sparisjóðsins var aðeins einn 10 þús. kr. víxill í vanskilum, en hann greiddist upp innan fárra vikna. Horfur fyrir sjóðinn voru góðar.
    Samningurinn við Búnaðarbankann er um margt athyglisverður. Sparisjóður Dalasýslu starfar áfram sem sjálfstæð eining, þó verkefnin og bundnar innstæður sjóðsins í Seðlabankanum hafi verið færðar Búnaðarbankanum. Stjórn Búnaðarbankans lofar að útibúið starfi með líkum hætti í grundvallaratriðum og sparisjóðurinn, og varasjóðinn skal ávaxta í útibúinu.
    Friðjón Þórðarson segir í áðurnefndu riti: „Það skal skýrt og greinilega tekið fram, að slíkur samningur hefði alls ekki verið gerður nema við ríkisbanka, sem menn töldu sig geta treyst að starfa myndi á sama grunni til frambúðar. Samningurinn ber allur þess merki.“

Er endurheimt Sparisjóðs Dalasýslu möguleg?
    Þrátt fyrir að Sparisjóður Dalamanna hætti að starfa sem lánastofnun er árlega haldinn ársfundur sjóðsins. Ábyrgðarmennirnir halda hópinn og líta svo á að Sparisjóðurinn sé áfram til þó svo verkefnin hafi með ákveðnum skilyrðum verið falin öðrum. Þessir ábyrgðarmenn sem nú myndu heita stofnfjárfestar hafa ekki innheimt stofneign sína.
    Sú spurning hlýtur að vakna hvort kaupin geti gengið til baka, og svarið er jákvætt. Í 10. grein samningsins stendur: „Ef útibú bankans verður lagt niður, skal það sameinast Sparisjóði Dalasýslu, ef það verður þá ósk forráðamanna sjóðsins og fer þá fram yfirtaka á starfsemi útibúsins, eignum þess og skuldum með svipuðum hætti og hér er gert af hálfu Búnaðarbankans.“
    Þegar Búnaðarbankinn varð hlutafélag og gefin út heimild til að selja hann var það án allra kvaða. Engar kröfur eru um að reka útibú eða fjármálaþjónustu út um byggðir landsins. Eftir að ríkið hefur selt meirihlutaeign sína í Búnaðarbankanum geta Dalamenn engin áhrif haft á það hvort Búnaðarbankinn reki útibú eða aðra fjármálaþjónustu í Búðardal. En hafa Dalamenn þá misst Sparisjóðinn sinn?

Seldur Búnaðarbanki, hvað þá?
    Menn virðast nú reiðubúnir að slá skjaldborg um sparisjóðina í landinu, einmitt vegna eðlis þeirra og náinna tengsla við nágrenni sín. En jafnvel þó sparisjóðirnir haldi velli, liggur sú hætta í leyni að með kvaðalausri sölu ríkisbankanna verði samningar brotnir er hafa verið gerðir við þá héraðssparisjóði, sem fólu þeim verkefni sín í því trausti að hér væri um ríkisbanka að ræða. Þau héruð sem þá horfa á eftir fjármálaþjónustu sinni í gin peningagræðginnar ættu að spyrna við fótum og spyrja með Dalamönnum hvar er Sparisjóðurinn okkar? Getum við fengið hann aftur eða haft áhrif á hvernig arftaki hans, bankaútibúið starfar. Einkavæddur og seldur Búnaðarbanki eða Landsbanki mun ekki bera neinar staðbundnar skyldur og starfar á allt öðrum forsendum en sparisjóðirnir gera samkvæmt skipulagsskrám sínum. Þeir geta t.d. einhliða lokað útibúum sínum þegar þeim sýnist. Sporin hræða. Landsbankinn hikaði ekki við að loka nokkrum útibúum sínum á landsbyggðinni sl. vetur þar sem þeir voru eini aðilinn með bankaþjónustu. Vill íslenska þjóðin þessa þróun? Ég held ekki.