Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 111. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 120  —  111. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Flm.: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðbjartur Hannesson,


Ásta R. Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram.



1. gr.

    Við 51. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr., svohljóðandi:
    Við kjör í stjórn skal tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.

2. gr.

    Við 72. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við kosningu stjórnar skal farið eftir 2. mgr. 51. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum fjármálafyrirtækja.
    Atburðir síðustu vikna hafa sýnt að þörf er á nýrri nálgun og nýrri hugsun í stjórnun fjármálafyrirtækja hér á landi. Lengi hefur verið rætt um lögfestingu á jöfnun kynjahlutfalls í stjórnun fjármálafyrirtækja og um það verið skiptar skoðanir. Aðrar þjóðir, t.d. Norðmenn, hafa farið þá leið að lögfesta hlutfallið til að tryggja jafnræði kynja í stjórnum fjármálafyrirtækja. Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að jafna kynjahlutföll í stjórnum opinberra hlutafélaga. Í nýlegum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram sú regla að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Sama regla gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að. Enn fremur er í 1. mgr. 63 gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, kveðið á um að við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skuli tryggt að í stjórninni sitji sem næst jafnmargar konur og karlar.
    Nú þegar stærstu bankar landsins verða í aðaleigu ríkisins og hlutfall kynjanna í stjórn þeirra þarf að vera sem jafnast og ekki minna en 40% í samræmi við jafnréttislög er eðlilegt að þessi regla eigi við um öll fjármálafyrirtæki landsins. Með breytingum samkvæmt frumvarpinu væri tryggt að hlutur kynjanna í stjórn fjármálafyrirtækja yrði eins jafn og kostur er á, en orðalagið „sem næst jafnmargar konur og karlar“ felur í sér að þar sem fjöldi stjórnarmanna er almennt oddatala, oftast þrír, fimm eða sjö, skuli hlutfallið vera eins jafnt og verið getur á þeim forsendum. Er þetta ekki hvað síst mikilvægt nú eftir þær hræringar sem orðið hafa á fjármálamarkaði og þar sem búast má við auknu atvinnuleysi í þessum geira á næstu missirum. Ljóst er að fram til þessa hafa konur ekki átt greiðan aðgang að stjórnum banka eða fjármálafyrirtækja. Er það miður, ekki síst þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á fjárhagslegan ávinning fyrirtækja af því að auka hlutfall kvenna í stjórnum. Hið sama á reyndar við um stjórnunarstöður og hlutdeild kvenna þar. Því er enn brýnna en áður að huga að jafnrétti á vinnumarkaði og þá ekki hvað síst með tliliti til aðgangs að stjórnunar- og ábyrgðarstöðum. Að auki er afar mikilvægt að stjórnir fjármálafyrirtækja séu þannig samsettar að gætt sé að fjölbreytileika, þar sem um er að ræða fjárvörslumenn almennings. Atburðir síðustu daga sýna að það er allur almenningur sem getur staðið og fallið með svona fyrirtækjum.