Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.

Þskj. 130  —  120. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni
um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn.
    Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum eða hann fluttur úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn, enda sé fiskurinn seldur á opinberum fiskmarkaði sem hlotið hefur leyfi Fiskistofu. Sé fyrirhugað að flytja út óunninn afla til sölu á fiskmarkaði erlendis sem ekki hefur verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu skal útgerð og skipstjóri fiskiskips tryggja að Fiskistofu séu sendar upplýsingar um aflann eigi síðar en 24 klukkustundum áður en aflinn fer um borð í flutningsfar eða skip fer af miðum, sigli fiskiskip með eigin afla. Útgerð skal einnig upplýsa hvaða lágmarksverðs er krafist fyrir afla. Upplýsingar þessar skulu birtar á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla þar sem aflinn skal boðinn upp. Ráðherra skal kveða á um uppboðsskilmála og framkvæmd uppboðs í reglugerð.
    Þá getur ráðherra heimilað með reglugerð að afla sem veiddur er úr íslenskum deilistofnum sé landað erlendis, enda sé eftirlit með löndun afla og vigtun hans talið fullnægjandi.
    Þegar sérstaklega stendur á, t.d. vegna alvarlegrar vélarbilunar, getur Fiskistofa heimilað að skip sem vinna afla um borð landi erlendis.
    Fiskistofa skal innheimta af fiskmarkaði erlendis kostnað sem til fellur við upphaflega úttekt á fiskmarkaði í kjölfar umsóknar, vegna launa eftirlitsmanna erlendis og við sérstakar eftirlitsúttektir af hálfu Fiskistofu. Enn fremur er Fiskistofu heimilt að innheimta af útgerð skips sem landar afla sínum erlendis, sbr. 3. og 4. mgr., kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis. Ráðherra setur nánari reglur um greiðslu kostnaðar samkvæmt ákvæði þessu.

2. gr.

    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fiskistofa skal afturkalla leyfi erlends fiskmarkaðar til að móttaka afla íslenskra fiskiskipa sem ekki hefur verið endanlega veginn ef fyrirsvarsmenn fiskmarkaðar, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla eða reglum settum samkvæmt þeim. Hið sama á við standi erlendur fiskmarkaður ekki í skilum með greiðslu kostnaðar skv. 5. mgr. 5. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í upphafi árs 2007 tók sjávarútvegsráðherra ákvörðun um að afnema svokallað útflutningsálag á óunninn botnfiskafla sem fluttur er úr landi. Útflutningsálag var lagt á botnfiskafla sem fluttur var óunninn á fiskmarkað erlendis án þess að hafa verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu þannig að 10% álagi var bætt við niðurstöðu vigtunar þegar aflinn var reiknaður til aflamarks. Ákvörðun þessi var tekin í tengslum við samning Íslands við Evrópusambandið um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir á markaði sambandsins og tók gildi 1. september 2007. Samhliða því að taka ákvörðun um að afnema útflutningsálag skipaði sjávarútvegsráðherra starfshóp sem samkvæmt skipunarbréfi hafði það hlutverk að skila tillögum um hvernig fiskkaupendum hérlendis yrði best tryggður möguleiki á að bjóða í þennan fisk áður en hann er fluttur úr landi. Í starfshópinn voru skipaðir: Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, sem var formaður hópsins, Stefán Friðriksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf., og Kjartan Guðmundsson fiskverkandi. Við fráfall Einars Odds Kristjánssonar var Illugi Gunnarsson alþingismaður skipaður formaður starfshópsins með bréfi dags. 7. ágúst 2007. Starfshópurinn fór ítarlega yfir viðfangsefnið og ræddu fulltrúar hans við alla helstu hagsmunaaðila ásamt því að heimsækja fiskmarkaðina í Grimsby og Hull í Bretlandi, sem í dag taka á móti mestum hluta þess afla sem fluttur er á markað erlendis. Starfshópurinn hefur nú skilað áliti sínu og koma þar fram tillögur sem lúta að vigtun afla á fiskmörkuðum erlendis, aðgerðum til að auka öryggi í viðskiptum og aðgerðum til að bæta aðgengi fiskvinnslunnar að fiski sem fluttur er á markað erlendis án þess að hafa verið endanlega veginn og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu.
    Með frumvarpi þessu er tekið á þeim þáttum sem eru til þess fallnir að bæta aðgengi fiskkaupenda að afla sem fyrirhugað er að flytja úr landi. Útgerðarmönnum sem fyrirhuga að flytja afla úr landi án þess að hann hafi verið endanlega veginn verður gert skylt að senda upplýsingar um afla til Fiskistofu sem sendir upplýsingarnar áfram til birtingar á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaðar með sjávarafla. Uppboð á afla stuðlar að því að fiskkaupendur hafi tækifæri til að kaupa aflann. Útgerðarmenn skulu gefa upp lágmarksverð fyrir afla og auðveldar það kaupendum að bjóða í hann. Mikilvægt er að hafa í huga að regla þessi á einungis við um afla sem fluttur er úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu. Útgerðir eiga þess kost að vigta aflann hér á landi og þá er þeim frjálst að ráðstafa aflanum að vild.
    Enn fremur eru fyrirhugaðar breytingar á reglum er lúta að vigtun aflans hjá markaði erlendis á þann veg að auknar verði kröfur sem gerðar eru til vigtunarbúnaðar hjá fiskmörkuðum erlendis. Þá er talið mikilvægt að tryggja að eftirlit með afla sem fluttur er úr landi án þess að hafa verið skráður til aflamarks sé fullnægjandi.
    Eftirlit með afla sem fluttur er úr landi án þess að hafa verið endanlega vigtaður fer annars vegar fram hér á landi og hins vegar erlendis. Gert er ráð fyrir að Fiskistofu verði heimilt að innheimta kostnað sem hlýst af eftirliti erlendis.
    Þá eru gerðar breytingar á viðurlagakafla laganna þar sem kveðið er á um afturköllun leyfis erlends markaðar til að taka á móti íslenskum afla hafi ekki verið farið að ákvæðum III. kafla laganna og er það til samræmis við kröfur sem gerðar eru til vigtunarleyfishafa hér á landi. Auk þess er Fiskistofu heimilað að afturkalla leyfi erlends markaðar í þeim tilvikum sem markaður stendur ekki í skilum með greiðslu kostnaðar vegna eftirlits.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 5. gr. laganna kemur fram sú meginregla að öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skuli landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Jafnframt er í ákvæðinu fjallað um undanþágur frá þessari meginreglu og þau skilyrði sem uppfylla þarf til að heimilt sé að landa og vigta afla erlendis. Meginreglan um löndun og vigtun afla og undanþágur frá þeirri reglu eru óbreyttar frá því sem verið hefur en skýrara þykir að breyta ákvæðinu í heild, skipta upp í málsgreinar og bæta við efnislegum breytingum. Efnislegar breytingar lúta að aðgengi fiskkaupenda að afla og innheimtu kostnaðar vegna eftirlits með vigtun og skráningu afla erlendis.
    Í 2. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð sem heimilar löndun á afla erlendis og útflutning afla sem ekki hefur verið endanlega veginn hér á landi. Sú skylda er lögð á útgerð og skipstjóra að tryggja að upplýsingar um afla, sem fluttur er óunninn á markað erlendis án þess að hafa verið endanlega veginn og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, séu sendar til Fiskistofu. Hér kemur fram það nýmæli að Fiskistofa skuli sjá til þess að upplýsingar um afla verði birtar á opnum uppboðsvef, sem rekinn er af uppboðsmarkaði með sjávarafla, þar sem afli er boðinn upp og þar komi jafnframt fram lágmarksverð sem útgerðaraðili setur.
    Í 3. mgr. er talað um íslenska deilistofna í stað stofna sem halda sig að hluta í efnahagslögsögu Íslands en ekki er um efnislega breytingu að ræða.
    Í 5. mgr. er kveðið á um innheimtu kostnaðar Fiskistofu af eftirliti erlendis. Annars vegar er um að ræða kostnað vegna eftirlits með ísfiski sem fer á markað erlendis án þess að hafa verið endanlega veginn og hins vegar vegna eftirlits erlendis með afla úr deilistofnum sem landað er erlendis eða þegar landað er erlendis vegna vélarbilunar. Þegar fiskmarkaður erlendis sækir um viðurkenningu til að taka á móti íslenskum afla sem ekki hefur verið endanlega veginn er nauðsynlegt að Fiskistofa heimsæki fiskmarkaðinn og geri þar úttekt ásamt því að afla nauðsynlegra upplýsinga. Talið er eðlilegt að viðkomandi markaður beri kostnað af þeirri úttekt. Jafnframt er fiskmörkuðum gert að greiða launakostnað eftirlitsmanna erlendis og að standa straum að kostnaði við sérstakar eftirlitsúttektir Fiskistofu. Með sérstökum eftirlitsúttektum er átt við hefðbundnar úttektir sem fara fram til að tryggja að farið sé að reglum auk eftirlitsferða þegar rökstuddur grunur er uppi um brot gegn lögum og reglum er lúta að vigtun sjávarafla. Gert er ráð fyrir að umfang eftirlits ráðist af aflamagni sem flutt verður til viðkomandi markaðar.

Um 2. og 3. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996,
um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að bæta aðgengi fiskkaupenda að afla sem fyrirhugað er að flytja úr landi án þess að hann hafi verið vigtaður hér á landi. Útgerðarmönnum sem fyrirhuga að flytja afla úr landi án þess að hann hafi verið endanlega veginn verður samkvæmt frumvarpinu skylt að senda upplýsingar um afla til Fiskistofu sem sendir upplýsingarnar áfram til birtingar á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaðs með sjávarafla.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskistofu verði heimilt að innheimta af fiskmarkaði erlendis kostnað sem til fellur við upphaflega úttekt á fiskmarkaði í kjölfar umsóknar, launa eftirlitsmanns erlendis og við sérstakar eftirlitsúttektir af hálfu Fiskistofu. Þá er Fiskistofu áfram heimilt að innheimta af útgerð skips sem landar afla sínum erlendis kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að 10–12 m.kr. kostnaður, sem Fiskistofa hefur haft af úttekt og eftirliti með erlendu fiskmörkuðunum, verði fjármagnaður með sértekjum.