Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 160. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 186  —  160. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir.



1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Verðtryggt lánsfé skv. 14. gr. skal ekki bera hærri vexti en 2%.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með þessu frumvarpi er lagt til að verðtryggð lán beri aldrei hærri vexti en nemur 2%. Við þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu, óðaverðbólgu og háa vexti, yrði þetta brýnt réttlætismál fyrir lántakendur.
    Sá sem tekur verðtryggt lán er með öllu óvarinn á tímum verðbólgu. Hækki verðlagið, þá hækka lánin. Við útreikning vaxta af verðtryggðum lánum er í dag skv. 4. gr. laganna miðað við að vextir skuli vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum hjá lánastofnunum, ef hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin.
    Með verðtryggingu er hægt að halda vöxtum lægri en ella vegna þess hve lítil áhætta lánveitandans er. Á Íslandi hafa lánveitendur getað tryggt lánsfjármagnið með verðtryggingu og breytilegum vöxtum, stundum meira að segja hvorutveggja í senn. Verðtrygging lána tryggir hagsmuni lánveitanda með þeim hætti að hann er varinn fyrir öllum sveiflum í verðlagi.
    Nauðsynlegt er að taka verðtryggingu lána í heild sinni til endurskoðunar, en þar til slíkt hefur verið gert er mikilvægt að ná fram þeirri lagabreytingu sem hér er lögð til sem lágmarksvernd fyrir lántakendur verðtryggðra lána. Með þessu móti er lánskostnaður raunverulega lækkaður í stað þess að einungis sé lengt í snörunni eins og gert er með frestun afborgana.