Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 151. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 187  —  151. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Jóhann Árnason og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneytinu, Einar Jónsson frá Íbúðalánasjóði, Jónu Björk Guðnadóttur og Gunnhildi Sveinsdóttir frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Stefán Árna Auðólfsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Gísla Tryggvason, talsmann neytenda, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands og Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu er lagt til vegna aðstæðna í efnahagsmálum nú um stundir að stimpilgjald af tilgreindum skjölum skuli falla niður tímabundið. Frumvarpið er hugsað til hagsbóta þeim sem þurfa að létta greiðslubyrði vegna vanskila á áður þinglýstum fasteignaveðskuldabréfum.
    Í tengslum við frumvarpið var á fundum nefndarinnar rætt um gildistíma bæði fram og aftur í tímann, stöðu þeirra sem ekki eru komnir í vanskil en eiga í fyrirsjáanlegum greiðsluerfiðleikum, stöðu þeirra sem kjósa að endurfjármagna sig hjá öðrum lánveitanda og áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs. Loks ræddi nefndin um tímabundið afnám þinglýsingargjalds vegna þeirra atvika sem frumvarpið tekur til.
    Nefndin fjallaði um upphaf gildistökunnar og stöðu þeirra einstaklinga sem nú þegar hafa staðið skil á gjaldi því sem frumvarpinu er ætlað að fella niður. Telur nefndin rökrétt að miða upphaf þessarar ívilnunar við gildistöku laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008. Nefndin leggur til að þeir sem að framan er getið fái endurgreitt. Nefndin tekur fram að um ívilnandi breytingu er að ræða sem ekki er í andstöðu við sjónarmið um afturvirkni laga.
    Fram kom að fram til þessa hefðu breytingar á fasteignaveðlánum einkum beinst að þeim sem væru tryggð í erlendri mynt, sbr. tilmæli ríkisstjórnarinnar þar að lútandi frá 22. október 2008. Áhrif gengislækkunar og verðbólgu væru enn ekki komin fram varðandi lán tryggð með vísitölu neysluverðs og að mörg heimili gætu lent í greiðsluerfiðleikum þegar líða tekur á næsta ár. Einnig megi búast við að atvinnuleysi færi vaxandi. Með hliðsjón af framansögðu leggur nefndin til að gildistími frumvarpsins verði lengdur til og með 31. desember 2009.
    Nefndin ræddi afmörkun á gildissviði frumvarpsins með hliðsjón af stöðu þeirra skuldara sem ekki eru komnir í vanskil en sjá fram á greiðsluerfiðleika. Af hálfu ráðuneytisins var á það bent að frumvarpinu væri einungis ætlað að taka til þeirra sem breyta skilmálum láns vegna vanskila. Í lánaframkvæmd Íbúðalánasjóðs tíðkast að gefa út ný bréf til að koma vanskilum í skil og er stimplun þeirra ætlað að vera gjaldfrjáls samkvæmt frumvarpinu. Einnig kom fram af hálfu ráðuneytisins að stimpilgjöld vegna skilmálabreytinga væru innheimt einvörðungu þegar breytingar fela í sér viðbætur við höfuðstól vegna vanskila eða felast í aukinni lántöku. Einfaldar skilmálabreytingar eins og lenging lánstímans og fjölgun gjalddaga væru ekki stimpilskyldar og ættu þeir sem sjá fram á greiðsluerfiðleika að geta breytt lánum sínum með þeim hætti án greiðslu stimpilgjalds.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um hvers konar breytingar á fasteignaveðskuldum njóti stimpilfrelsis og kom fram að almenna reglan væri sú að skilmálabreytingar væru undanþegnar stimpilgjaldi svo fremi sem þær leiði ekki til hækkunar á höfuðstól, sbr. 8. gr. stimpilgjaldslaga. Skilmálabreytingar eiga sér ávallt stað milli sömu aðila en skuldari kann að eiga þann kost að endurfjármagna lánið, ýmist hjá sama eða öðrum lánveitanda. Ræðst þá gjaldið af 26. gr. Þegar skuldari endurfjármagnar lánið hjá sama lánveitanda er samkvæmt túlkun ráðuneytisins tekið hálft stimpilgjald af þeirri fjárhæð sem varið er til uppgreiðslu eldra lánsins en fullt stimpilgjald af því sem umfram er. Ef endurfjármögnun á sér stað hjá öðrum lánveitanda ber hins vegar að greiða stimpilgjald af allri fjárhæðinni.
    Nefndin telur að rök standi til þess að frumvarpið verði ekki einskorðað við skilmálabreytingar og leggur til að hliðstæð regla gildi hvað endurfjármögnun varðar og skuli þá ekki greitt stimpilgjald af þeim hluta nýs fasteignaveðskuldabréfs sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra fasteignaveðskuldabréfs ásamt vanskilum. Reglan gildir hvort sem endurfjármagnað er hjá sama lánveitanda eða nýjum kröfuhafa.
    Nefndin ræddi áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs. Kom fram að í fjárlögum ársins hafi ekki verið gert ráð fyrir tekjum af stimpilgjaldi á grundvelli þeirra atvika sem frumvarpið varðar. Frumvarpið sé tilkomið vegna óvenjulegra aðstæðna í þjóðfélaginu.
    Eftir ábendingu fjármálaráðuneytisins leggur nefndin til að ekki skuli taka stimpilgjald af þeim kröfuhafaskiptum á fasteignaveðskuldabréfum sem til koma ef Íbúðalánasjóður nýtir þá heimild sem honum er veitt í V. kafla laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Ólíkt því sem gildir um endurfjármögnun þarf ekki að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu, sbr. 11. gr. laga nr. 125/2008, og er því eðlilegt að fella niður stimpilgjald af slíkum gjörningi með vísan til tilgangs og eðlis laga nr. 125/2008.
    Loks leggur nefndin til þá breytingu að þinglýsingargjald sem innheimt er á grundvelli laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, verði fellt niður hjá þeim sem njóta eiga stimpilfrelsis samkvæmt þessu frumvarpi. Breytingin er gerð til samræmis við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við álit þetta.

Alþingi, 17. nóv. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Bjarni Benediktsson.



Gunnar Svavarsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Katrín Jakobsdóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Helga Sigrún Harðardóttir.


Ólöf Nordal.