Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 162. máls.

Þskj. 190  —  162. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um merkingar skv. 1. og 2. mgr., þar á meðal um viðvörunartexta og viðvörunarmyndir, stærð þeirra og letur og annað sem máli kann að skipta, í samræmi við gildandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og ákvarðana sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekur á grundvelli þeirrar tilskipunar.
     b.      1. málsl. 4. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað 2. og 3. málsl. 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Þetta nær þó ekki til upplýsinga um tóbaksvöru sem miðlað er til þeirra sem selja tóbak í heildsölu eða smásölu enda sé þess gætt að upplýsingarnar séu ekki aðgengilegar neytendum eða öðrum. Sama á við um auglýsingar í ritum sem prentuð eru og gefin út utan Evrópska efnahagssvæðisins enda séu þau fyrst og fremst ætluð til dreifingar utan svæðisins og megintilgangur þeirra ekki að auglýsa tóbaksvörur. Þá er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl., að gefa út og birta skrá yfir skaðleg efni í tóbaksvörum.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Bannað er jafnframt að flytja inn, framleiða og selja leikföng eða sælgæti sem er eftirlíking af sígarettum, vindlum eða reykjarpípum.

3. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á tóbaksvarnalögum sem nauðsynlegar eru taldar til að mæta skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum meðal annars um tilkynningarskyldu samkvæmt tilskipun 98/34/EB og til að samræma löggjöf okkar öðrum tilskipunum Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins.

Um 1. gr.


    Í fyrri staflið ákvæðisins er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að kveða á um upptöku varúðarmerkinga á tóbaksumbúðir í formi litmynda í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins 2001/37/EB, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki, og ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 5. september 2003 um notkun ljósmynda í lit eða annars konar skýringarmynda í viðvörunarmerkingum á tóbakspökkum. Lagabreyting þessi er liður í áætlun heilbrigðisyfirvalda hér á landi um að taka upp viðvörunarmerkingar á tóbaksumbúðir í formi litmynda í þeim tilgangi að hvetja fólk enn frekar til að láta af reykingum með því að koma á framfæri skýrum skilaboðum um skaðsemi þeirra. Innan Evrópusambandsins hefur Belgía þegar tekið upp viðvörunarmerkingar í formi litmynda og hafa fleiri lönd innan sambandsins hafið undirbúning að upptöku slíkra merkinga.
    Í síðari staflið ákvæðisins er lagt til að 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna verði felldur brott en í ákvæðinu er mælt fyrir um að þeir sem framleiða, flytja inn eða selja tóbak megi ekki án samþykkis heilbrigðisráðherra gefa með orðum eða táknum sínar eigin upplýsingar á umbúðum vörunnar um heilsufarsleg áhrif af neyslu hennar. Samkvæmt tilskipun 98/34/EB var ákvæðið tilkynningarskylt til Eftirlitsstofnunar EFTA en þeirri skyldu var ekki sinnt á sínum tíma. Með frumvarpinu og tilkynningu þess til eftirlitsstofnunarinnar hefur þeirri skyldu nú verið fullnægt. Með lögum nr. 24/2003, um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, var nýjum málslið bætt við framangreint ákvæði svohljóðandi: Óheimilt er með öllu að hafa á umbúðum tóbaks texta, heiti, vörumerki, myndir og myndræn eða annars konar tákn sem gefa í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak. Var ákvæðið tekið upp í tóbaksvarnalög til að gæta samræmis við fyrirmæli 7. gr. tilskipunar 2001/37/EB. Við nánari athugun og til að gæta betra samræmis við framangreint ákvæði tilskipunarinnar þykir nú rétt að fella fyrri málslið ákvæðisins niður enda er tilgangur hans sá sami og fram kemur í síðari málsliðnum, þ.e. að koma í veg fyrir að framleiðendur gefi með orðum eða með öðrum merkingum á tóbaksumbúðum í skyn að varan sé ekki eins skaðleg og annað tóbak. Á það m.a. við orð eins og „léttur“ (e. „light“, sbr. einnig „ultra-light“), „mildur“ (e. „mild“), „lítil tjara“ (e. „low- tar“) og önnur slík sem óheimil hafa verið talin á grundvelli þessa ákvæðis. Ákvæðið svo breytt hefur því ekki efnislegar breytingar í för með sér.

Um 2. gr.


    Í fyrri staflið ákvæðisins er lagt til að orðalagi 2. og 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna verði breytt í þeim tilgangi að gæta betra samræmis við tilskipun Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins 2001/33/EB, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna er varða auglýsingar á tóbaksvörum og til að skýra betur þær undanþágur sem leyfðar eru frá auglýsingabanni tóbaksvarnalaga.
    Í síðari staflið ákvæðisins er lagt til að efnisákvæði 2. mgr. 8. gr. laganna verði tekinn upp sem nýr málsliður í 2. mgr. 7. gr. laganna. Í 7. gr. er kveðið á um bann við tóbaksauglýsingum en litið er á sölu leikfanga og sælgætis af þessu tagi sem óbeina tóbaksauglýsingu. Samkvæmt tilskipun 98/34/EB var ákvæðið tilkynningarskylt til Eftirlitsstofnunar EFTA en þeirri skyldu var ekki sinnt á sínum tíma. Með frumvarpinu og tilkynningu þess til eftirlitsstofnunarinnar hefur þeirri skyldu nú verið fullnægt.

Um 3. gr.


    Í samræmi við þá breytingu sem lögð er til í b-lið 2. gr. frumvarpsins er í ákvæðinu lagt til að 2. mgr. 8. gr. laganna verði felld brott.

Um 4. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu öðlast lögin, ef samþykkt verða, þegar gildi.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 6/2002,
um tóbaksvarnir, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði tilteknar breytingar á tóbaksvarnalögum sem nauðsynlegar eru taldar til að mæta skuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum, m.a. um tilkynningarskyldu samkvæmt tilskipun 98/34/EC og til að samræma löggjöf okkar að öðrum tilskipunum Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.