Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 271  —  177. mál.




Tillaga til rökstuddrar dagskrár



í málinu: Till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá Jóni Magnússyni.


    Með vísan til þess sem kemur fram í nefndaráliti 3. minni hluta utanríkismálanefndar er lagt til að Alþingi hafni því að svo stöddu að veita opna heimild til samningagerðar um ábyrgð Íslands vegna svokallaðra Icesave-reikninga í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu án þess að gerðar séu eftirfarandi kröfur:
     a.      Að áður en til samninga verður gengið aflétti Bretar beitingu hryðjuverkalaga gagnvart íslenskum aðilum.
     b.      Að lagt verði mat á eignatapið og Bretar bæti þann skaða sem beiting hryðjuverkalaga hefur haft á verðmæti eigna þeirra aðila sem hryðjuverkalögin bitnuðu á.
     c.      Að Bretar samþykki að þær bætur gangi til þess að greiða ábyrgðir af Icesave-reikningum og leggi fram ábyrgð breska ríkisins fyrir þeim fjárhæðum sem tapast hafa vegna beitingar hryðjuverkalaga.
    Í ljósi þessa samþykkir Alþingi að aðhafast ekki frekar í málinu að svo stöddu, fela ríkisstjórninni að látið verði reyna á framangreind skilyrði í samningum við Breta áður en gengið verður frá endanlegu samkomulagi við þá, að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.