Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 226. máls.

Þskj. 305  —  226. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt er þinglýsing skilmálabreytinga á verðtryggðum fasteignaveðlánum vegna greiðslujöfnunar samkvæmt lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, undanþegin þinglýsingargjaldi.

2. gr.

    Á eftir orðunum „Leyfi til“ í 20. tölul. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: leikskólakennara.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      15. tölul. orðast svo: Innheimtuleyfi, sbr. 15. gr. laga nr. 95/2008          55.000 kr.
     b.      18. tölul. orðast svo: Endurnýjun leyfis skv. 15. og 17. tölul.          5.500 kr.

4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fyrir afritun og afhendingu gagna með rafrænum hætti skal greiða 150 kr. fyrir hverja blaðsíðu, allt að tíu blaðsíðum, en 50 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram tíu.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ekki skuli greiða þinglýsingargjald vegna skilmálabreytinga á verðtryggðum fasteignaveðlánum sem koma til vegna greiðslujafnaðar samkvæmt lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.
    Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu leyfisbréfs til leikskólakennara líkt og gert er við útgáfu leyfisbréfs til grunnskóla- og framhaldsskólakennara.
    Í þriðja lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til gjaldtöku vegna útgáfu innheimtuleyfis á grundvelli innheimtulaga, nr. 95/2008.
    Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á 17. gr. í XI. kafla laganna um ljósrit, endurrit og eftirgerð hvað varðar gjaldtöku af gögnum sem afhent eru með rafrænum hætti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að þinglýsingargjald verði ekki innheimt af þinglýsingu á skilmálabreytingum á verðtryggðum fasteignaveðlánum sem gerðar eru vegna greiðslujöfnunar fasteignaveðlána samkvæmt lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, með síðari breytingum. Með breytingu á lögum nr. 63/1985, sem samþykkt var á alþingi 17. nóvember sl., var tekið fram að skilmálabreyting á lánasamningi vegna óskar lántakanda um greiðslujöfnuð skuli vera honum að kostnaðarlausu og er því þessi tillaga komin fram.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu leyfisbréfs til leikskólakennara líkt og gert er við útgáfu leyfisbréfs til grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Með lögum nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, var ákveðið að leikskólakennarar sem uppfylltu skilyrði laganna skyldu fá útgefið sérstakt leyfisbréf.

Um 3. gr.

    Í innheimtulögum, nr. 95/2008, er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið veiti þeim aðilum sem stunda innheimtu sérstakt leyfi til þess. Hér er lagt til að heimild verði veitt til gjaldtöku fyrir útgáfu innheimtuleyfis og að gjaldið verði 55.000 kr. Er þá tekið mið af gjaldi vegna leyfisbréfs fyrir verðbréfamiðlun og leyfi til vátryggingarmiðlunar. Jafnframt er lagt til að gjald fyrir endurnýjun leyfisins verði 5.500 kr.

Um 4. gr.

    Í 1. mgr. 17 gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að innheimta 150 kr. gjald fyrir hverja ljósritaða blaðsíðu. Engin lagaheimild er hins vegar nú fyrir gjaldtöku þegar sama efni er afhent rafrænt, en afhending gagna með þeim hætti hefur stóraukist með tilheyrandi kostnaði. Í greininni er því að finna tillögu um að fyrir afritun og afhendingu gagna með rafrænum hætti skuli greiða 150 kr. fyrir hverja blaðsíðu, allt að tíu blaðsíðum, en 50 kr. fyrir hverja blaðsíðu umfram tíu blaðsíður.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991,
um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Í fyrsta lagi er lagt til að ekki skuli greiða þinglýsingargjald vegna skilmálabreytinga á verðtryggðum fasteignaveðlánum sem koma til vegna greiðslujöfnunar samkvæmt lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána hefur ekki verið viðhöfð svo nokkru nemi og er því ekki um að ræða skerðingu á tekjum sem ríkissjóður hefur áður innheimt. Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu leyfisbréfs til leikskólakennara líkt og gert er við útgáfu leyfisbréfs til grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Í þriðja lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til gjaldtöku vegna útgáfu innheimtuleyfis á grundvelli innheimtulaga, nr. 95/2008. Reiknað er með að við gildistöku laganna sæki þau fyrirtæki sem reka leyfisskylda starfssemi í dag um innheimtuleyfi en þau eru u.þ.b. 10. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á 17. gr. í XI. kafla laganna um ljósrit, endurrit og eftirgerð um að gjaldtaka af gögnum sem afhent eru með rafrænum hætti verði heimil.
    Tekjur ríkissjóðs vegna nefndra breytinga eru óverulegar og verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.