Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 349  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2009.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Öllum má vera ljóst að íslenska þjóðin og efnahagskerfi hennar urðu fyrir miklu áfalli þegar þrír stærstu viðskiptabankar landsins féllu í byrjun október 2008. Fram hefur komið það álit að um sé að ræða mesta hrun bankakerfis í heimssögunni miðað við umfang efnahagskerfisins. Á innan við viku frá þessum atburðum hafði virði íslensku krónunnar fallið um meira en 70% og hlutabréfamarkaðurinn tapað yfir 80% af verðmæti sínu. Þessi áföll munu hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag til langrar framtíðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að þjóðarframleiðsla muni dragast saman um 9,6% á árinu 2009 og enn meira árið 2010. Tekjur ríkissjóðs munu dragast verulega saman á sama tíma og þrýstingur á aukin útgjöld til velferðarmála mun aukast vegna versnandi ástands í þjóðfélaginu.
    Almenningur á Íslandi stendur nú frammi fyrir auknu atvinnuleysi, minnkandi tekjum, hærri sköttum, auknum framfærslukostnaði, okurvöxtum og lækkandi eignavirði. Almennur kaupmáttur fellur á sama tíma og skuldir aukast, hvort sem þær eru verðtryggðar, óverðtryggðar eða í erlendri mynt. Misgengishópar myndast og þeir hafa litla og oft enga möguleika á að bjarga sér út úr ástandinu. Eins og nú horfir blasir við fjöldagjaldþrot hjá einstaklingum og fyrirtækjum með sársaukafullum afleiðingum fyrir allt atvinnulíf og kjör almennings í landinu. Þrátt fyrir að eitt mikilvægasta hlutverk yfirvalda sé að gæta hagsmuna þegnanna bárust engar viðvaranir frá yfirvöldum um hvað væri í aðsigi. Á undanförnum vikum hefur verið gert opinbert að stjórnvöld höfðu ítrekað verið vöruð við, bæði af innlendum og erlendum sérfræðingum, í hvað stefndi með bankana og fjármálalíf þjóðarinnar. Stjórnvöld völdu hins vegar að ana áfram í sjálfsblekkingu og láta sem ekkert væri. Á síðastliðnum vetri varaði stjórnarandstaðan á þingi ítrekað við því að óbreytt stjórnarstefna, erlend skuldasöfnun og taumlaus óráðsía innan fjármálakerfisins gæti leitt til mikils ófarnaðar fyrir efnahagslíf landsins ef ekki væri þegar í stað brugðist við.
    Eftir að bankahrunið skall á og meginhluti fjármálakerfis landsins hrundi á einni viku í byrjun október stóðu stjórnvöld sem lömuð og margt af því sem gert var orkar tvímælis. Þá hefur upplýsingagjöf stjórnvalda algjörlega verið í molum. Minni hlutinn gagnrýnir leynimakk stjórnvalda hér heima og erlendis á meðan bæði þingi og þjóð var haldið utan við umfjöllun og ákvarðanatökur í málum sem varða gífurlegt tap og risavaxnar skuldbindingar þjóðarinnar til næstu áratuga. Leiðbeiningar til almennings hafa verið í algjöru lágmarki.
    Minni hlutinn krefst þess að ríkisstjórnin leggi fram skýra stefnu um hvernig á að vinna þjóðina út úr þeim mikla vanda sem hún er í og blasir við. Minni hlutinn átelur ríkisstjórnina og önnur stjórnvöld fyrir þeirra þátt í aðdraganda hruns bankanna, sem m.a. felst í andvaraleysi, aðgerðaleysi og um margt röngum viðbrögðum. Að því verður vikið nánar síðar. Fram undan eru á næstu árum risavaxin og erfið verkefni sem felast í því að ná efnahagskerfinu og ríkissjóði aftur á réttan kjöl. Greiðslubyrði þjóðarinnar, lántökur, vaxtabyrði, lánstími og afborgunarskilmálar eru enn þá óþekktar stærðir. Í slíkri óvissu er ógjörningur að sjá til lands um afkomu ríkisins og álögur þær sem þjóðinni er ætlað að takast á við næstu árin.

Sofið á verðinum.
    Allt frá því um mitt ár 2007 hafa komið fram viðvaranir um að í vændum væru miklir efnahagslegir erfiðleikar vegna þróunar mála á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Fjölmargir aðilar, innlendir og erlendir, hafa á þeim tíma sem liðinn er komið fram með rökstuddar viðvaranir til ríkisstjórnarinnar án viðbragða af hennar hálfu. Allt árið 2008, í aðdraganda hruns bankanna, fór þunginn í þessari umræðu stigvaxandi eftir því sem á leið. Ríkisstjórnin sýndi engin merki um viðbrögð og er engu líkara en hún hafi ekki gert sér grein fyrir þróun mála eða ekki viljað gera það. Stjórnarandstaðan á Alþingi hóf umræðu um þessi mál hvað eftir annað á vettvangi þingsins, lagði fram rökstuddar viðvaranir, krafði ríkisstjórnina um svör og hvatti til aðgerða. Engin viðbrögð komu fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, því var gjarnan svarað til að allt væri í góðu lagi og engar ástæður til að hafa áhyggjur af þróun mála. Í mars 2008 sagði forsætisráðherra í ræðu á Alþingi að botninum væri náð og fram undan væru bjartir tímar í efnahagsmálum. Sams konar ummæli féllu hjá fleiri fulltrúum stjórnarmeirihlutans á Alþingi á vordögum 2008. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi voru í raun fjarri raunveruleikanum í þessum efnum eins og fjölmörg fleiri dæmi úr umræðu síðustu mánaða sýna.
    Fram hefur komið að forustumönnum ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, var gerð grein fyrir alvarleika málsins á fundi með aðalseðlabankastjóra í febrúar sl. Eftir að þessar upplýsingar komu fram upplýstu forustumennirnir að einir sex fundir hefðu verið haldnir um málin, sá fyrsti 6. febrúar með aðalseðlabankastjóra. Það undarlega er að öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, t.d. iðnaðarráðherra, sem var staðgengill utanríkisráðherra í veikindum hennar, og viðskiptaráðherra var, að þeirra sögn, ekki kunnugt um þessa fundi. Þeir hvorki sátu þessa fundi né var sagt frá þeim. Rétt er einnig að taka fram að formönnum stjórnarandstöðunnar, sem sátu marga svokallaða samráðsfundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar frá byrjun október sl., var aldrei skýrt frá þessum fundum eða innihaldi þeirra.
    Á samráðsfundi formanna stjórnarandstöðuflokkanna með forsætisráðherra og utanríkisráðherra í maí sl. um sérstaka lántökuheimild til ríkisstjórnarinnar sem Alþingi veitti upp á 500 milljarða kr. yfirdráttarheimild hjá seðlabönkunum á Norðurlöndum voru heldur engar upplýsingar veittar um áðurnefnda fundi eða samtöl.
    Eitt af því sem fram hefur komið er að aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands hafi í júní sl. sagt við ráðherra ríkisstjórnarinnar að engar líkur væru á að íslenska bankakerfið gæti staðið af sér það ástand sem fram undan væri. Enginn ráðherra kannast við að hafa fengið slíkar viðvaranir, þar stendur orð gegn orði og það er krafa minni hlutans að sannleikurinn í þessu máli komi fram. Þetta er lýsandi dæmi um samskipti ráðamanna, ástandið og vinnubrögð stjórnvalda.
    Minni hlutinn telur að viðskiptaráðherra hafi sofið á verðinum hvað varðar eftirlitsskyldu sína. Hann hefur sjálfur lýst því að hafa ekki átt bein samskipti við yfirstjórn Seðlabanka Íslands í tæpt ár, frá því í nóvember 2007. Svo virðist sem viðskiptaráðherra hafi verið haldið utan við fundi ráðherra ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þegar fjallað var um málefni viðskiptabankanna. Skýrasta dæmið um það er aðdragandinn að þeirri ákvörðun að ríkissjóður eignaðist stóran hlut í Glitni undir lok september sl. Minni hlutinn krefst þess að fram komi skýringar á þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.
    Fullyrða má að einhver dýrasti misskilningur sem um getur á síðari tímum hafi átt sér stað í samskiptum viðskiptaráðherra annars vegar og fjármálaráðherra hins vegar við fjármálaráðherra Bretlands. Þessir tveir ráðherrar áttu hvor sitt samtalið við breska ráðherrann um málefni Landsbankans. Fjármálaráðherra taldi sig vera að ræða um lántöku Landsbanka Íslands hf. hjá ríkissjóði en breski fjármálaráðherrann taldi að ríkisstjórn Íslands væri að hafna boði bresku ríkisstjórnarinnar um að gegn tiltekinni greiðslu mundu þarlend stjórnvöld taka allar skuldbindingar Icesave-reikninganna á breska innlánstryggingakerfið og þar með hlífa Íslandi við þeim gífurlega kostnaði sem var fyrirséður og stjórnvöldum beggja landa fullljós. Ljóst virðist að fjármálaráðherra hafi ekki verið skýrt frá fundarefni viðskiptaráðherra Íslands með breska fjármálaráðherranum í lok ágúst sl. þar sem umfjöllunarefnin voru Icesave-reikningar Landsbanka Íslands í Bretlandi. Furðulegt má telja að ekki skuli vera til minnisblöð um þennan fund, sbr. svör viðskiptaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um það mál.
    Misskilningurinn lá í því að verið var að fjalla um tvö mismunandi málefni bankans án þess að aðilar málsins gerðu sér grein fyrir því á þeim tíma. Afleiðingin varð beiting svonefndra hryðjuverkalaga á Landsbankann í Bretlandi og eignir íslenskra fyrirtækja þar í landi, sem leiddi til þess að íslenska þjóðin mun að öllum líkindum sitja uppi með hundraða milljarða króna skuldbindingar til framtíðar. Þetta er lýsandi dæmi um samskiptaleysið og vinnubrögðin hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar eins og það blasir við minni hlutanum.

Fall viðskiptabankanna þriggja.
    Með samþykkt svokallaðra neyðarlaga 6. október sl. var staðfest að íslenska ríkið yfirtæki viðskiptabankana þrjá, Landsbanka Íslands hf., Glitni hf. og Kaupþing banka hf. Næstu dagana þar á eftir voru skipaðar svonefndar skilanefndir sem tóku yfir alla starfsemi bankanna og á sama tíma stofnaði íslenska ríkið þrjá innlenda viðskiptabanka á grunni þeirra gömlu. Atburðarásin og vinnubrögðin sem viðhöfð voru í kjölfarið eru gagnrýnisverð. Þingmenn fengu sínar upplýsingar meira og minna af blaðamannafundum ráðherra og úr umfjöllun í erlendum og stundum innlendum fjölmiðlum. Þessi vinnubrögð eru óásættanleg og það að Alþingi hafi verið haldið frá umfjöllun um málið er í hæsta máta andlýðræðislegt.
    Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands gengu frá samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðgerðaáætlun í efnahagsmálum og lánveitingar sjóðsins til að efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Í aðdraganda þess var farið með málið sem hernaðarleyndarmál. Alþingi fékk engar upplýsingar um málið þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um bæði á Alþingi og í þingnefndum. Á sama tíma var byrjað að vinna eftir áætluninni, fyrst með mikilli hækkun stýrivaxta úr 12 í 18%. Sú aðgerð var reyndar harðlega gagnrýnd og stjórnvöld og einstakir ráðherrar vísuðu hver á annan í ábyrgð á þeim gjörningi þar til Seðlabankinn neyddist til að gefa út yfirlýsingu um að þessi stýrivaxtahækkun væri að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samkvæmt samkomulagi sem enn hefði ekki verið birt. Þrátt fyrir alla leyndina gagnvart Alþingi komst eitt dagblaðanna að lokum yfir samkomulagið við sjóðinn og áætlunina sem íslenskum stjórnvöldum væri gert að fylgja og birti hana. Það voru fyrstu upplýsingar sem alþingismenn fengu um samkomulag íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessi vinnubrögð eru afar gagnrýnisverð og lýsa lítilsvirðingu af hálfu framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Stjórnarmeirihlutinn ber alla ábyrgð á því. Þegar Alþingi fjallaði loks um samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fengust takmarkaðar grunnupplýsingar um málið. Á fundum fjárlaganefndar fengust engar upplýsingar eða gögn um forsendur, svo sem áætlanir o.fl. Minni hlutinn vísar í gagnrýni sína á þessi vinnubrögð í nefndaráliti sínu um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu Alþingis á samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þá er enn fremur gagnrýnt að ríkisstjórnin skuli í upphafi hafa bundið sig við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýtrustu skilmála hans í stað þess að leita annarra valkosta í stöðunni. Ýmsir sérfræðingar, bæði innan lands og utan, hafa bent á að til væru aðrar leiðir sem hefði mátt skoða sem lausn á þeim vanda sem upp var kominn.

Staðan óljós.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fjallað um brúttólánsþörf ríkissjóðs vegna skuldbindinga innlánsreikninga Landsbankans í Hollandi og Bretlandi. Sjóðurinn metur það svo að um sé að ræða verulegar skuldbindingar sem hlaupi á mörgum milljörðum króna. Niðurstaðan fer eftir því hvert virði eigna bankans verður til að mæta innlánum. Ljóst er þó að greiðsluábyrgðin fellur strax til en andvirði eignasölunnar innleysist væntanlega á nokkrum árum. Í því sambandi þarf að hafa í huga erfitt ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem gefur ekki góðar vonir um að skuldbindingar ríkissjóðs verði í lágmarki á næstunni. Það er ljóst að meginástæða þess að ríkissjóður mun þurfa að bera þungar byrðar af þessum málum er fjármögnunarstefna Landsbankans sem Fjármálaeftirlitið lét viðgangast án þess að vara á nokkurn hátt opinberlega við þeim afleiðingum sem hún kynni að hafa. Því til viðbótar er ekki ljóst af viðtölum við fulltrúa stjórnvalda hvort þeim var gerð grein fyrir áhættunni fyrr en í óefni var komið. Þetta er enn eitt dæmið um vinnubrögðin og andvaraleysið hjá ríkisstjórninni. Minni hlutinn gagnrýnir ógagnsæi í vinnubrögðum og undirlægjuhátt íslenskra stjórnvalda gagnvart Bretum og öðrum Evrópuþjóðum. Stjórnvöld létu kúga sig í þessu máli þvert á gefnar yfirlýsingar.
    Það er ljóst að tap lífeyrissjóða er verulegt, a.m.k. til skemmri tíma, og lýsir minni hlutinn miklum áhyggjum af því að stór hluti þess verði varanlegur. Leiða má líkur að því að það sem af er árinu 2008 kunni tap sjóðanna til skemmri tíma að nema allt að 200–300 milljörðum kr., eða sem nemur nálægt 15–20% af hreinni eign þeirra í árslok 2007. Þess ber þó að geta að viðsnúningur á mörkuðum getur minnkað þetta óinnleysta tap verulega, en engu síður veldur þróunin minni hlutanum verulegum áhyggjum og telur hann að þessi þróun stafi að miklu leyti af andvaraleysi stjórnvalda. Staða lífeyrissjóðanna getur valdið því að þeim reynist erfiðara að koma til móts við þann mikla lánsfjárvanda sem getur myndast hér innan lands.
    Að venju var frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 lagt fram á Alþingi í upphafi þings í byrjun október og eftir fyrstu umræðu um frumvarpið fór það til umfjöllunar í fjárlaganefnd, í samræmi við þingsköp Alþingis. Þar með hafði framkvæmdarvaldið skilað frumvarpinu til umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis. Nánast í sama mund féllu viðskiptabankarnir og þá hófst sú atburðarás sem allir þekkja. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega meðferð málsins eftir að frumvarpið var komið til umfjöllunar á vettvangi Alþingis. Margar vikur liðu án þess að fjárlaganefndin fjallaði að nokkru marki um frumvarpið. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin tóku málið í sínar hendur með stuðningi stjórnarmeirihlutans. Þar var unnið að breytingum á frumvarpinu og það nánast endursamið án þess að fjárlaganefnd í heild, hinn lögformlegi vettvangur, kæmi á nokkurn hátt að verkinu. Það var ekki fyrr en fulltrúar fjármálaráðuneytisins mættu á fund fjárlaganefndar fimmtudaginn 11. desember að fjárlaganefndinni voru kynntar tillögur ríkisstjórnarinnar um stórfelldan niðurskurð á gjaldahlið frumvarpsins. Enginn tími var gefinn til umræðna um frumvarpið í fjárlaganefnd, hvað þá að tími hafi verið gefinn til að leggja mat á áhrif einstakra tillagna, t.d. með því að ræða við aðila sem viðkomandi tillögur varða. Þetta vinnulag er lýsandi fyrir ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann. Alþingi er haldið markvisst frá málum meðan framkvæmdarvaldið kokkar niðurstöður bak við luktar dyr.
    Minni hlutinn gagnrýnir þessi vinnubrögð og lýsir fullri ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutanum á Alþingi.
    Minni hlutinn vísar til yfirlýsingar formanns og varaformanns fjárlaganefndar frá síðasta ári um bætt vinnulag við fjárlagagerðina sem vissulega hefur ekki gengið eftir. Það fólst í því að fjárlaganefndin yrði mun virkari við gerð fjárlaga en áður hafði verið. Hins vegar telur minni hlutinn að mikil ástæða hefði verið til þess að nefndin fylgdist betur með ástandi mála og drægi fram þá þætti sem máli skipta við fjárlagagerðina. Það var ekki gert.
    Meiri hluti nefndarinnar ákvað að afgreiða frumvarpið úr nefndinni 12. desember eftir að nefndin hafði haft breytingartillögur ríkisstjórnarinnar til umfjöllunar í rúman sólarhring og haldið þrjá stutta fundi um málið. Minni hlutinn lagði fram ýmsar spurningar um efni frumvarpsins. Svörin sem bárust voru vægast sagt fátækleg. Í fylgiskjölum með þessu nefndaráliti koma fram spurningar sem minni hlutinn lagði skriflega fram á fundi fjárlaganefndar og svör fjármálaráðuneytisins við þeim. Enn fremur er sem fylgiskjal bréf minni hlutans til Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins um tilgreindar grundvallarforsendur fjárlagafrumvarpsins og væntir minni hlutinn svara við því bréfi áður en fjárlaganefnd lýkur umfjöllun sinni um fjárlagafrumvarpið fyrir 3. umræðu.
    Af þeim svörum sem minni hlutinn fékk við spurningum sínum má ráða að ekki liggja fyrir nauðsynlegar forsendur fyrir frumvarpinu eins og það er nú. Ekki er búið að endurmeta þjóðhagsspá sem er einn mikilvægasti grunnur fjárlagagerðarinnar. Ekki liggja fyrir greiðsluáætlanir, engin rekstraráætlun, engin stefnumótun til framtíðar, ekki er búið að meta hvert hagkvæmasta skuldahlutfall ríkissjóðs er, lánakjör liggja ekki fyrir, engin áætlun um mögulega endurfjármögnun lána eða kjör vegna þess. Ekki liggur fyrir áætlun um það hvernig þjóðarbúið vinni sig út úr stöðunni á tveimur til þremur árum, eins og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kveður á um. Í rauninni skilar ríkisstjórnin auðu varðandi margar grunnforsendur frumvarpsins. Minni hlutinn lagðist gegn því að fjárlaganefnd afgreiddi frá sér frumvarpið til 2. umræðu vegna þess að þar sem mikilvægar upplýsingar vantar hafi nefndin ekki haft þær forsendur sem þarf til þess að fjalla um frumvarpið eða breytingar á því. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega þessi vinnubrögð og krefst þess að frekari upplýsingar og gögn liggi fyrir þegar fjárlaganefnd fjallar um frumvarpið fyrir 3. umræðu.
    Minni hlutinn telur algjörlega ábyrgðarlaust að afgreiða fjárlagafrumvarpið eftir 3. umræðu sem lög frá Alþingi fyrr en grunnupplýsingar um áætlun um heildarskuldir, lánakjör, afborganir, lánstíma, fjárlagahallann og fjármögnun hans liggur fyrir. Stjórnarandstaðan leggst gegn því að fjárlög verði afgreidd fyrr en betri upplýsingar liggja fyrir, þó að það dragist til síðasta dags ársins.

Forsendur og lykiltölur frumvarpsins vantar.
    Í bréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 11. desember 2008, sem fylgdi breytingartillögum ríkisstjórnarinnar við frumvarpið, kemur fram að eftir þá atburði sem orðið hafa í efnahagsmálum frá því að frumvarpið var lagt fram hafi verið horfur á því að halli ríkissjóðs gæti nálgast 215 milljarða kr. árið 2009. Til að koma í veg fyrir að hallinn væri svo mikill væri ráðist í þær aðgerðir sem felast í breytingartillögunum. Jafnframt kemur fram að í þeirri efnahagsáætlun sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri gert ráð fyrir að hallinn yrði ekki meiri en sem nemur 165–170 milljörðum kr. á greiðslugrunni. Því fælu breytingartillögurnar í sér aðgerðir upp á 45 milljarða kr. til að mæta þessu. Fram kemur einnig að í tillögum ríkisstjórnarinnar væri gengið út frá því grundvallarviðmiði að samdráttur í útgjöldum komi minna niður á velferðarkerfinu, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og löggæslu, en þess í stað væri meiri áhersla lögð á hagræðingu í rekstri ráðuneyta og stjórnsýslustofnana, auk þess sem dregið væri úr vissum tilfærsluframlögum og fallið yrði frá nokkrum hluta framkvæmda sem áformaðar voru í fjárlagafrumvarpinu.
    Minni hlutinn bendir á að enn vantar allar upplýsingar um áætlaða stöðu einstakra stofnana og verkefna í árslok 2008. Þessar upplýsingar hafa ekki borist þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um. Frumvarp til fjáraukalaga hafði ekki verið birt þegar fjárlaganefnd Alþingis afgreiddi frumvarp til fjárlaga 2009 til 2. umræðu. Því er ógjörningur að gera sér grein fyrir niðurstöðu tekna og gjalda ársins 2008 og hefðu þær upplýsingar átt að liggja fyrir nefndinni mun fyrr. Minni hlutinn gagnrýnir þessi vinnubrögð harðlega og telur þetta enn eitt dæmi þess að ekki hafi verið forsvaranlegt að afgreiða frumvarpið með þeim hætti sem gert var.
    Í tillögum ríkisstjórnarinnar er lagt til að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um 1 prósentustig. Með því áætlar ríkisstjórnin að tekjur ríkissjóðs hækki um 7 milljarða kr. frá því sem áður var áformað. Þá er lagt til að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækki um 0,5%. Engu síður er áætlað að álagðar tekjur lækki um tæplega 55 milljarða kr. frá því sem tekjuáætlun í frumvarpinu gerir ráð fyrir. Helstu liðir sem lækka eru virðisaukaskattur, 17 milljarðar kr., 12 milljarðar kr. í vaxtatekjum, 10 milljarðar kr. í fjármagnstekjuskatti og 5 milljarðar kr. vegna tekjuskatts lögaðila.
    Þrátt fyrir þær breytingartillögur sem ríkisstjórnin lagði fram, og meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert að sínum, vantar enn mikið upp á að fyrir liggi heildarmynd af frumvarpinu. Enn hafa ekki komið fram tillögur varðandi vissa útgjaldaliði. Um er að ræða vaxtagjöld af auknum skuldum sem ríkissjóður þarf að taka á sig. Einnig vantar endurmat á verðlags- og gengisforsendum, en horfur eru á að þau áhrif verði mjög íþyngjandi. Þá er í fyrirliggjandi breytingartillögum ekki gert ráð fyrir breytingum á öðrum liðum sjóðstreymis eða á 5. gr., lánsfjárgrein frumvarpsins, né á 6. gr., heimildagreininni. Breytingartillögur er varða þessa liði verða lagðar fram fyrir 3. umræðu.
    Minni hlutinn hefur leitast við að leggja mjög lauslegt mat á lánsfjárþörf ríkissjóðs, en tekur fram að allar grunnforsendur vantar til að matið geti talist nákvæmt og auk þess er ekki tekið tillit til krafna ríkisins. Í lok október sl. námu skuldir ríkissjóðs 564,3 milljörðum kr. Ekki liggur fyrir hver afkoma ríkissjóðs verður á árinu 2008, en fram komnar upplýsingar benda til halla. Í upphafi árs 2009 nema skuldir a.m.k. 560 milljörðum kr. Halli ríkissjóðs samanlagt til ársloka 2011 gæti hugsanlega numið 500 milljörðum kr., eða tæplega útgjöldum fjárlaga eins árs, verði ekki gripið til róttækra aðgerða í ríkisfjármálum. Þar af má gera ráð fyrir að halli á fjárlögum 2009 geti numið allt að 200 milljörðum kr. Þennan hallarekstur þarf að fjármagna innan lands þar sem aðgengi að fjármagni erlendis er takmarkað eða jafnvel ekki fyrir hendi.
    Endurfjármögnunarþörf nýju ríkisbankanna nam um 385 milljörðum kr. Ætla má að endurfjármögnunarþörf Seðlabanka Íslands muni nema um 150 milljörðum kr. og fjármögnun vegna ábyrgða Icesave í Bretlandi og Hollandi nemi allt að 660 milljörðum kr. Þá er ekki tekið tillit til hugsanlegrar fjármögnunar innlánsreikninga bankanna í öðrum löndum. Fjármögnunarþörf ríkisins til ársloka 2011 mun samkvæmt þessu lauslega mati nema a.m.k. 1.700 milljörðum kr., sé gengið út frá fyrrgreindum forsendum. Enn fremur má benda á að í ljós hefur komið að hollensk stjórnvöld hafa undirritað viljayfirlýsingu um að fjármagna Icesave- innlán þar í landi fyrir íslensk stjórnvöld en ekki liggur fyrir lánssamningur.
    Miðað við þessar forsendur og að kostnaður af fjármögnun ríkisskuldabréfa nemi 13–17% á 5–10 ára skuldabréfum má gera ráð fyrir að vaxtagjöld geti numið á þriðja hundrað milljarða kr. til ársloka 2011. Hjaðni verðbólga eins og áætlanir gera ráð fyrir mun draga úr þessum vaxtakostnaði. Minni hlutinn vekur athygli á því að ef bankarnir geta ekki fjármagnað vandamál sem upp eru komin í íslensku atvinnulífi mun koma til kasta ríkissjóðs. Fjárþörf ríkissjóðs kann því að verða önnur en hér kemur fram. Óvissa ríkir um hvenær eignir bankanna erlendis verða innleystar, hvaða verðmæti er um að ræða og hvaða áhrif þær koma til með að hafa á skuldbindingar ríkissjóðs.
    Endanleg tillaga að tekjuáætlun frumvarpsins liggur ekki fyrir og því ógerningur að gera tillögur um útgjöld eins og er. Miðað við þær tillögur og þau gögn sem fyrir liggja er það álit minni hlutans að tekjuáætlun sé ofmetin. Í því felst fyrst og fremst að minni hlutinn telur að tekjuskattar lögaðila og einstaklinga séu ofmetnir. Viðskiptabankarnir þrír sem féllu í byrjun október skiluðu rúmlega 13 milljarða kr. tekjum í ríkissjóð á árinu 2008. Auk þess hefur orðið mikill samdráttur í atvinnustarfsemi í landinu sem mun skila minni tekjum til ríkissjóðs. Minni hlutinn telur að áhrifin af þessum miklu breytingum séu vanmetin í tekjuáætlun og að tekjur ríkissjóðs verði minni en gert er ráð fyrir.
    Samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans verður tekjuskattur einstaklinga hækkaður um eitt prósentustig um næstu áramót. Þannig á að velta byrðunum yfir á vinnandi fólk í landinu. Hins vegar vekur minni hlutinn athygli á því að ekki er gert ráð fyrir svonefndum hátekjuskatti, sem minni hlutinn telur að gæti verið leið til að jafna byrðar á landsmenn. Þá eru engar breytingar lagðar til á tekjuskatti lögaðila né á fjármagnstekjuskatti. Minni hlutinn vekur athygli á því að í þessum efnum kemur skýrt fram stefna Sjálfstæðisflokksins sem Samfylkingin styður af heilum hug.
    Minni hlutinn gagnrýnir stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í ríkisrekstrinum. Þetta stefnuleysi kristallast í breytingartillögunum. Í breytingartillögum meiri hlutans kemur fram að fjárheimildir ráðuneyta og stjórnsýslustofnana eru skornar niður almennt um 5%. Fjárheimildir stofnana sem vinna að velferðar- og menntamálum, auk lögreglunnar, eru einnig skornar niður. Minni hlutinn gagnrýnir þessa aðferðafræði og bendir á að stofnanir eru mjög misjafnlega staddar fjárhagslega. Margar stofnanir, sérstaklega á sviði heilbrigðsmála, hafa átt við mikinn rekstrarvanda að glíma. Ekkert tillit er tekið til þess. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í áliti minni hluta heilbrigðisnefndar glíma heilbrigðisstofnanir, að Landspítala undanskildum, við 2,2 milljarða kr. áætlaðan halla á árinu 2008. Þar af er áætlaður halli öldrunarstofnana 1 milljarður kr. Jafnframt er áætlað að hallinn á rekstri Landspítala verði nálægt 2 milljörðum kr. í árslok 2008 en rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 450 milljónir kr. árið 2007. Eins og fram hefur komið hefur minni hlutinn ekki fengið í hendur frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008 og hefur því ekki upplýsingar um hver vandinn nákvæmlega er og hvort eða hvernig tekið verður á rekstrarstöðu þessara stofnana.
    Þá bendir minni hlutinn á að í breytingartillögunum er gert ráð fyrir að stórauka byrðar á sjúklinga og aðra sem mest eru háðir velferðarþjónustu. Það birtist m.a. í hækkun á komugjöldum hjá heilbrigðisstofnunum og aukinni greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum.
    Á útgjaldahlið breytingartillagnanna kemur fram niðurskurður fjárheimilda frá því í frumvarpinu á nánast alla fjárlagaliði. Verið er að draga úr alls konar starfsemi og þjónustu á öllum sviðum. Gera má ráð fyrir að aðgerðirnar valdi auknu atvinnuleysi meðal fólks sem starfar á vegum ríkisins eða er í störfum sem fjármögnuð eru af fjárheimildum fjárlaga. Verið er að skera niður ýmsar fjárheimildir á sviði rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar á sama tíma og aldrei hefur verið jafnmikil þörf fyrir þróttmikið starf á þessum sviðum. Niðurskurður ýmissa fjárheimilda vegna starfsemi á þeim svæðum landsins þar sem samdráttur og fólksfækkun hefur verið síðustu ár mun væntanlega ýta enn frekar undir þá þróun í stað þess að veita viðspyrnu.
    Fjárhagur sveitarfélaganna er skilinn eftir í uppnámi þar sem almenn framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga munu skerðast mjög verulega og ekki er gert ráð fyrir aukaframlagi í sjóðinn, en sveitarfélögin hafa lagt þunga áherslu á slíkt framlag til að geta staðið við lögbundna þjónustu sína.
    Við núverandi aðstæður blasir við að atvinnuleysi mun aukast verulega í landinu og lýsir minni hlutinn yfir áhyggjum sínum yfir því að Atvinnuleysistryggingasjóður ráði ekki að óbreyttu við það ástand sem fram undan er.

Framtíðin óljós.
    Við blasir að áhrifin af falli viðskiptabankanna, aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnar og stjórnvalda verða þau að mörg erfið ár eru fram undan í ríkisfjármálum, sem mun hafa mikil áhrif á þjóðfélagið allt í framtíðinni. Ef miðað er við samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn má gera ráð fyrir sársaukafullum niðurskurði ríkisútgjalda á næstu árum, sérstaklega árið 2010. Við blasir mikið tekjufall hjá ríkissjóði og því miður eru ekki horfur á verulegri tekjuaukningu á næstunni, m.a. vegna þess að útflutningstekjur munu eitthvað dragast saman í nánustu framtíð vegna lækkandi afurðaverðs á erlendum mörkuðum. Það á t.d. við um heimsmarkaðsverð á áli og verð á verðmætustu sjávarafurðunum.
    Minni hlutinn leggur áherslu á að rammi ríkisfjármála verði styrktur með fjögurra ára áætlunum. Jafnframt er bent á að bæta þarf afkomu ríkissjóðs verulega hvert ár næstu 15 árin miðað við tiltekið raunvaxtastig til að svokölluð sjálfbærni skulda nái fram að ganga, eins og kveðið er á um í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Minni hlutinn leggur áherslu á að sveitarfélögin eru misvel sett til að takast á við efnahagsástandið og það mun reyna verulega á fjármál sveitarfélaganna næstu árin.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi atvinnufyrirtækja er lögð til lenging lána, niðurfærsla skulda, breyting lána í eigið fé o.fl. Margt bendir til að hratt geti gengið á eigið fé nýju ríkisbankanna ef mikið verður um slíkar aðgerðir. Minni hlutinn lýsir áhyggjum af þeim takmörkunum sem felast í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að hið opinbera muni ekki taka á sig frekari skuldbindingar vegna bankakreppunnar. Ef þetta ákvæði er túlkað þröngt hefur ríkissjóður ekki tækifæri til að veita meira eigið fé í bankana og ekki heldur veita víkjandi lán. Möguleikar til að styðja við atvinnulífið og fjármál einstaklinga geta því takmarkast umfram það sem kann að reynast þjóðhagslega hagkvæmt ef tilteknar aðstæður myndast. Í þessu sambandi er minnt á að bankarnir innleystu verulegt tap þegar þeir keyptu skuldabréf peningamarkaðssjóða. Jafnframt má gera ráð fyrir að eigið fé Seðlabanka Íslands reynist neikvætt í ársuppgjöri fyrir árið 2008. Þá liggur ekki fyrir með hvaða hætti litið er til Íbúðalánasjóðs og fjárhagsgetu hans í þessu samhengi.
    Minni hlutinn gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki komið fram með trúverðugar áætlanir. Ýmsar ráðstafanir hafa ekki verið traustvekjandi, svo sem það sem lýtur að málefnum Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitsins og bankanna, bæði gömlu og nýju. Fjármálaeftirlitið sinnir ekki sem skyldi upplýsingamiðlun til almennings, svo sem hvað varðar þær leikreglur sem unnið er eftir í málefnum bankanna. Slíkt er beinlínis til þess fallið að draga úr trúverðugleika og er til skaða fyrir alla aðila. Minni hlutinn telur að stórefla þurfi allt eftirlit með fjármálastofnunum og breyta fyrirkomulagi þess. Meðal annars hefur komið í ljós að álagspróf Fjármálaeftirlitsins þjónuðu ekki hlutverki sínu heldur gáfu stjórnvöldum og þegnum landsins misvísandi skilaboð um raunverulega stöðu bankanna og hvað væri í vændum.
    Minni hlutinn krefst þess að stjórnarmeirihlutinn sjái til þess að Alþingi hafi með höndum það hlutverk sem því er ætlað samkvæmt lögum og samkvæmt stjórnarskrá í stað þess að örfáir einstaklingar úr röðum ráðherra ríkisstjórnarinnar haldi öllum málum í sínum höndum. Minni hlutinn leggur áherslu á að við þær aðstæður sem nú eru komnar upp sé eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmd fjárlaga enn mikilvægara en áður. Því er þörf á að fjárlaganefnd sinni því hlutverki af festu.

Lokaorð.
    Breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar og fjárlagafrumvarpið sjálft er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. Staða efnahagsmála og ríkisfjármála og horfur þeirra til framtíðar er að mestu leyti á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið mark á eða brugðist við ítrekuðum viðvörunum um hvert hefur stefnt og ekkert mark tekið á ýmsum merkjum um þróun mála síðustu átján mánuði. Framganga ríkisstjórnarinnar er og verður þjóðinni dýrkeypt, ábyrgð ríkisstjórnarinnar er mikil. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009, eins og það liggur fyrir við 2. umræðu á Alþingi, styðst ekki við grundvallarforsendur og áætlanir. Þrátt fyrir óskir þar um hafa slík gögn ekki verið lögð fyrir fjárlaganefnd. Minni hluti fjárlaganefndar átelur vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans við vinnslu frumvarpsins og telur að Alþingi skorti enn mikilvæg gögn til þess að geta fjallað um frumvarpið og lagt mat á breytingartillögur meiri hlutans.

Alþingi, 14. des. 2008.



Jón Bjarnason,


frsm.


Guðjón A. Kristjánsson.


Magnús Stefánsson.




Fylgiskjal I.


Spurningar minni hluta fjárlaganefndar sem beint var til fjármálaráðuneytisins
og svör fjármálaráðuneytisins við þeim.


     1.      Hefur verið gerð ný þjóðhagsspá? Óskað er eftir að hún verði lögð fram.
         Svar: Sú endurskoðun á þjóðhagsspá sem miðað er við á þessu stigi er í öllum helstu forsendum eins og áætlunin sem unnin var með IMF og birt hefur verið. Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytis verður birt í janúar að vanda.

     2.      Hafi ekki verið gerð ný þjóðhagsspá er óskað eftir því að tekið verði saman yfirlit yfir allar forsendur fjárlaga.
         Svar: Sjá svar 1.

     3.      Hver er væntanleg rekstrarniðurstaða ríkissjóðs árið 2008? Verður halli ársins 20, 50 eða 100 milljarðar króna?
         Svar: Útkoman mun koma fram í frv. til fjáraukalaga 2008, sem lagt verður fram í næstu viku.

     4.      Óskað er eftir rekstraráætlun fyrir ríkissjóð fyrir næstu 4 árin.
         Svar: Fyrirhugað er að vinna nýja langtímaáætlun um ríkisfjármálin sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir í kringum mitt næsta ár í samræmi við samkomulag við IMF.

     5.      Óskað er eftir greiðsluáætlun fyrir ríkissjóð næstu 4 árin.
         Svar: Fyrirhugað er að vinna nýja langtímaáætlun um ríkisfjármálin sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir í kringum mitt næsta ár í samræmi við samkomulag við IMF.

     6.      Hvað má ætla að vaxtagjöld nemi háum fjárhæðum ár hvert næstu 4 árin?
         Svar: Ný áætlun um vaxtagjöld ríkissjóðs fyrir árið 2009 verður kynnt í tillögum fyrir 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins 2009. Áætlun fyrir árin þar á eftir verður unnin áfram á næstunni og í tengslum við nýja langtímaáætlun um ríkisfjármálin.

     7.      Að undanförnu hafa erlend matsfyrirtæki lækkað lánshæfismat ríkissjóðs. Hvaða áhrif hefur það á fjárlagavinnuna nú í ár og á næstu árum?
         Svar: Hefur í sjálfu sér ekki áhrif á fjárlagavinnuna sem slíka en fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs getur orðið hærri fyrir vikið.

     8.      Eru bankarnir í stakk búnir til að fjármagna vandamál atvinnulífsins eða mun ríkissjóður koma að þeim málum? Ef svo er, hversu háan vanda má gera ráð fyrir að fjármagna þurfi?
         Svar: Mikil óvissa er um afkomuhorfur atvinnulífsins og mismunandi greina til skemmri tíma litið en þess er vænst að fjármögnun verði frá bankakerfinu.

     9.      Í samningunum við bændur eru ákvæði um verðlagsuppfærslur búvörusamninganna. Verða samningarnir uppfærðir að hluta eða í heild samkvæmt verðlagsbreytingum eða ekki?
         Svar: Gert er ráð fyrir verðbætur á búvörusamninga í heild verði óbreyttar frá því sem miðað var við í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009, eða 5,7% að meðaltali yfir árið.

     10.      Er gert ráð fyrir öllum tekjum ríkissjóðs í tekjuáætlun sem lögð var fyrir fjárlaganefnd í morgun eða má vænta breytinga á henni, og þá hverra og hvaða fjárhæðir er um að ræða?
         Svar: Mögulegt er að komi til frekari breytinga á tekjum ríkissjóðs við 3. umræðu.

     11.      Hvað námu skatttekjur ríkissjóðs af tekjusköttum viðskiptabankanna þriggja hárri fjárhæð árið 2007? Hvað voru þær áætlaðar háar á þessu ári?
         Svar: Álagning ríkisskattstjóra á viðskiptabankana þrjá árið 2007 nam 11,4 ma.kr. á grundvelli hagnaðar ársins 2006. Álagning fyrir árið 2008 á grundvelli tekna ársins 2007 er metin nema 13,6 ma.kr. árið 2008. Í uppfærðu fjárlagafrumvarpi er miðað við að viðskiptabankarnir þrír greiði engan tekjuskatt árið 2009 á grundvelli hagnaðar ársins 2008.

     12.      Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu og umræðu um mikinn rekstrarvanda fyrirtækja, falls bankanna, má þá ætla að tekjuskattur lögaðila lækki einungis um 5,1 milljarð kr. milli frumvarps og ríkisstjórnartillagna?
         Svar: Gert hafði verið ráð fyrir lækkun tekna viðskiptabankanna þriggja í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 á grundvelli mats á hagnaði þeirra árið 2008.

     13.      Verðlagsuppfærslu fjárlaga vantar inn í áætlunina sem afhent var í morgun, vaxtagjöld ríkissjóðs. Hvað vantar fleira inn í gjaldaáætlun 2009 og um hvaða fjárhæðir er að ræða?
         Svar: Tillögur um frekari breytingar á útgjaldahlið verða kynntar fyrir 3. umr. frumvarpsins. Að vanda verða þær tillögur kynntar fyrst fyrir fjárlaganefnd til umfjöllunar.

     14.      Hvaða atriði í tillögum ríkisstjórnarinnar flytjast yfir í þriðju umræðu? 5. gr. fjárlaga, 6. gr. fjárlaga o.fl?
         Svar: Engar tillögur ríkisstjórnarinnar flytjast úr 2. umræðu í 3. umræðu. Eins og fram kom í bréfi til nefndarinnar er fyrirhugað að gera tillögur um breytingar við 5. og 6. gr. frumvarpsins fyrir 3. umræðu.

     15.      Í ljósi stóraukins atvinnuleysis og brottflutnings skattgreiðenda úr landi er þá raunhæft að ætla að tekjuskattur dragist ekki meira saman en fram kemur í tillögunum?
         Svar: Skattar á tekjur og hagnað eru áætlaðir að dragast saman um 11,3% að nafnvirði og 19,3% að raunvirði umfram það sem áætlað var í frumvarpinu. Án 1 prósentustigs hækkunar á skatthlutfalli tekjuskatts einstaklinga hefði samdráttur í þeim tekjuskatti numið 16,7% að raunvirði frá því sem lagt var fram í frumvarpinu.

     16.      Stendur til að frysta eða fella niður geymdar fjárheimildir?
         Svar: Engan ákvarðanir hafa verið teknar um þetta.

     17.      Hver verða framlög í Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga árið 2009 miðað við árið 2008? Verður veitt aukaframlagi til Jöfnunarsjóðs líkt og var árið 2008?
         Svar: Tillaga um framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélag samkvæmt endanlegri áætlun um innheimtar skatttekjur næsta árs og útsvarstekjur tekjuársins 2008 verður gerð fyrir 3. umræðu frumvarpsins. Í stað aukaframlaga sem eru í fjárlögum í ár kemur tímabundin hlutdeild í tekjum af 0,5% hækkun á útsvarsprósentu sveitarfélaga.

     18.      Mun ríkissjóður greiða fasteignaskatta til sveitarfélaga eins og gert hefur verið ráð fyrir?
         Svar: Gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði skatta af sínum fasteignum til sveitarfélaga samkvæmt þeim sem gilda á hverjum tíma hingað til sem endranær.

     19.      Hvað má áætla að margir einstaklingar missi störf vegna niðurskurðar útgjalda samkvæmt tillögu ríkisstjórnar til breytinga á fjárlagafrumvarpi?
         Svar: Engar áætlanir eru um að fækkun starfa vegna áforma um að draga ríkisútgjöldin nokkuð saman í ljósi horfa um mjög verulega lækkun tekna á næsta ári. Að því marki sem um er að ræða lækkun á rekstrargjöldum verður það útfært nánar hjá ráðuneytum og stofnunum, t.d. í hvaða mæli dregið verði úr ferðakostnaði, búnaðarkaupum, húsnæðiskostnaði, launakostnaði, t.d. yfirvinnu eða vaktkerfum o.s.frv. Mjög víða í ríkisrekstrinum hafa fjárveitingar til rekstrar verið auknar jafnt og þétt undanfarin ár og er svigrúm til að draga saman án þess að fækka störfum, sérstaklega í velferðarþjónustustofnunum og löggæslustofnunum þar sem almennt er stefnt að því að draga um 3% úr útgjaldaaukningu milli ára fremur en 5% eins og í ýmsum stjórnsýslustofnunum.


Fylgiskjal II.


Spurningar minni hluta fjárlaganefndar sem beint var til fjármálaráðuneytisins
og svör fjármálaráðuneytisins við þeim.


     1.      Óskað er eftir skriflegum skýringatexta með öllum breytingartillögum ríkisstjórnarinnar, sbr. þá lista sem lagðir voru fram á fundi fjármálaráðuneytisins með fjárlaganefnd 11. desember 2008.
         Svar: Skýringartextinn liggur fyrir í tillögunum eins og þær eru afhentar fjárlaganefnd í fjárlagaakerfinu. Þar geta starfsmenn nefndarinnar prentað út skýrslur um tillögurnar með skýringum við hverja þeirra.

     2.      Óskað er eftir að tillögur ríkisstjórnarinnar verði settar fram með eftirfarandi hætti: Í fyrsta dálki verði fjárlagafrumvarp 2009, í öðrum dálki breytingatillögurnar og í þeim þriðja áætluð staða viðkomandi fjárlagaliðar í árslok 2008.
         Svar: Þessi framsetning er í samræmi við hefðbundið þingskjal breytingartillagna fjárlaganefndar og geta starfsmenn nefndarinnar prentað skjalið út úr fjárlagakerfinu eins og vanalega.

     3.      Óskað er eftir að lögð verði fram rekstraráætlun fyrir ríkissjóð fyrir næstu fjögur árin.
         Svar: Fyrirhugað er að vinna nýja langtímaáætlun um ríkisfjármálin sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir í kringum mitt næsta ár í samræmi við samkomulag við IMF.

     4.      Óskað er eftir að lögð verði fram greiðsluáætlun fyrir ríkissjóð fyrir næstu fjögur árin.
         Svar: Fyrirhugað er að vinna nýja langtímaáætlun um ríkisfjármálin sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir í kringum mitt næsta ár í samræmi við samkomulag við IMF.

     5.      Óskað er eftir að lögð verði fram sundurliðun á stofnkostnaðar- og viðhaldsáætlunum sbr. lið 2 hér á undan.
         Svar: Í fjárlagafrumvarpi og breytingartillögum ríkisstjórnar liggja fyrir áætluð útgjöld við einstök stofnkostnaðarverkefni sbr. t.d. tilteknar húsbyggingar eða varðskip. Ef átt er við stofnkostnaðarflokka á borð við vegagerð þá er það ekki sundurliðað í fjárlögum heldur í samgönguáætlun og í endurskoðunum á henni.

     6.      Hver er fjármögnunarþörf ríkissjóðs vegna hruns viðskiptabankanna næstu árin?
         Svar: Unnið er að því að ljúka áætlunum um fjármögnun ríkissjóðs á næsta ári, m.a. vegna yfirtöku á bankakerfinu, og verður tillaga um það gerð fyrir 3. umr. frumvarpsins. Meiri óvissa er um forsendur til lengri tíma litið en áfram verður unnið að áætlunum um það m.a. í tengslum við undirbúning að nýrri langtímaáætlun í ríkisfjármálum.

     7.      Hver er lausafjárþörf ríkissjóðs næstu árin?
         Svar: Sjá svar 6.

     8.      Hvað má ætla að lífeyrisskuldbindingar hækki mikið næstu 4 árin?
         Svar: Þar sem þær lífeyrisskuldbindingar sem ekki er staðið undir með iðgjöldum og færast til gjalda hjá ríkissjóði ráðast að stærstum hluta af grunnlaunum ríkisstarfsmanna eru líkur á að þær aukist ekki að ráði á næsta ári og lækki jafnvel miðað við verðlag. Á hinn bóginn hafa áföll á fjármálakerfið nokkur áhrif á stöðu lífeyrissjóða ríkisstarfsmanna þannig að geta þeirra til að standa undir skuldbindingum gæti orðið eitthvað lakari. Um er að ræða afar flókna útgjaldaþætti sem ætlunin er að gera sérstaka úttekt á næstu mánuði og þá einnig til lengri tíma litið.

     9.      Hvert er hagkvæmasta skuldahlutfall ríkissjóðs, þ.e. sem hlutfall af landsframleiðslu?
         Svar: Ætla má að hagkvæmasta skuldsetningarhlufall ríkissjóðs af VLF gæti verið um 0%.

     10.      Hver er áætlaður halli (niðurstaða rekstrar) á ríkissjóði árið 2008?
         Svar: Efnisatriði frumvarps til fjáraukalaga, þ.m.t. áætluð afkoma ríkissjóðs í ár, koma fram þegar það verður lagt fram í næstu viku.

     11.      Hvaða liði fjáraukalagafrumvarpsins má beinlínis rekja til atburða sem tengjast kreppunni?
         Svar: Efnisatriði frumvarps til fjáraukalaga koma fram þegar það verður lagt fram í næstu viku. Gera má ráð fyrir að á tekjuhlið verði aðallega um að ræða nokkurn samdrátt í tekjum frá því sem reiknað var með í fjárlögum og að á útgjaldahlið verði stærstu liðirnir sem tengjast nýliðnum áföllum á efnahagskerfið, auknar atvinnuleysisbætur og útgreiðslur úr Ábyrgðasjóði launa auk talsverðra áhrifa af gengisfalli íslensku krónunnar.

     12.      Hver verður fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs á næsta ári? árið 2010?, árið 2011?
         Svar: Ný áætlun um vaxtagjöld ríkissjóðs fyrir árið 2009 verður kynnt í tillögum fyrir 3. umræðu fjárlagafrumvarpsins 2009. Áætlun fyrir árin þar á eftir verður unnin áfram á næstunni og í tengslum við nýja langtímaáætlun um ríkisfjármálin.

     13.      Hvað getur ríkissjóður staðið undir háum afborgunum af lánum miðað við tekjur og gjöld fjárlaga eins og þau liggja nú fyrir?
         Svar: Fjárlög ársins 2009 liggja ekki fyrir á þessu stigi þar sem eftir er að setja fram og fjalla um tillögur fyrir 3. umræðu. Tillögur um lánahreyfingar, þ.m.t. lántökur, verða gerðar fyrir 3. umræðu frumvarpsins.

     14.      Er unnt að fá samandreginn samanburð á fjárlagafrumvarpinu gamla og þessum tillögum?
         Svar: Í spurningunni kemur ekki fram hvers konar samandregin samanburð á tölum um er að ræða. Starfsmenn nefndarinnar hafa aðgang í fjárlagakerfinu, aðgang að öllum gagnagrunni fjárlagafrumvarpsins og breytingartillögum þar sem fyrir hendi eru bæði skýrslur og fyrirspurnartól til að draga saman og vinna úr gögnunum.

     15.      Yfirlýsing gagnvart öldruðum og öryrkjum um persónuafslátt á næsta ári. Hver er staða þess máls?
         Svar: Ekki hefur verið tekin ákvörðun um breytingar frá fyrri áformum um persónuafsláttinn.

     16.      Ríkissjóður skuldaði 564.278 milljónir kr. 31. október 2008. Hve stór hluti þeirra er vegna innlána í útibú íslensku bankana erlendis? Hvað mun bætast við af lánum á þessu ári? Hver er áætluð skuldastaða ríkissjóðs í árslok 2008?
         Svar: Þessar upplýsingar liggja ekki nægilega vel fyrir á þessu stigi en verið er að ljúka gerð áætlana sbr. 6.

     17.      Hver má halli ríkissjóðs verða árið 2009 samkvæmt samkomulagi við IMF? Hver má halli ríkissjóðs verða á árinu 2008 samkvæmt samkomulagi við IMF?
         Svar: Ekki er beinlínis gert ráð fyrir tilteknum mörkum um tekjuafkomu ríkissjóðs 2009 í samkomulaginu við IMF heldur að lánsfjárþörf verði innan tilgreindra marka, t.d. að hún aukist ekki um meira 12 mia. kr. á fjórða ársfjórðungi yfirstandandi árs. Það þýðir hins vegar að ríkissjóður þarf að ná nægilegum árangri í tekjuafkomu og handbæru fé frá rekstri til þess að þegar fjármunahreyfingum hefur verið bætt við þá verði afleidd lánsfjárþörf innan markanna.

     18.      Hver er staða ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpi með áorðnum breytingartillögum og þekktum stærðum? Eftirfarandi tafla óskast fyllt út í milljörðum króna:

         Halli skv. fjárlagafrumvarpi      56 ,9
         Staða halla eftir aðra umræðu?      93 ,1
        Vaxtagjöld?     
        Verðlagsuppfærslur?
        Gengisbreytingar?
        Skattabreytingar?
        Niðurskurðartillögur, hvaða?
        Aðrar breytingar (hverjar)?


         Svar: Tölurnar tvær í töflunni um halla í fjárlagafrumvarpinu 2009 og að meðtöldum breytingartillögum sem nú liggja fyrir til 2. umræðu eru rétt lagðar saman. Tillögur um aðrar breytingar svo sem á vaxtagjöldum og frekari verðlagshækkanir koma fram fyrir 3. umræðu frumvarpsins eins og fram kemur í bréfinu til nefndarinnar um tillögur ríkisstjórnarinnar.



Fylgiskjal III.


Bréf frá minni hluta fjárlaganefndar til fjármálaráðuneytisins
og Seðlabanka Íslands.

(13. desember 2008.)



    Vísað er til þingskjals 189 – 161. máls, sem er tillaga til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lögð var fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009. Jafnframt er vísað til fylgiskjals þingskjalsins, viljayfirlýsingar um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Undirritaður óskar eftir að ráðuneytið beri saman fjárlagafrumvarpið og einstaka liði í fyrrgreindu samkomulagi. Óskað er eftir skriflegri umsögn um:
     *      Þau atriði í fjárlagafrumvarpinu sem hafa bein áhrif á markmið IMF fyrir ríkisbúskapinn og fjármál þjóðarinnar og hvernig þau standast áform samkomulagsins um að ríkissjóður nái hallalausum rekstri innan tilgreinds tíma.
     *      Óskað er eftir að gerð verði grein fyrir þeim atriðum í niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar sem eru tilkomnar vegna samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þeim verði skipt á málaflokka.
     *      Ef tekjur ríkissjóðs reynast hærri en gengið er út frá í samkomulaginu, hvaða heimildir eru þá fyrir hendi til að nota þá aukningu við að draga úr niðurskurði ríkissjóðs, t.d. til heilbrigðismála og almannatryggingakerfisins.
     *      Hvernig eru ársfjórðungsleg viðmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skilgreind í fjármálum ríkisins og geta þar verið skorður sem kalla á setningu nýrra fjárlaga til að mæta þeim kröfum eða viðmiðunum sem sjóðurinn hefur sett?
     *      Óskað er upplýsinga um stöðu heildarlána ríkissjóðs, væntanlegar lántökur næstu fjögur árin, áætlaðan vaxtakostnað og mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hvað íslenska þjóðarbúið getur staðið undir háum lánum.
     *      Óskað er eftir upplýsingum um árlega greiðslubyrði afborgana og vaxta á árunum 2009– 2013.