Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 359  —  179. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og lögum um útlendinga, nr. 96/2002.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti og Gissur Pétursson frá Vinnumálastofnun. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Útlendingastofnun, Rauða krossi Íslands, Tryggingastofnun ríkisins, Viðskiptaráði Íslands, Fjölmenningarsetri og Alþýðusambandi Íslands.
    Þegar Búlgaría og Rúmenía urðu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu var samið um sérstaka aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins gagnvart löndunum. Meðal annars var veittur aðlögunartími að reglum um frjálsa för launafólks og aðstandenda þeirra þannig að ákvæði sem tryggja eiga þessa frjálsu för tækju ekki gildi fyrr en 1. janúar 2009, hið fyrsta. Í gildandi lögum er nú miðað við það tímamark hvað varðar frjálsan atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu hér á landi sem hafa því sömu stöðu og aðrir borgarar utan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt frumvarpinu verður aðlögunartíminn lengdur um þrjú ár, til 1. janúar 2012. Með þessu er þó einungis hluti heimildar til frestunar nýttur en aðildarríkjum að Evrópska efnahagssvæðinu er leyfilegt að lengja aðlögunartímann til 1. janúar 2014.
    Í frumvarpinu er lagt til að nýtt sé heimild til að fresta gildistöku laganna vegna þeirra þrenginga sem orðið hafa í efnahagslífi þjóðarinnar og aukins atvinnuleysis sem þær hafa haft í för með sér. Aðstæður á vinnumarkaði hafa versnað og því eðlilegt að grípa til ráðstafana sem geta orðið til þess að draga úr yfirvofandi atvinnuleysi. Heimild til að framlengja aðlögunartímann er bundin þeim skilyrðum að framlenging þarf að koma til áður en gildandi tímamarki lýkur og tilkynna þarf til Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir fram um frestun á gildistöku ákvæðanna um frjálsa för launafólks og aðstandenda. Augljóst er því að samþykkja þarf frumvarpið fyrir áramót sé ætlunin að fresta gildistöku ákvæðanna. Að sama skapi getur aðildarríki þó einhliða vikið frá aðlögunartíma og veitt ríkisborgurum landanna tveggja full réttindi á þessu sviði á við ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Nefndin telur eðlilegt við núverandi aðstæður að framlengja aðlögunartímann. Nefndin áréttar þó jafnframt að takist þjóðinni að vinna sig út úr þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem hún er í núna og draga verulega úr atvinnuleysi á nýjan leik áður en gildistími ákvæðanna rennur út verði vikið frá þessum hömlum og ríkisborgurum Búlgaríu og Rúmeníu veitt sömu réttindi til atvinnuþátttöku og búsetu hér á landi og aðrir ríkisborgarar á Evrópska efnahagssvæðinu hafa.
    Á síðasta þingi hafði nefndin til meðferðar frumvarp til laga sem var samþykkt 29. maí sl., sbr. lög nr. 78/2008. Með þeim lögum var m.a. gerð sú breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, að atvinnuleyfi voru flokkuð eftir því á hvaða grundvelli þau eru veitt. Ákvæðum sem varða atvinnuleyfi fyrir nánustu aðstandendur útlendings var jafnframt breytt. Við þá breytingu láðist að lögfesta heimild til að veita nánustu aðstandendum íslenskra ríkisborgara sambærileg atvinnuleyfi. Áður hafði verið stuðst við 7. gr. laganna til að veita slík leyfi eftir að útlendingi hafði verið veitt dvalarleyfi sem nánasta aðstandanda samkvæmt lögum um útlendinga. Vegna flokkunar atvinnuleyfa er ekki lengur hægt að styðjast við fyrri framkvæmd. Þykir því ástæða til að leiðrétta þetta og leggja til breytingar á 12. gr. laganna þannig að heimilt verði að veita atvinnuleyfi til nánustu aðstandenda íslenskra ríkisborgara að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda varðandi veitingu atvinnuleyfa til nánustu aðstandenda útlendings sem fengið hefur tímabundið atvinnuleyfi skv. 8. gr. laganna, tímabundið atvinnuleyfi sem tengist dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 11. gr. eða óbundið atvinnuleyfi, sbr. 12. gr. laganna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við II. kafla bætist ný grein sem verði 2. gr., svohljóðandi:
    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „nánustu aðstandenda“ í 1. mgr. kemur: íslensks ríkisborgara eða.
     b.      Við 6. mgr. bætist: eða um sé að ræða nánasta aðstandanda íslensks ríkisborgara.

    Kristinn H. Gunnarsson, Árni Johnsen og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 2008.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Helga Sigrún Harðardóttir.



Ögmundur Jónasson.


Kjartan Ólafsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.