Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 208. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 458  —  208. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skattlagningu kolvetnisvinnslu.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson, Björn Ragnar Björnsson og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti, Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson og Aðalstein Hákonarson frá ríkisskattstjóra, Gunnlaug Jónsson frá Lindum Resources hf. og Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum fjárfesta, Orkustofnun, Lindum Resources hf., Náttúrufræðistofnun Íslands, Seðlabanka Íslands, ríkisskattstjóra og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarp þetta tengist áformum um að bjóða út leyfi til kolvetnisleitar á Drekasvæði. Tilgangur þess er að færa íslenska ríkinu viðunandi endurgjald fyrir afnot af hinni takmörkuðu auðlind, þ.e. olíu og gasi.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um heimildir íslenska ríkisins til að leggja skatt á starfsemi sem með beinum eða óbeinum hætti varðar vinnslu og dreifingu kolvetnis innan íslenskrar efnahagslögsögu. Skattskyldan tekur til lögaðila, sjálfstætt starfandi manna og launþega og er meginreglan sú að starfsemi þeirra beri þá skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á samkvæmt íslenskum lögum. Þá er gert ráð fyrir að þeir sem fengið hafa úthlutað leyfi til vinnslu kolvetnis greiði sérstakt vinnslugjald sem leggst á þegar framleiðslan hefur náð tilteknu stigi og allt þar til hagnaður af starfseminni nær 20% af skattskyldum rekstrartekjum en þá leggst á sérstakur kolvetnisskattur. Skattlagningarheimildir þessar eru útfærðar í frumvarpinu þar sem kveðið er meðal annars á um skattskyldu, skattstofn, útreikning skattfjárhæðar og skattskil.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að til stæði að hefja útboð á rannsóknarleyfum 15. janúar nk. og ræddi nefndin sérstaklega hvers vegna málið hefði ekki komið fyrr til meðferðar þingsins.
    Nefndin ræddi tilgang skattlagningar kolvetnisvinnslu, hvers vegna sú skattlagningarleið sem valin er í frumvarpinu hefði verið valin og hvort hún ætti sér fyrirmyndir í öðrum ríkjum. Nefndin ræddi einnig um muninn á vinnslugjaldi og kolefnisskatti, kosti þeirra og galla, afmörkun leitarsvæða og heimildir vinnslufyrirtækja þar að lútandi til að flytja tap af leyfisskyldri starfsemi milli leyfishafa eða einstakra leyfissvæða.
    Fram kom að ekki væri vitað hversu margir mundu taka þátt í útboði þegar leyfi verða boðin út en innan Evrópu væri litið á svæðið sem eitt hið áhugaverðasta til olíuleitar. Fram kom að leit og vinnsla kolvetnis á Drekasvæðinu væri dýrt og áhættusamt verkefni og að hagfellt skattumhverfi gæti ráðið miklu um hvort fyrirtæki sæktust eftir leyfi, ekki síst í ljósi erfiðra skilyrða á vettvangi, ríkjandi tregðu á fjármálamörkuðum og lágs olíuverðs. Einnig varðaði miklu að lagaramminn yrði skýr þegar leyfi yrðu boðin út og að erfitt gæti reynst að breyta honum eftir úthlutun leyfa.
    Á fundum nefndarinnar komu fram ólík sjónarmið um hvort skattumhverfi eins og það er mótað í frumvarpinu væri hagfellt.
    Fulltrúi olíufjárfesta sem kom á fund nefndarinnar taldi að vinnslugjaldið væri einkum til þess fallið að draga úr áhuga erlendra olíufélaga vegna þess hvernig það væri uppsett. Gjaldið væri skattur sem reiknaður væri út frá verðmæti framleiðslu en tæki ekki mið af kostnaði eða hagnaði fyrirtækis, sem gæti verið verulega íþyngjandi. Einfaldara væri að leggja flatan skatt á allan hagnað með lágri skattprósentu.
    Fulltrúar ráðuneytisins bentu á að vinnslugjaldið styddist við þau rök að ríkinu, sem eiganda auðlindarinnar, hlotnuðust tekjur af nýtingu hennar óháð því hvort starfsemin væri arðbær. Einnig væri vinnslugjaldinu ætlað að virka sem hvati fyrir vinnslufyrirtæki til að skila hagnaði og enn fremur væri því ætlað að letja fyrirtæki til að hefja vinnslu ef fyrirséð væri að starfsemin yrði ekki arðbær.
    Bent var á að vinnslugjaldið er háð vinnslumagninu á tvennan hátt. Vinnslumagnið, unnið magn af kolvetni hefur bein áhrif (línuleg) á gjaldhlutfallið og einnig á gjaldstofn vinnslugjaldsins. Vinnslugjaldið er margfeldi þessara þátta og því háð magninu í öðru veldi (annars stigs jafna). Það getur farið upp fyrir 100% í frekar ólíklegum tilfellum. Þá hafa verið miklar sveiflur í olíuverði og þær geta leitt til þessa að fyrirtækin greiði ýmist vinnslugjald, sem oft er miklu hærra, eða kolefnisskatt, allt eftir því hvert olíuverðið er. Vinnslugjaldið er hugsað sem sterkur hvati til að sýna hagnað.
    Í tilefni af athugasemdum komu fram þær skýringar á fundum nefndarinnar að samkvæmt almennum reglum væri vinnslugjald álitið vera frádráttarbær rekstrarkostnaður til skatts þó að það drægist ekki frá við mat á því hvort hagnaður nær 20% af skattskyldri starfsemi (sjá a-lið 2. mgr. 12. gr.), en þegar það á við mun greiðsla þess skoðast sem staðgreiðsla upp í kolvetnisskatt fyrir viðkomandi skattár. Einnig var á það bent að vinnslufyrirtækjum yrði heimilt að gjaldfæra í einu lagi stofnkostnað, t.d. vegna tilraunavinnslu og rannsókna, ýmist í einu lagi þegar tekjuöflun hefst eða með jöfnum fjárhæðum á fimm árum.
    Bent var á að gjaldhlutfall vinnslugjalds í 1. mgr. 7. gr. og gjaldhlutfall kolefnisskatts í 1. mgr. 13. gr. væru ekki nægilega skýr því að túlka mætti þau sem hlutföll en ekki prósentur, eins og þó kemur fram í greinargerð. Er flutt breytingartillaga til að skýra þetta atriði. Nefndin leggur einnig til smávægilegar orðalagsbreytingar á 21. gr. frumvarpsins.
    Loks ræddi nefndin almennt um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif kolvetnisvinnslu með hliðsjón af reynslu annarra þjóða.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 7. gr. Á eftir orðunum „Gjaldhlutfall þess“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: mælt í prósentum.
     2.      Við 13. gr. 1. mgr. orðist svo:
             Gjaldhlutfall kolvetnisskatts, mælt í prósentum, er stighækkandi miðað við hagnaðarhlutfall og reiknast með eftirfarandi hætti: (Hagnaðarhlutfall mælt í prósentustigum skv. 9. gr. og 1. mgr. 12. gr. – 10 prósentustig) * 0,55.
     3.      Við 21. gr. Í stað orðsins „Tollstjórinn í Reykjavík“ komi: Tollstjóri.

         Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir gera fyrirvara við álitið.
    Bjarni Benediktsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Birkir J. Jónsson.


Lúðvík Bergvinsson.


Katrín Jakobsdóttir,


með fyrirvara.



Rósa Guðbjartsdóttir.