Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 197. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 525  —  197. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu tveggja viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Albaníu og Króatíu.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Jónsson og Grétu Gunnarsdóttur frá utanríkisráðuneytinu.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur viðbótarsamningum við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949, um aðild lýðveldisins Albaníu og lýðveldisins Króatíu sem gerðir voru í Brussel 9. júlí 2008.
    Samkvæmt ákvæðum samninganna öðlast þeir fyrst gildi þegar öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafa staðfest þá og tilkynnt vörsluaðila viðbótarsamninganna um staðfestinguna. Í kjölfarið mun framkvæmdastjóri NATO bjóða ríkisstjórnum nýju aðildarríkjanna að gerast aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum.
    Albanía og Króatía hafa á síðustu árum tekið þátt í svokallaðri aðildaráætlun Atlantshafsbandalagsins sem miðar að því að aðstoða umsóknarríki við undirbúning aðildar, en umsóknarríki þurfa að uppfylla ýmis pólitísk, efnahagsleg og hernaðarleg skilyrði áður en af henni getur orðið. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest 2.–4. apríl 2008 var ákveðið að bjóða Albaníu og Króatíu aðild að bandalaginu, enda höfðu ríkin uppfyllt skilyrði áætlunarinnar. Ríkin tvö munu sjálf greiða kostnað við aðlögun eigin varna að samræmdu varnarkerfi bandalagsins og ekki er gert ráð fyrir að núverandi aðildarríki þurfi að breyta eigin varnaráætlunum eða auka útgjöld til varnarmála vegna fjölgunar aðildarríkja.
    Við þetta fjölgar aðildarríkjum bandalagsins úr 26 í 28 og hefur Atlantshafsbandalagið ávallt lagt áherslu á að stækkun þess leiði til aukins stöðugleika og öryggis í Evrópu og ýti enn frekar undir þá lýðræðisþróun sem orðið hefur í nýju aðildarríkjunum.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

    Alþingi, 11. feb. 2009.


Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaform., frsm.


Björn Bjarnason.
Ragnheiður E. Árnadóttir.

Siv Friðleifsdóttir.


Valgerður Sverrisdóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.