Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 678  —  321. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Á fundi efnahags- og skattanefndar 9. mars 2009 var ákveðið að gera ekki breytingar á fyrirliggjandi hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að greiða öllum sem þess óska allt að einni milljón króna út af séreignarsparnaði sínum. Engin krafa er gerð um vanskil eða að upphæðin verði notuð til uppgreiðslu á skuldum. Greiðslan dreifist á 10 mánuði og nemur 63 þús. kr. á mánuði eftir skatt. Þá er heimild til Fjármálaeftirlitsins að stöðva útgreiðslur ef þær ógna greiðslustöðu viðkomandi lífeyrissjóðs.
    Fyrir utan það að þessi lausn breytir sennilega mjög litlu fyrir þann sem á í verulegum erfiðleikum og er að missa heimili sitt er hugsanlegt að mjög margir muni nota tækifærið og flytja þennan hluta séreignar sinnar á venjulega bankabók, hugsanlega verðtryggða, þar sem traust manna á séreignarsparnaði hefur beðið nokkurn hnekki. Ef mikið verður um slíkar útgreiðslur getur viðkomandi lífeyrissjóður að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins stöðvað útgreiðslur til þess að hann þurfi ekki að selja eignir í hraðsölu til tjóns fyrir aðra sjóðfélaga. Þá gildir reglan „fyrstur kemur, fyrstu fær“ . Vissan um það getur ýtt undir að fólk bregðist hratt við. Þá kemur fram mismunun á milli þeirra sem fylgjast vel með og vita og hinna sem ekki eru eins upplýstir. Minni hlutinn tekur undir alvarlegar viðvaranir Fjármálaeftirlitsins sem koma fram í umsögn eftirlitsins og varaði við þessu í nefndinni en hlaut ekki hljómgrunn.
    Minni hlutinn flytur breytingartillögu sem leysir vanda þeirra sem eru í verulegum vanskilum sem þeir geta ekki greitt og eiga á hættu að missa húsnæði sitt en eru jafnframt með stórar upphæðir bundnar í séreignarsparnaði. Hugmyndin gengur út á það að lífeyrissjóðurinn gefi út skuldabréf til viðkomandi lánastofnunar og skattheimtunnar með sömu kjörum varðandi gjalddaga og ávöxtun og séreignarsparnaðurinn sjálfur. Þannig má segja að lánastofnunin og skattheimtan verði „séreignarsparandi“ í stað einstaklingsins, sem hins vegar losnar úr viðjum vanskila og forðar heimili sínu frá uppboði. Lánastofnunin fær mjög góðan skuldara í stað vanskilanna og skattheimtan fær skatta með nákvæmlega sama hætti og fyrirhugað var að óbreyttri skattprósentu. Lífeyrissjóðurinn heldur áfram starfsemi sinni eins og ekkert hafi í skorist.
    Þá er í breytingartillögu minni hlutans ákvæði, sem vantar í tillögur ríkisstjórnarinnar, um að ekki verði farið út í slíka útgreiðslu nema hún skili mjög líklega árangri. Ef eigandi séreignarsparnaðarins verður gjaldþrota þrátt fyrir útgreiðsluna tapast þeir fjármunir þar sem séreignarsparnaður fellur ekki undir gjaldþrot en útgreiðsla er glötuð.
    Minni hlutanum þykir miður að ríkisstjórnin skuli ekki hafa fallið frá tillögum sínum, sem nýtast mjög illa sem lausn á þeim vanda sem við er að etja, en geta verið skaðlegar og hafnað skynsamlegum tillögum sem valda engu raski. Þess ber þó að geta að meiri hlutinn leggur til að þessar hugmyndir minni hlutans verði skoðaðar síðar.
    Minni hlutinn leggur til að breytingartillaga hans verði samþykkt.
    

Alþingi, 9. mars 2009.

Pétur H. Blöndal.