Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 373. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 704  —  373. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og bókun 37 við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Högna S. Kristjánsson og Andra Júlíusson frá utanríkisráðuneyti og Þórhall Vilhjálmsson frá menntamálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007, frá 26. október 2007, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) og bókun 37 við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/ EB. Tilskipunin fjallar um viðurkenningu á menntun til starfa sem eru lögvernduð og krefjast þess að aðilar hafi aflað sér faglegrar menntunar og hæfis áður en þeim er heimilt að hefja störf á viðkomandi sviði.
    Með tilskipuninni eru 15 fyrri tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis sameinaðar í eina, bæði tilskipanir almenna kerfisins (89/48/EBE, 92/51/EBE og 1999/ 42/EB) og hinar svokölluðu geiratilskipanir (um lækna, hjúkrunarfræðinga o.fl. stéttir). Með tilskipuninni verða ekki grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður en vonast er til að framkvæmdin verði einfaldari og skilvirkari, m.a. með nýjum ákvæðum um veitingu þjónustu og um samskiptakerfi stjórnvalda er annast viðurkenninguna.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en endurskoða þarf lög nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, en þau hafa að geyma ákvæði um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi hér á landi, og færa til samræmis við ákvæði hinnar nýju tilskipunar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. mars 2009.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.



Siv Friðleifsdóttir.


Valgerður Sverrisdóttir.