Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 711  —  418. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2008 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykir standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins, sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna umræðu um baráttuna gegn fátækt í heiminum sem fór fram í Höfðaborg í apríl. Þar var m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að konur væru virkir þátttakendur í þróun samfélaga, en ljóst er að þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verður ekki náð án þess að unnið verði markvisst að jafnrétti kynjanna. Í öðru lagi er umræða um hlutverk þinga við að ráða niðurlögum fjármálakreppunnar í heiminum og um efnahagsleg áhrif hennar á þróuð og vanþróuð ríki.
    Þá ber að nefna starf IPU til að efla lýðræði. Mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Þingmenn frá slíkum þingum kynnast lýðræðislegum vinnubrögðum á þingum IPU, en jafnframt vinnur sambandið mjög mikilvægt starf í þessa veru milli þinga. Námskeið eru haldin fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, stundum í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðra alþjóðastofnun. Sambandið hefur einnig lagt áherslu á jafnréttismál í stjórnmálum og hlutskipti kvenna og barna. Í því sambandi má nefna afar gott samstarf samtakanna á árinu við Þróunarsjóð Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna (UNIFEM) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og verður áframhaldandi áhersla á málaflokkinn árið 2009.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2008 má nefna heilsufar mæðra og ungbarna og baráttuna við ungbarnadauða, friðaruppbyggingu í þágu sáttar og ástandið í Simbabve í kjölfar kosninganna þar í landi. Þá fjallaði önnur neyðarályktun samtakanna um það aðkallandi hlutverk þjóðþinga og IPU að stöðva versnandi ástand á ófriðarsvæðum og auðvelda Palestínumönnum að endurheimta sjálfsákvörðunarrétt sinn og flýta fyrir stofnun palestínsks ríkis með raunhæfu friðarferli. Þess ber að geta að Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar, var skipuð í framkvæmdastjórn IPU til næstu fjögurra ára, en jafnframt á hún sæti í framkvæmdastjórn kvennasamtaka IPU.
    
2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 150 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga sex svæðisbundin þingmannasamtök. Hlutverk IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum og hlúa að samstarfi þeirra. IPU fjallar um alþjóðamál og samþykkir ályktanir um þau og vinnur að framgangi mannréttindamála sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori, sem haldið er í einu af aðildarríkjum sambandsins, og eitt minna þing að hausti, sem er haldið í Genf nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oftast um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
    1. nefnd um friðar- og öryggismál,
    2. nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
    3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur sautján manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til einhver niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og nýjar hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar.
    Eftir Alþingiskosningarnar 12. maí 2007 var ný Íslandsdeild kosin. Samkvæmt breytingum á þingsköpum gildir sú kosning deildarinnar fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó hvenær sem er kosið að nýju ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um. Aðalmenn starfsárið 2008 voru Ásta Möller, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar og Atli Gíslason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.
    Á þingfundi sambandsins 18. apríl var Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar, kjörin í framkvæmdastjórn IPU.


4. Yfirlit yfir fundi.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi IPU á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Tólfplús-hópurinn.
    Venja er að daginn fyrir upphaf þings hittist Tólfplús-hópurinn sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Hópurinn hittist síðan á fundum flesta morgna meðan þing stendur til að fara yfir öll helstu mál þingsins og samræma afstöðu eins og hægt er. Á þeim fundum eru jafnframt fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU valdir. Tveir þingmenn frá aðildarríkjum hópsins hafa seturétt á fundunum. Formaður hópsins, John Austin frá Bretlandi, stýrði fundunum.
    Á vorþinginu fóru fram kosningar um eftirmann Katri Komi, formanns finnsku landsdeildarinnar, í stöðu Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU. Tvær þingkonur voru í framboði, þær Ásta Möller og Monika Griefahn frá Þýskalandi, og vann Ásta afgerandi sigur í kosningunni, fékk 37 atkvæði gegn 26, og varð þar með ein fjögurra fulltrúa hópsins í framkvæmdastjórn IPU. Framkvæmdastjórnin hefur umsjón með rekstri samtakanna og er skipuð 17 fulltrúum sem kosnir eru til fjögurra ára. Ásta er annar íslenski þingmaðurinn sem nær kjöri í framkvæmdastjórn IPU, en á árunum 1994–1998 sat Geir H. Haarde í stjórninni. Þá tilkynntu tveir fulltrúar um framboð sitt til næsta forseta IPU, þeir Theo-Ben Gurirab frá Namibíu og Laksono frá Indónesíu. Þeir kynntu stuttlega stefnumál sín fyrir fundargestum, en kosning um eftirmann Pier Ferdinando Casini, forseta sambandsins, sem kjörinn var í október 2005, fór fram á þingi sem haldið var í október 2008.
    Á haustþinginu kynntu fulltrúar Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU, þau Ásta Möller, Geert Versnick (Belgíu) og Robert del Picchia (Frakklandi), helstu niðurstöður funda stjórnarinnar og gafst fundargestum kostur á að spyrja út í starf hennar. Þá skýrði Finn Martin Vallersnes (Noregi) frá starfi nefndar um málefni Sameinuðu þjóðanna. Í framhaldinu minnti John Austin fundarmenn á óformlega ákvörðun hópsins um að styðja Theo-Ben Gurirab frá Namibíu í kosningu um nýjan forseta IPU. Enn fremur voru skipaðir fulltrúar hópsins í nefnd sem vann að drögum að neyðarályktun þingsins. Þá sagði Ásta Möller fundargestum frá starfi undirbúningsnefndar kvennafundar IPU og fór yfir skipulagningu og áhersluatriði næsta fundar sem haldinn verður á vorþingi IPU í Addis Ababa.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Svíar í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Stokkhólmi 10. mars og sá síðari í Uppsölum 18.–19. september. Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar, sótti fundina auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Á fundinum í Stokkhólmi upplýsti Katri Komi, sem sat í framkvæmdastjórn IPU, fundarmenn um áhersluatriði stjórnarinnar og hvað helst var til umræðu á síðasta fundi hennar. Í framhaldinu hvatti hún Ástu Möller til að bjóða sig fram í framkvæmdastjórn IPU og varð Ásta við þeirri hvatningu. Katri Komi sagði jafnframt frá því að líklegt væri að formaður þýsku landsdeildarinnar, Monika Griefahn, byði sig einnig fram fyrir hönd Tólfplús-hópsins til framkvæmdastjórnarinnar en hún hafði ekki heyrt af fleiri frambjóðendum að svo stöddu. Sammælst var um að norrænu landsdeildirnar styddu framboð Ástu Möller til framkvæmdastjórnarinnar.
    Á fundinum í Uppsölum kynnti Ásta Möller helstu niðurstöður fundar framkvæmdastjórnar sem haldinn var í Genf 19. júní og svaraði spurningum nefndarmanna. Fundurinn var haldinn sérstaklega til að ræða fulla aðild Palestínu að samtökunum, en gera þarf breytingar á starfsreglum sambandsins til að hún nái fram að ganga. Í framhaldi af fundinum sendi framkvæmdastjórnin út breytingartillögu að starfsreglunum sem ræddar voru á haustþingi sambandsins í Genf. Í framhaldinu skýrði Ásta frá umræðum fundar framkvæmdastjórnar Tólfplús-hópsins sem haldinn var í London 15. september en þar var einnig full aðild Palestínu að samtökunum stærsta málið á dagskrá. Nánar er fjallað um afgreiðslu máls Palestínu í frásögn af þingi IPU í Genf í október.

118. þing IPU í Höfðaborg 12.–18. apríl.
    Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið þau Ásta Möller, formaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður, og Þuríður Backman, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru þróunaraðstoð, atvinnumál innflytjenda, mansal og mannréttindi, konur og fjölmiðlar og heilsa ungbarna og mæðra. Enn fremur fór fram almenn umræða um baráttuna gegn fátækt í heiminum. Yfir 700 þingmenn frá 120 ríkjum sóttu þingið og hefur þátttakan aldrei verið meiri.
    Við setningu þingsins fluttu eftirfarandi aðilar ávörp: Thabo Mbeki, forseti Suður-Afríku, Baleka Mbete, forseti suður-afríska þingsins, dr. Asha-Rose Migiro, staðgengill aðalritara Sameinuðu þjóðanna (SÞ), og Katri Komi, settur forseti IPU. Síðar á þinginu fluttu m.a. erindi Y. Fall, yfirhagfræðingur þróunarsjóðs kvenna hjá SÞ, D. Payne, þingmaður frá Bandaríkjunum og formaður undirnefndar um Afríku og heilbrigði, og hollenski prinsinn, Willem- Alexander, formaður ráðgjafarnefndar SÞ um vatn og hreinlætisaðgerðir.
    Tvær pallborðsumræður fóru fram á þinginu, annars vegar um heilsufar mæðra og ungbarna og baráttuna við ungbarnadauða og hins vegar um friðaruppbyggingu í þágu sáttar. Fyrri pallborðsumræðan var skipulögð í samvinnu við barnahjálp SÞ (UNICEF) og opnaði forseti suður-afríska þingsins, B. Mbete, umræðuna. Rætt var um leiðir til að vinna gegn þeirri staðreynd að meira en 26 þúsund börn undir fimm ára aldri deyja daglega auk þess sem um hálf milljón kvenna deyr árlega af barnsförum. Einnig var haldinn umræðufundur um ástandið í efnahagsmálum í heiminum og áhrif neikvæðrar þróunar þess á lífskjör og lífsviðurværi fólks.
    Rætt var um ástandið í Simbabve og sendu þingmenn frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er samstöðu um viðleitni þjóðarleiðtoga SADC-ríkjanna (samtök 12 ríkja í suðurhluta Afríku) til að leysa þá pattstöðu sem komin er upp vegna kosninganna í Simbabve. Stjórnvöld Simbabve eru eindregið hvött til að taka á móti svæðisbundnum þingmannasamtökum og kosningaeftirlitsstofnunum ef endurtaka á kosningarnar þar í landi. Í yfirlýsingunni er einnig brýnt fyrir stjórnvöldum í Simbabve að aflétta strax hömlum á málfrelsi og þess krafist að þingið verði kallað saman eins fljótt og mögulegt er. Á sama tíma eru þjóðþing og stofnanir lýðræðisríkja hvött til að halda áfram að beita áhrifum sínum þar til lýðræðisleg niðurstaða kosninganna verður virt.
    Sex tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins, en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Nokkrir drógu tillögur sínar til baka, auk þess sem samstaða náðist um að sameina líkar tillögur. Neyðarályktunin sem hlaut samþykki fundarins fjallaði um það aðkallandi hlutverk þjóðþinga og IPU að stöðva versnandi ástand á ófriðarsvæðum, að auðvelda Palestínumönnum að endurheimta sjálfsákvörðunarrétt sinn, sérstaklega með því að binda enda á herkvína á Gaza, og flýta fyrir stofnun palestínsks ríkis með raunhæfu friðarferli. Þá ber að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
    Fastanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar. Ályktanir nefndanna voru síðan afgreiddar á þingfundi. Ágúst Ólafur Ágústsson tók þátt í störfum 1. nefndar um frið og alþjóðleg öryggismál, en þar var rætt um hlutverk þjóðþinga við að koma á jafnvægi milli öryggis þjóðar og frelsis einstaklingsins. Ágúst Ólafur tók jafnframt þátt í störfum 2. nefndar um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, en þar var rætt um þróunaraðstoð og stefnumótun ríkja. Þuríður Backman tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræði og mannréttindi, en hún fjallaði um atvinnumál innflytjenda, mansal og útlendingahatur. Þá fóru fram almennar stjórnmálaumræður á þinginu um baráttuna gegn fátækt í heiminum. Ásta Möller tók þátt í umræðunni og lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að konur væru virkir þátttakendur í þróun samfélaga, án þeirra væri illmögulegt að vinna bug á fátækt. Nú eru konur 70% þeirra sem skilgreindir eru sem mjög fátækir. Það er því ljóst að þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verður ekki náð án þess að unnið verði markvisst að jafnrétti kynjanna.
    Ráð IPU kom þrisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Þingin í Írak, Máritaníu og Timor-Leste fengu inngöngu í IPU en Bangladess var vikið úr sambandinu vegna vangoldinna árgjalda. Endurkomu þjóðþings Taílands í sambandið var fagnað og eiga nú 150 þjóðþing aðild að IPU. Rætt var um fulla aðild Palestínu að sambandinu en gera þarf breytingar á starfsreglum sambandsins til að hún nái fram að ganga. Tekin var ákvörðun um að nauðsynlegt væri að framkvæmdastjórn IPU fundaði sérstaklega um málið í júní og sendi í framhaldinu út breytingartillögu að starfsreglunum sem rædd yrði á næsta þingi sambandsins.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Ríkin sem í hlut áttu eru Bangladess, Hvíta-Rússland, Búrúndí, Kólumbía, Ekvador, Erítrea, Hondúras, Líbanon, Malasía, Mongólía, Búrma, Pakistan, Palestína/Ísrael, Filippseyjar, Rúanda, Sri Lanka, Tyrkland og Simbabve.
    Þess má geta að 28% þingfulltrúa á 118. þingi IPU voru konur, sem er lakari staða en á síðasta þingi (31%). Ellefu sendinefndir, eða 7% sendinefnda með fleiri en einn fulltrúa, voru einungis skipaðar körlum, en á 117. þingi voru þær 15, eða 9,5%.
    
119. þing IPU í Genf 12.–15. október.
    Fyrir hönd Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu þingið Ásta Möller, formaður, og Þuríður Backman, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru loftslagsbreytingar og endurnýjanleg orka, tjáningarfrelsi og réttur til upplýsinga, og hindrun útbreiðslu kjarnavopna og afvopnun. Enn fremur fór fram utandagskrárumræða um alþjóðlegu fjármálakreppuna. Yfir 500 þingmenn frá 134 ríkjum sóttu þingið, þar af 37 þingforsetar.
    Fimm tillögur um neyðarályktun eða utandagskrárefni voru lagðar fram fyrir upphaf þingsins (en aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU). Þar sem allar tillögurnar voru um fjármálakreppu heimsins var tekin ákvörðun um að tillaga Sameinuðu arabísku furstadæmanna yrði sett á dagskrá þingsins með stuðningi frá tillögum Belgíu, Egyptalands, Írans og Mexíkó. Utandagskrárumræðan bar yfirskriftina: Hlutverk þjóðþinga við að ráða niðurlögum fjármálakreppunnar í heiminum og efnahagsleg áhrif hennar á þróuð og vanþróuð ríki. Lögð var áhersla á aukið gegnsæi á fjármálamörkuðum og skýrari reglur í fjármálageiranum með það að markmiði að koma í veg fyrir að fjármálakreppa sem þessi endurtaki sig. Einnig var rætt um mikilvægi þess að auka yfirsýn fjármálastofnana og seðlabanka með varúðarstefnu að leiðarljósi. Þá var lögð áhersla á nauðsyn þess að draga úr félagslegum afleiðingum kreppunnar og lagt til að IPU boðaði til alþjóðlegrar þingmannaráðstefnu eins fljótt og auðið er þar sem orsakir og afleiðingar fjármálakreppunnar væru rannsakaðar með það að leiðarljósi að finna leiðir til að takast á við afleiðingar hennar. Ályktun þingsins endurspeglaði málefni umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Ásta Möller tók þátt í utandagskrárumræðunni og fór yfir þróun mála á Íslandi eftir nýafstaðið bankahrun. Hún lýsti vonbrigðum þjóðarinnar með viðbrögð alþjóðasamfélagsins þegar leitað var eftir stuðningi erlendra seðlabanka á ögurstundu til að koma í veg fyrir gjaldþrot stærstu banka landsins, en án árangurs. Hún lagði einnig áherslu á að íslenska ríkið hygðist standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar sínar. Alþingi hefði í því sambandi samþykkt neyðarlög sem tryggðu forgang slíkra krafna. Enn fremur sagðist hún þess fullviss að með nauðsynlegum stuðningi næðu Íslendingar sér út úr þeim fjárhagslegu hremmingum sem þjóðin væri komin í. Ísland væri ríkt af gjöfulum fiskimiðum, náttúruauðlindum, endurnýjanlegri orku og vel menntuðu vinnuafli, því væru framtíðarhorfur þjóðarinnar góðar. Mikilvægt væri að þjóðir heims lærðu af fjármálakreppunni og ynnu saman að því að ná stöðugleika á heimsmörkuðum.
    Umræður um skýrslur fastanefndanna þriggja fóru fram sem pallborðsumræður þar sem efni skýrslnanna var kynnt af skýrsluhöfundum og sérfræðingum og í framhaldinu tóku þingmenn þátt í umræðum. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var rætt um útbreiðslu kjarnavopna, afvopnun og tryggingu þess að samningum um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn sé framfylgt. Skýrsluhöfundar skýrðu fundargestum frá framgangi vinnu nefndarinnar við undirbúning skýrslunnar sem flutt verður á vorþinginu í Addis Ababa. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var fjallað um loftslagsbreytingar og endurnýjanlega orku. Í umræðu um drög að skýrslu nefndarinnar voru þingmenn sammála um nauðsyn samstillts átaks til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga en þeir höfðu afar ólíkar skoðanir á því hvaða leiðir væru ákjósanlegastar til árangurs. Meðan á umræðunni stóð voru lagðar fram fjölmargar breytingartillögur við skýrsludrögin. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var rætt um tjáningarfrelsi þegna lýðræðisríkja og rétt þeirra til upplýsinga.
    Nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna (SÞ) kynnti niðurstöður skýrslu sinnar og fór yfir framkvæmd skoðanakönnunar sem send verður til þinga aðildarríkjanna á næstunni. Könnunin tekur á samskiptum milli þinga og stofnana SÞ, en niðurstöður hennar verða ræddar á vorþingi IPU í Addis Ababa 2009. Þá hélt sérfræðingur frá SÞ erindi um réttinn til fæðu, matvælaáætlun SÞ (WFP) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) út frá vaxandi matvælaskorti í heiminum og þeim heilsufarslega vanda sem honum fylgir. Breyting á 3. gr. í starfsreglum IPU var samþykkt með miklum meiri hluta atkvæða (1.219 já, 93 nei, 230 sátu hjá) sem gerir löggjafarþingi Palestínu (PLC) kleift að öðlast fulla aðild að IPU. Formaður ísraelsku landsdeildarinnar tók til máls og lýsti yfir óánægju með breytingarnar og það fordæmi sem þær sköpuðu.
    Ráð IPU kom fjórum sinnum saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Þingin í Komoros, Óman og Síerra Leóne fengu inngöngu í IPU. Einnig voru breytingar á starfsreglum IPU sem veittu Palestínu fulla aðild að samtökunum samþykktar af ráðinu. Formaður palestínsku landsdeildarinnar ávarpaði þingið og þakkaði stuðninginn. Þá var Theo-Ben Gurirab, þingforseti Namibíu, kosinn nýr forseti IPU til næstu þriggja ára. Valið stóð á milli hans og Laksono, þingforseta Indónesíu, og vann Gurirab yfirburðasigur. Gurirab var forsætisráðherra Namibíu 2002–2005 og utanríkisráðherra frá 1990–2000.
    Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð IPU fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Þess má geta að 30% þingfulltrúa á 119. þingi IPU voru konur, sem er betri staða en á 118. þingi IPU (28 %).

Fundir framkvæmdastjórnar IPU 20. júní og í tengslum við 119. þingið 12.–15. október.
    Ásta Möller, einn af fjórum fulltrúum Tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU, sótti fundi stjórnarinnar, sem er skipuð 15 fulltrúum landfræðihópa þingsins auk forseta IPU og forseta undirbúningsnefndar kvennafundar IPU. Fundurinn 20. júní í Genf var haldinn sérstaklega til að vinna drög að breytingartillögu við starfsreglur samtakanna sem gerir Palestínu kleift að fá fulla aðild að samtökunum. Á fundum stjórnarinnar í tengslum við 119. þingið 12.–15. október var farið yfir þau mál sem eru á dagskrá funda IPU-ráðsins og ákvarðanir teknar sem lagðar eru fyrir ráðið. Tekin var ákvörðun um að þingin 2009 yrðu haldin í Addis Ababa og Genf. Kanada frestaði boði sínu um að halda vorþing 2010 til ársins 2011, þar sem enn hefur ekki fundist lausn varðandi vegabréfsáritanir til Kanada fyrir gesti ráðstefnunnar. Stjórnin lagði til við ráðið að vorþing 2010 yrði haldið í Taílandi. Þá var Elsa Papadimitriou frá Grikklandi skipuð varaforseti framkvæmdastjórnarinnar.
    
5. Ályktanir IPU árið 2008.
Ályktanir 118. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Hlutverk þjóðþinga við að koma á jafnvægi milli öryggis þjóðar og frelsis einstaklingsins.
     2.      Þróunaraðstoð og stefnumótun ríkja.
     3.      Atvinnumál innflytjenda, mansal, útlendingahatur og mannréttindi.
     4.      Aðkallandi hlutverk þjóðþinga og IPU að stöðva versnandi ástand á ófriðarsvæðum, að auðvelda Palestínumönnum að endurheimta sjálfsákvörðunarrétt sinn, sérstaklega með því að binda enda á herkvína á Gaza, og flýta fyrir stofnun palestínsks ríkis með raunhæfu friðarferli.
Yfirlýsing 118. þings IPU:
     1.      Lýst var yfir samstöðu um viðleitni þjóðarleiðtoga SADC-ríkjanna (samtök 12 ríkja í suðurhluta Afríku) til að leysa þá pattstöðu sem komin er upp vegna kosninganna í Simbabve.
Ályktanir 119. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
     1.      Hlutverk þjóðþinga við að ráða niðurlögum fjármálakreppunnar í heiminum og efnahagsleg áhrif hennar á þróuð og vanþróuð ríki.

Alþingi, 12. mars 2009.



Ásta Möller,


form.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


varaform.


Þuríður Backman.