Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 429. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 725  —  429. mál.
Greinargerð.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



1. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, 4. málsl., svohljóðandi: Sama á við um afla sem fæst við veiðar sem fara fram í fræðsluskyni, enda séu veiðarnar óverulegar og aflinn ekki fénýttur.

2. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í frístundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja eða fénýta hann á annan hátt.
    Ráðherra er heimilt að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða krókaaflamarks, enda sé aflinn einungis fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið.
    Aðilum sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við þann rekstur báta til frístundaveiða er skylt að sækja um sérstakt leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem nota skal í því skyni. Einungis er heimilt að veita leyfi til frístundaveiða aðilum sem fengið hafa leyfi sem Ferðamálastofa gefur út með stoð í 8. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Einungis er heimilt að stunda veiðar með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar á þeim bátum sem leyfi fá samkvæmt þessari grein.
    Leyfi til frístundaveiða, sbr. 3. mgr., eru tvenns konar:
     1.      Leyfi til að veiða tiltekinn fjölda fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Ekki er heimilt að nota fleiri en fimm sjóstangir og/eða færarúllur samtímis. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.
     2.      Leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts. Ráðherra ákveður með reglugerð hversu miklu magni hverjum báti sem stundar veiðar samkvæmt þessum tölulið er heimilt að landa daglega af ákveðnum kvótabundnum tegundum, sem ekki reiknast til aflamarks/krókaaflamarks viðkomandi báts. Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávarafla. Um afla þessara báta gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Ekki skal leitað staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs skv. 4. málsl. 3. mgr. 15. gr. vegna flutnings aflamarks til þessara báta. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.
    Innan sama fiskveiðiárs er einungis heimilt að veita báti leyfi annaðhvort skv. 1. tölul. 4. mgr. eða 2. tölul. 4. mgr. Við veitingu leyfa til frístundaveiða koma aðeins til greina skip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða á sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Leyfi til frístundaveiða skulu veitt til eins fiskveiðiárs í senn. Ekki er heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða. Þó er Fiskistofu heimilt að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða sem gildi fyrir tímabilið 1. maí–31. ágúst, enda stundi þeir ekki veiðar í atvinnuskyni innan þess tímabils.
    Rekstraraðili skal með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn báts reglur um takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi frístundaveiðar og enn fremur reglur um bann við brottkasti afla og reglur um meðferð afla.
    Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði og reglur um frístundaveiðar, þ.m.t. um skil á skýrslum vegna veiða frístundaveiðibáta og á sjóstangaveiðimótum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Til að styðja við ferðaþjónustu í byggðarlögum þar sem gerðir eru út bátar til frístundaveiða.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ráðherra skal áætla fyrir hvert fiskveiðiár það heildaraflamark sem ráðstafað er til frístundaveiða. Ráðherra ákveður jafnframt hversu mikill afli skuli ekki reiknast til aflamarks og getur hann breytt fyrri ákvörðun sinni í því efni innan fiskveiðiárs, m.a. með hliðsjón af áætluðum heildarafla og fjölda frístundabáta og þróun veiðanna.

4. gr.

    Lokamálsliður 2. mgr. 22. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Frá og með fiskveiðiárinu 2009/2010 skal skipta leyfilegum heildarafla í karfa upp í gullkarfa og djúpkarfa. Skal aflahlutdeild hvers fiskiskips í hvorri tegund í upphafi fiskveiðiársins 2009/2010 vera hin sama og hún hefði að óbreyttum lögum orðið í karfa.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


          Ráðherra fái heimild til að leyfa takmarkaðar veiðar í fræðsluskyni.
          Settar verði ítarlegar reglur um frístundaveiðar sem fara fram á vegum ferðaþjónustuaðila.
          Leyfilegum heildarafla í karfa verði skipt upp í veiðar úr gullkarfa og djúpkarfa.
    Viðamesta breytingin lýtur að skipan frístundaveiða og verður því gerð almenn grein fyrir þeim tillögum sem hér er lagt til að gerðar verði á þeim en um aðrar breytingartillögur vísast til athugasemda við einstakar greinar. Frístundaveiðar við Ísland er nýr vaxandi þáttur í ferðaþjónustu hér við land en veiðar á frístundafiskibátum eins og þekkjast í dag hófust að marki á Vestfjörðum árið 2006. Þessar veiðar hafa bæði verið stundaðar á venjulegum fiskibátum sem í annan tíma stunda veiðar í atvinnuskyni og sérstökum frístundabátum sem hafa verið smíðaðir sérstaklega í þessum tilgangi. Í samstarfi samgönguráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins og stofnana ráðuneytanna varð til skilgreining á fiskibátum til þessara nota og eru þeir skráðir sem slíkir. Frístundafiskibátur er að jafnaði minni og meðfærilegri en almennir handfærabátar og allur búnaður bátsins við það miðaður að þeir sem nota bátinn séu aðilar sem hafa ekki langa viðdvöl um borð í bátnum. Ekki var þó í neinu slakað á öryggiskröfum við smíðina enda bátarnir smíðaðir samkvæmt þeim kröfum og reglum sem almennt gilda um smíði íslenskra fiskiskipa.
    Fyrir liggja allnákvæmar upplýsingar um afla þessara frístundafiskveiðibáta enda hafa þeir bátar verið með leyfi til veiða í atvinnuskyni og þurfa að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í lögum og reglum um stjórn fiskveiða, þar á meðal um vigtun og skráningu sjávarafla. Heildarveiði þessara báta var um 200 tonn árið 2007 og var þorskafli þar af um180 tonn. Árið 2008 var heildaraflinn um 250 tonn og var þorskafli þar af um 220 tonn. Er fjöldi skráðra frístundabáta nú 43. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda annarra báta sem selja ferðir í sjóstangaveiði. Nokkrir aðilar sem selja skoðunarferðir á sjó bjóða einnig upp á sjóstangaveiði samhliða skoðunarferðunum, annaðhvort sem hluta afþreyingar í skoðunarferðum eða sem sérstakar veiðiferðir á sjóstöng. En líkt og með frístundafiskveiðarnar hefur slík ferðaþjónusta verið vaxandi undanfarin ár.
    Þann 20. febrúar 2008 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem samkvæmt skipunarbréfi hafði það hlutverk að fara yfir starfsumhverfi frístundabáta og greina hvort og með hvaða hætti unnt væri að taka tillit til sérstöðu útgerðar frístundaveiðibáta með hliðsjón af gildandi ákvæðum fiskveiðistjórnarlaga um nýtingu og verndun nytjastofna sjávar. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í janúar 2009. Við samningu þessa frumvarps var að miklu leyti tekið mið af niðurstöðum og tillögum starfshópsins og er með því tekið á þeim þáttum sem ætlað er að skýra og styrkja starfsumhverfi þessarar greinar ferðaþjónustunnar eins og hún snýr að markmiðum fiskveiðistjórnarinnar. Meginþættir tillagna nefndarinnar eru að veiðar frístundabáta verði leyfisbundnar og að þeir fái mjög takmarkaða heimild til þess að veiða fisk sem ekki reiknist til aflamarks þess báts sem hann veiðir. Í starfi nefndarinnar var uppi sú hugmynd að á hvert færi á báti sem leyfi hefði til veiða skv. 1. tölul. 4. mgr. 6. gr., sbr. 2. gr. frumvarpsins, mætti veiða fimm fiska daglega en bátum sem leyfi hefðu skv. 2. tölul. 4. mgr. sömu greinar væri heimilt að landa 10 kg utan kvóta daglega en eins og áður er sagt ræðst það af mati ráðherra og er þetta aðeins nefnt hér til skýringar. Er nánari grein gerð fyrir þessu í athugasemdum við 2. og 3. gr. Í þessu frumvarpi eru sett önnur almenn skilyrði fyrir þessari starfsemi sem ætlað er að taka tillit til nokkurrar sérstöðu hennar og fella hana að því fiskveiðistjórnarkerfi sem hér er beitt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 3. og 4. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar eða við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli ekki reiknist til heildarafla. Ekki er til staðar sérstök heimild til handa ráðherra að leyfa sérstaklega á sama hátt veiðar sem fara fram í fræðsluskyni, t.d. á skólabátum, en umsóknir um slíkt berast ráðuneytinu stundum og koma þær einkum frá fræðsluyfirvöldum. Hér yrði um mjög óverulegar veiðar að ræða, fyrst og fremst í því skyni að kynna fyrir t.a.m. nemendum í skólum veiðar, notkun veiðarfæra og lífríki hafsins við Ísland. Er því lagt til að ráðherra fái heimild til þess að veita þessa undanþágu í takmörkuðum mæli, enda verði aflinn ekki fénýttur.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. 6. gr. laganna er að finna gildandi ákvæði til veiða í tómstundum til eigin neyslu. Þá er í 2. mgr. sömu greinar heimildarákvæði ráðherra til að ákveða tiltekinn fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta þar sem afli telst ekki til aflamarks eða krókaaflamarks.
    Í 1. og 2. mgr. 2. gr. þessa frumvarps er gert ráð fyrir því að 1.–2. mgr. 6. gr. verði efnislega óbreyttar en þó er lagt til að gerðar verði þrjár minni háttar breytingar á þessum greinum. Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að segja að heimilt sé í „tómstundum“ að stunda veiðar til eigin neyslu eins og gert er í 1. mgr. 6. gr. þá verði notað orðalagið „í frístundum“ til samræmis við það orðalag sem almennt er notað í frumvarpinu. Í öðru lagi er lagt til að í sömu málsgrein verði sjóstöng tilgreind sem leyfilegt veiðarfæri en ekki handfæri eingöngu eins og nú er þar sem oftast munu sjóstangir vera notaðar við frístundaveiðar en ekki handfæri og þykir rétt að orðalag greinarinnar endurspegli það. Í þriðja lagi er lagt til að fellt verði niður í 2. mgr. 6. gr. ákvæði um að veiðidagar reiknist ekki til sóknardaga þar sem sóknardagakerfið hefur verið fellt niður.
    Þær málsgreinar sem á eftir koma, þ.e. 3.–8. mgr. 2. gr. frumvarpsins, eru hins vegar nýmæli sem lúta að frístundaveiðum þeirra aðila sem reka ferðaþjónustu. Í 3. mgr. er lagt til að ferðaþjónustuaðilar sem hyggjast bjóða viðskiptamönnum sínum upp á möguleika til þess að stunda veiðar í sjó hér við land þurfi að sækja um leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem þeir ætla að nota í því skyni. Gildir það hvort sem ferðaþjónustuaðilar stunda eingöngu sjóstangaveiðar eða veiðarnar eru einungis hluti þeirrar afþreyingar sem boðið er upp á. Skilyrði fyrir útgáfu þessa leyfis er að fyrir liggi leyfi Ferðamálastofu sem hún gefur út með stoð í 8. gr. laga nr. 73 24. maí 2005, um skipan ferðamála. Er útgáfa leyfis Fiskistofu háð framangreindu skilyrði til þess að ferðamálayfirvöld geti betur tryggt að öll umgjörð um þessa starfsemi sé með þeim hætti að fylgt sé fullnægjandi gæða- og öryggiskröfum auk þess sem eftirlit verði með þeim þáttum sem Ferðamálastofa telur ástæðu til.
    Í 4. mgr. er gerður greinarmunur á tvenns konar leyfum sem Fiskistofa gefur út til frístundaveiða. Annars vegar er um að ræða leyfi til handa þeim hópi sem stundar blandaða starfsemi þar sem sjóstangaveiði er ekki meginþátturinn í þeirri þjónustu sem boðið er upp á. Eru aðilum í þessum hópi heimilaðar mjög takmarkaðar veiðar með takmarkaðan fjölda sjóstanga án þess að leggja þurfi til aflaheimildir. Hins vegar er um að ræða leyfi til handa þeim aðilum sem markvisst gera út á sjóstangaveiðar í þeirri þjónustu sem boðið er upp á. Ráðherra skal ákveða hversu mikið magn skuli ekki reiknast til aflamarks frístundabáta og er nánari grein gerð fyrir því í athugasemdum við 3. gr.
    Þannig er gerður greinarmunur á aðilum í ferðaþjónustu sem annars vegar markvisst stunda fiskveiðar og hins vegar þeim aðilum sem bjóða upp á blandaða starfsemi þar sem sjóstangaveiðar eru óverulegur þáttur í þeirri afþreyingu sem í boði er. Mikilvægt er að mörkin milli þessara tveggja hópa séu skýr þannig að ljóst sé í hvorn flokkinn tiltekin starfsemi fellur og val aðila sé gert skýrt háð umfangi og eðli starfsemi þeirra. Þess vegna er kveðið á um það í 1. málsl. 5. mgr. að hver bátur eigi aðeins kost á leyfi til frístundaveiða annaðhvort skv. 1. tölul. eða 2. tölul. 4. mgr.
    Í 5. mgr. er áréttað að aðeins komi til greina við veitingu frístundaleyfa þau skip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða á sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Eigendur þeirra og útgerðir verða að fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Eru þetta sömu skilyrði og eru fyrir veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni skv. 5. gr. laganna.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að leyfi til frístundaveiða skuli veitt til eins fiskveiðiárs í senn og ekki sé heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða. Þó er gerð sú undanþága að heimilt er að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða enda stundi þeir ekki veiðar í atvinnuskyni innan þess tímabils.
    Í 7. mgr. er sett fram sú skylda að rekstraraðili skuli með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn báts reglur um sérhverjar takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi frístundaveiðar. Þar að auki reglur um bann við brottkasti afla og meðferð hans. Ábyrgð rekstraraðila felst því einkum í að sinna þeim skyldum sem á hann eru lagðar í þessu ákvæði ásamt því að skila skýrslum um veiðarnar.
    Í 8. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til þess að setja reglugerð um frekari skilyrði og reglur um frístundaveiðar, svo sem um skil á skýrslum um veiðar og önnur skilyrði vegna veiða frístundaveiðibáta og á sjóstangaveiðimótum.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að tvær breytingar verði gerðar á 10. gr. laganna. Þar segir að ráðherra hafi árlega til ráðstöfunar 12 þús. lestir af óslægðum botnfiski sem hann geti ráðstafað þannig:
     1.      Til fiskiskipa til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda.
     2.      Til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eða óvæntrar skerðingar aflaheimilda sem hafa haft áhrif á atvinnuástandið.
    Samkvæmt a-lið frumvarpsgreinarinnar er lagt til að við bætist nýr töluliður sem verði 3. tölul. og hljóði svo: Til að styðja við ferðaþjónustu í byggðarlögum þar sem gerðir eru út bátar til frístundaveiða.
    Hér er lagt til að ráðherra fái heimild til að ráðstafa ákveðnu magni af þeim heimildum sem hann hefur til þess að mæta skerðingu í aflamarki og til að styðja við byggðarlög í vanda til þess að efla ferðaþjónustu í byggðarlögum þar sem bátar eru gerðir út í því skyni. Eins og rakið hefur verið hefur orðið mikil aukning í rekstri ferðaþjónustu sem gerir að hluta til eða jafnvel að öllu leyti út á veiðar. Það er ljóst að slíkur rekstur getur mjög eflt ferðamannaiðnað í hlutaðeigandi byggðarlagi og stuðlað að fjölgun starfa þar. Hins vegar er einnig ljóst að nauðsynlegt er að setja þessum veiðum einhver mörk og koma skipulagi á þær þannig að þær megi þróast eðlilega og ekki sé ójafnvægi milli þessarar greinar ferðamannaiðnaðar og hinna almennu fiskveiða sem stundaðar eru í atvinnuskyni.
    Samkvæmt b-lið frumvarpsgreinarinnar ákveður ráðherra fyrir hvert fiskveiðiár þann heildarafla sem ætlaður er til eflingar starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu sem nýta við þann rekstur báta til frístundaveiða. Síðan ákveður hann hversu miklum afla hver bátur megi landa af kvótabundnum tegundum sem ekki reiknast til aflamarks/krókaaflamarks. Hann gerir það á grundvelli upplýsinga um fjölda báta sem leyfi fá til frístundaveiða. Það magn sem ekki reiknast til aflamarks getur bæði verið ákveðið sem fjöldi kílóa eða sem fjöldi fiska. Verði fjöldi báta umtalsvert meiri en áætlað var á grunni fyrirliggjandi upplýsinga getur ráðherra á hverjum tíma ákveðið að það magn sem kemur til frádráttar við löndun sé lækkað frá tilteknum tíma. Þannig er gert betur kleift að halda ákvörðuðu magni innan þeirra marka sem ákveðið var fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Það heildarmagn sem hann ákveður í þessu skyni dregst frá við úthlutun leyfilegs heildarafla skv. 1. tölul. 3. mgr. 8. gr. laganna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Um 4. gr.


    Engin tilvísun er lengur í lögunum til krókabáta. Þetta ákvæði er enn fremur óþarft þar sem 2. málsl. þessarar sömu málsgreinar tekur til álagningar veiðigjalds vegna veiða krókaaflamarksbáta á tegundum sem þeim eru ekki úthlutaðar veiðiheimildir í. Því er lagt til að ákvæðið sé fellt brott.

Um 5. gr.


    Allt frá upphafi kvótakerfisins 1984 hefur úthlutun aflaheimilda í karfa tekið til tveggja tegunda karfa, þ.e. djúpkarfa og gullkarfa. Hafrannsóknastofnunin hefur í nokkur ár lagt til í ráðgjöf sinni að aflamarki í gullkarfa og djúpkarfa verði úthlutað aðskildu. Þann 14. nóvember 2008 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem ætlað var að gera tillögur um reglur við framkvæmd skiptingar á heildaraflamarki fyrir gull- og djúpkarfa. Var hópurinn skipaður fulltrúum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Lagt er til að hvert skip fái sömu aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa og það hefði í karfa. Yrði þannig aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa hin sama. Er hér lagt til að tillögu nefndarinnar verði fylgt. Hópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra með bréfi dags. 12. desember 2008.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.